7.12.2005 22:24

Miðvikudagur, 07. 12. 05.

Þingflokksfundir hófust klukkan 10.00 í morgun til að búa menn undir lokadaga þings fyrir jólaleyfi. Í hádeginu fór ég á Rotary-fund eftir langa fjarvist þaðan og hlustaði á Ingimund Sigfússon flytja fróðlegt erindi um reynslu sína af því að hverfa úr viðskiptalífinu til sendiherrastarfa.

Eftir hádegi voru fjárlög ársins 2006 samþykkt á alþingi. Nokkrar breytingartillögur voru við frumvarpið og tóku margir stjórnarandstæðingar til máls um næstum þær allar til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Líklega stafar þessi ræðugleði af sjónvarps- og netútsendingu úr þingsalnum, því að ekki breytir hún afstöðu neins þingmanns.

Eitt af því, sem stjórnarandstaðan ræddi (og eiginlega hið eina sem komst í ljósvakamiðlana), snerti fjárveitingar til mannréttindaskrifstofunnar, sem hún vildi binda í fjárlögunum. Á það var ekki fallist af meirihlutanum, á hinn bóginn varð sú breyting á fjárlagafrumvarpinu, að 4 milljónir til mannréttindamála voru fluttar frá utanríkisráðuneytinu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Á þessu ári úthlutaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið þessu fé, eftir að auglýst var eftir umsóknum um styrki. Finnst mér líklegt, að sami háttur verði hafður á næsta ári.