Þriðjudagur, 06. 12. 05.
Ríkisstjórnarfundur var í styttra lagi, þar sem atkvæðagreiðslur áttu að vera í þinginu klukkan 10.30 en þær hófust þó ekki fyrr en um hálftíma síðar, þar sem stjórnarandstæðingar tóku til máls um störf þingsins í upphafi fundar og beindu máli sínu til menntamálaráðherra vegna samræmdra prófa og frumvarps um RÚV. Skrýtnast var að heyra vinstri/græna býsnast yfir því, að menntamálaráðherra hefði kynnt frumvarpið um RÚV í Kastljósi áður en það var lagt fram á alþingi, slíkt mætti bara ekki! Ég man ekki betur en vinstri/grænir efni til blaðamannafundar fyrir þingbyrjun til að kynna væntanleg þingmál sín - má það kannski ekki?
Var klukkan 14.00 í borgarstjórn, þar var rætt í annað sinn um fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Ég skil ekki hvernig Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri nennir að vera sífellt að tönnlast á því, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fjárhagsáætlun sína fyrir árið 1994 ( fyrir 11 árum) eins og það skipti einhverju máli enn þann dag í dag og borgarstjóri hneykslast á því, að þessi áætlun hafi nú ekki verið eins vel úr garði gerð og fjárhagsáætlun sín núna, það hafi vantað eitthvað inn í hana og borgarsjóður hafi verið með yfirdrátt í Landsbankanum o. s. frv. o. s. frv.
Ég vakti athygli borgarstjóra á því, að ný lög um frágang og efni fjárhagsáætlunar hefðu verið sett 1998 og árið 2000 hefði félagsmálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu vegna kæru frá Sjálfstæðisflokknum, að R-listinn færi ekki að þeim lögum við gerð fjárhagsáætlunar sinnar. Hvernig henni dytti í hug að vera eltast við eitthvað gagnvart Sjálfstæðisflokknum, sem ekki var lögbundið árið 1994? Yfirdrátturinn gilti í samskiptum Reykjavíkurborgar og Landsbankans um árabil. Hann var auðvitað eins smámynt í samanburði við skuldafjall R-listans um þessar mundir, en það er orðið svo stórt, að erfitt er að lýsa því svo nokkur skilji.
Þetta tal Steinunnar Valdísar um eitthvað frá því fyrir 1994 til að réttlæta gjörðir R-listans minnir mig á, hvað ég varð undandi, þegar ég settist á alþingi árið 1991 og framsóknarmenn á þingi voru enn að rífast út Sjálfstæðisflokkinn fyrir eitthvað, sem gerðist á viðreisnaráratugnum, en honum lauk árið 1971, 20 árum áður. Það getur hæglega orðið að kæk hjá stjórnmálamönnum að fara alltaf að tala um hið sama, hvað svo sem er á dagskrá. Mér heyrist helst, að Steinunn Valdís sé með þennan kæk að því er varðar Sjálfstæðisflokkinn. Umræðustjórnmál af þessum toga skila auðvitað engu.
Í kvöld fór ég í Fíladelfíukirkjuna og naut þess vel að hlusta á hina árlegu tónleika þar, sem síðan er sjónvarpað á aðafangadagskvöld.