20.11.2005 22:30

Sunnudagur, 20. 11. 05.

Fékk í dag í hendur nýja bók Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings Völundarhús valdsins, sem byggist á dagbókum og minnisblöðum Kristjáns Eldjárns forseta Íslands og segir frá afskiptum hans af stjórnarmyndunum á árunum 1968 til 1980. Þessi bók á vonandi eftir að beina athygli manna að öðrum þáttum í störfum forseta Íslands en þeim, sem snerta synjunarvald hans samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar og leiða mönnum fyrir sjónir, að embætti forseta Íslands stendur hvorki né fellur með þeirri grein stjórnarskrárinnar, sem Kristján taldi raunar fráleitt, að forsetinn beitti nokkru sinni. Í forsetatíð Ólafs Ragnar Grímssonar, sem ekki hefur komið að neinni stjórnarmyndun, hefur verið látið eins og án synjunarvaldsins væri forsetaembættið einskis virði. Þetta er reginfirra og í 60 ár gátu forsetar setið og notið virðingar þjóðarinnar, án þess að ganga gegn vilja alþingis og í berhögg við þingræðisregluna. 

Las viðtal við Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í Morgunblaðinu í dag og fagna því, að honum hafi gefist tækifæri til að segja sína hlið á því mikla þrætuefni, sem skipan hans í hæstarétt hefur orðið. Það er með ólíkindum, hvernig vegið hefur verið að þessu vali mínu á reyndum dómara, þótt ungur sé að árum, og lögfræðingi með meistarapróf í Evrópurétti í hæstarétt. Þessar árásir eru ómaklegar gagnvart Ólafi Berki og þær breyta ekki neinu um ákvörðun mína, sem byggðist á skýrum málefnalegum sjónarmiðum.