26.11.2005 19:12

Laugardagur, 26. 11. 05.

Hafi snjókornin í París í gær flokkast sem snjókoma, væri líklega unnt að kalla úrkomuna hér í morgun fannfergi. Það var þó lítið, sem festist á götunum, ég sá aðeins snjóföl, þegar ég ók með strætisvagni í gegnum garðinn fyrir framan Louvre-safnið á leiðinni af hægri bakkanum yfir á þann vinstri.

Síðdegis vorum við á málþingi um Sturlungu í sendiráðsbústaðnum, en hún hófst með ræðu Tómasar Inga Olrichs sendiherra, en þar lofaði hann sérstaklega hve mjög Regis Boyer prófessor hefði lagt sig fram um að kynna íslenskar bókmenntir með þýðingum sínum á frönsku, en hann hefur nýlokið við að þýða Sturlungu. Regis Boyer flutti erindi um Sturlungu, þá ræddi Patrick Guelpa, prófessor í Lille, um Guðmund biskup góða, en prófessorinn hefur nýlokið við að þýða Lilju á frönsku, loks flutti Einar Már Jónsson prófessor erindi um Þórð kakala.

Rúmlega 100 manns sátu málþingið og þágu veitingar sendiherrahjónanna að því loknu, en þá gafst tækifæri til hitta marga, sem vinna að því að kynna íslenska menningu í Frakklandi.