10.12.2005 11:15

Laugardagur 10. 12. 05.

Heyrðist að Baldur Þórhallsson í Háskóla Íslands væri eitthvað að jagast í mér í útvrapinu út af ummælum mínum í Morgunblaðinu vegna álits umboðsmanns alþingis um Falun gong. Baldur ætti að lesa pistil minn frá 9. júní 2002 um þetta mál.

Sé að Boris Johnson er að láta af ritstjórn The Spectator eftir sex og hálft ár þar samhliða þingmennsku, nú tekur hann að sér að fara með æðri menntun í nýju skuggaráðuneyti Davids Camerons. Johnson hefur aukið veg vikuritsins og segir það aldrei hafa verið útbreiddara en nú, prentað í 70.000 eintökum. Conrad Black réð Johnson á sínum tíma en nú er Black ekki lengur eigandi og situr undir ákæru í Bandaríkjunum.

Í The Spectator 3. desember birtist þessi texti í ramma á bls. 21.

„Í Politics dálki okkar 24. september skrifaði Andy McSmith: „Sagt er að Conor Cruise O'Brien heitinn hafi síðustu ár ævi sinnar skammast sín fyrir að koma frá ómerkilegu landi eins og Írlandi.“

Dr. Conor Cruise O'Brian er á lífi og hreykinn af því að vera írskur. The Spectator biður Conor Cruise O'Brian afsökunar á að hafa móðgað hann með þeirri ósönnu fullyrðingu, að hann skammaðist sín fyrir að koma frá Írlandi.“

Fórum síðdegis í Hallgrímskirkju og hlustuðum á einsöngvara, Schola Cantorum og alþjóðlega barokksveit flytja þrjá fyrstu kaflana í Jólaóratoríu Bachs undir stjórn Harðar Áskelssonar.