31.12.2005 16:23

Laugardagur, 31. 12. 05.

Ríkisráðsfundur var haldinn að Bessastöðum klukkan 10.30 eins og venja er á gamlársdegi.

Ég renndi yfir áramótagreinar flokksformannanna í Morgunblaðinu og staldraði við hinn neikvæða nöldurtón í grein Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Hvað þýða þessi orð: „Evrópusambandið er bannorð“? Eða þessi setning: „..íslensk stjórnvöld láti af andúð sinni í garð Evrópusambandsins“? Eða þetta: „Þeir flokkar sem hafna Evrópusambandsaðild með öllu verða að réttlæta fyrir þjóðinni það velferðartap sem við verðum fyrir í formi minni útflutningstekna, hærra matarverðs, hærri vaxta og mikilla hagsveiflna“? Ég veit ekki til þess, að Evrópusambandið sé neins staðar bannorð, ég sit til dæmis í nefnd með fulltrúum allra flokka, þar sem sífellt er verið að ræða um Evrópusambandið og alls ekki af neinni andúð. Hvernig er unnt að halda því fram, að við stöndum verr að vígi efnahagslega en Evrópusambandsþjóðir, þegar allar hagtölur sýna hið gagnstæða? Við erum fremst Evrópuþjóða, þegar samkeppnishæfni er metin, í fjórða sæti á eftir Bandaríkjunum, Hong Kong og Singapore.

Hvernig getur Ingibjörg Sólrún sagt að jafnaðarmennska sé í sókn en „nýfrjálshyggja“ eins og hún kallar sjálfstæðisstefnuna á undanhaldi? Í árslok 2004 mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 34,6% en 42% núna - þá mældist fylgi Samfylkingarinnar 30,2% en 27% núna. Þá var fylgi ríkisstjórnarinnar 46,7% en 53% núna.

Ingibjörg Sólrún ræðst að mér á þennan veg: „dómsmálaráðherra kaupir sig frá málaferlum sem eru yfirvofandi vegna geðþóttaákvörðunar við skipan hæstaréttardómara.“ Hér vísar hún til samkomulags, sem við Hjördís Hákonardóttir gerðum með vísan til álits kærunefndar jafnréttismála. Við Hjördís sömdum um námsleyfi hennar, en tímann ætlar hún að nota til lögfræðilegra rannsóknarstarfa. Árás á mig fyrir að ljúka þessu máli með góðri sátt og samkomulagi, getur flokkast undir venjulegt pólitískt skítkast - en varla á það við um Hjördísi, viðsemjanda minn. Hvers á hún að gjalda, að sitja undir slíkum ávirðingum?