22.12.2005 22:09

Fimmtudagur, 22. 12. 05

Birtan var falleg í dag og ekki dró úr fögnuðinum, að deginn er tekið að lengja á ný. Síðan í ágúst hef ég farið í Laugardalslaugina í fyrsta hóp á morgnana og lengt sundsprettinn frá því sem hann hefur um langt árabil í Sundhöllinni - þótt ég sakni félaga minna þar, met ég meira að auka þrekið með meiri áreynslu við sundið.

Ég hélt áfram fundum í ráðuneytinu til að ná öllum þráðum saman vegna áformanna um stækkun lögregluumdæma og breytingar tengdum þeim, sem snerta einnig skipulag ákæruvaldsins.

Lengi fylgdist ég með Alistair Cook lesa vikulegt bréf sitt frá Ameríku í BBC World Service. Hann andaðist í mars 2004 95 ára að aldri og las bréf sín brostinni röddu undir lokin, en dánarmein hans var lungnakrabbi, sem hafði lagst í bein hans. Nú berast þær fréttir frá New York, að beinum hans kunni að hafa verið stolið af glæpagengi, sem þrífst á því að selja líkamshluta til lækninga. Fjölskylda hans fékk duftker með ösku, sem sögð var geyma leifar hans og var öskunni dreift í Central Park. Nú er dregið í efa, að þetta hafi verið rétt aska.

Aðrar fréttir frá Bandaríkjunum herma, að þar séu vaxandi andmæli gegn því, að kveðjan Happy Christmas sé að víkja fyrir kveðjunni Happy Holidays, sem á að þóknast þeim, sem fagna ekki fæðingu Krists. George W. Bush hafi meira að segja ekki treyst sér að hafa orðin Merry Christmas á jólakorti sínu og í þinginu séu menn hættir að taka sér jólaleyfi Christmas holiday, nú taki þeir sér vetrarfrí, Winter brake.