1.12.2005 22:03

Fimmtudagur, 01. 12. 05.

Fullveldisdagurinn - er í höfuðstöðvum Evrópusambandsins meirihluta dagsins. Stjórna ráðherrafundi samsettu nefndarinnar um framkvæmd Schengen-samningsins. Umræðurnar snúast um það, hvort unnt verði að standa við fyrirheitið um aðild 10 nýju ESB-ríkjanna að Schengen árið 2007. Enn hefur ekki verið greitt úr lögfræðilegum álitaefnum auk þess sem tæknileg atriði varðandi gagnagrunn landamæraeftirlits eftir stækkun eru óleyst.

Notaði tímann einnig til að ræða málefni til undirbúnings fyrir starf Evrópunefndar.

Les þessa frétt á ruv.is:

„Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallups nema hvað fylgi Samfylkingarinnar minnkar sjötta mánuðinn í röð. Formaður flokksins segir unnið að innra starfi og að þessar tölur muni breytast.

Þjóðarpúls Gallups var unninn dagana 26. október til 28. nóvember. Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú tæplega 11% en var um 9% í síðasta Þjóðarpúlsi, kjörfylgið var um 18%.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst líka á milli mánaða og er nú tæp 43%, var um 41% sem er nokkru meira en fylgið í kosningunum 2003 sem var um 34%.

Frjálslyndi flokkurinn mælist nú með 3,5% fylgi, aðeins minna en síðast og nokkuð undir 7% kjörfylgi.

Samfylkingin er með ríflega 25% fylgi en það var um 28% síðast og fylgið í kosningunum mældist 31%.

Fylgi Vinstri-grænna eykst á milli mánaða, það mælist tæp 18% sem er prósentustigi meira en síðast og helmingi meira en kjörfylgið.“
 
 
Vek athygli á því, sem ég hef feitletrað - spyr enn: Er Ingibjörg Sólrún að velta fyrir sér að láta Össur taka við á ný? Fylgi Samfylkingarinnar hefur minnkað jafnt og þétt síðan hann tapaði fyrir henni sem formaður. Er lýsingin á fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki of varlega orðuð - flokkurinn mælist með 9% meira fylgi en í kosningunum 2003? Orðalagið er sambærilegt við það og notað er um 3,5% minna fylgi Frjálslynda flokksins í kosningunum!