23.12.2005 21:17

Föstudagur, 23. 12. 05.

Þorláksmessa hefur tekið á sig aðra mynd en á árum áður, þegar venja var að efna til mikilla samkvæma á vinnustöðum, að minnsta kosti þar sem ég vann á Almenna bókafélaginu og Morgunblaðinu á sjöunda, áttunda og fram á níunda áratuginn. Voru margir framlágir á aðfangadag fyrir bragðið og nutu sín ekki vel á jólunum. Þá er jólaglöggið einnig á undanhaldi á jólaföstunni en jólahlaðborð komin í staðinn eða jólamálsverðir á vinnustöðum - til dæmis er efnt til slíks hádegisverðar á alþingi í boði forseta þingsins miðvikudag skömmu fyrir þinghlé. Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tókum við starfsfólkið okkur einnig saman og pöntuðum hangikjöt með tilheyrandi í matinn einn desember-föstudag í hádeginu.

Umræðurnar um niðurstöðu kjaradóms halda áfram og undir kvöld var birt bréf Garðars Garðarsson hrl., formanns dómsins, til forsætisráðherra í framhaldi af samtali þeirra í gær. Þar rökstyður Garðar niðurstöðu dómsins. Hann segir meðal annars: „Þótt það ráði ekki ákvörðun Kjaradóms heldur sé aðeins haft til hliðsjónar, þá hefur launavísitalan frá maí 2003 til nóvember 2005 hækkað um 14,13% en laun Kjaradóms, með hækkuninni sem gildir fyrir árið 2006, um 13,64%“

Garðar segir, að kjaradómur sé mjög „meðvitaður um að ákvarðanir hans kunna að hafa áhrif langt út fyrir þann hóp sem Kjaradómur er að úrskurða laun. Leiðsögn Kjaradóms um það atriði er þó heldur veikburða í lögunum, en þar segir „Ennfremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“...Kjaradómur hlýtur ... að líta til þess hluta vinnumarkaðarins sem sambærilegur getur talist með tilliti til starfa og ábyrgðar eins og beinlínis stendur í lögunum.“

Bréfi sínu lýkur formaðurinn á þessum orðum: „Nauðsynlegt er að finna aðferð til að ákveða laun forseta, alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt getur verið um. Það þarf líka að huga að því að ríkið er á samkeppnismarkaði um hæfasta starfsfólkið.“

Milli jóla og nýars ræðir forsætisráðherra við aðila vinnumarkaðarins um málið. Morgunblaðið vill að þing komi saman milli jóla og nýárs og við þá ósk vaknaði stjórnarandstaðan með hið sama á vörunum.