Mánudagur, 19. 12. 05.
Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík kom saman klukkan 17.15 í Valhöll og samþykkti einum rómi framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 27. maí 2006. Á listanum er úrvalsfólk, jafnmargar konur og karlar.
Sama dag og listinn var ákveðinn efndi Dagur B. Eggertsson til blaðamannafundar og bauð sig fram til fyrsta sætis á lista Samfylkingarinnar næsta vor og berst hann um sætið við Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra og Stefán Jón Hafstein, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn. Fleiri kunna enn að bjóða sig fram í þetta sæti, því að prófkjörið verður ekki fyrr en í febrúar 2006.
Á morgun er fundur í borgarstjórn og þar er fyrsta mál á dagskrá R-listans um að taka þátt í baráttu gegn dauðarefsingum. Tillagan er til marks um, hvaða mál það eru eftir dauða R-listans, sem helst sameina hann, það er mál, sem geta ekki valdið ágreiningi. Ég veit ekki um neinn Íslending, sem er fylgjandi dauðarefsingu.
Veki menn máls á gagnrýni í garð DV má treysta því, að þeir verði fyrir óvild af hálfu blaðsins. Dæmi um þetta er í DV í dag, 19. desember. Þar er fjallað um mig í ritsjórnargrein á bls. 2 undir þessari fyrirsögn: Sjálfstæðis-Snati segir voff. Meginmálið er þetta:
„„Ég hef margsinnis mótmælt því, að með orðinu Baugsmiðlar sé ég að uppnefna fjölmiðla í eigu Baugs og ég tel fráleitt, að það sé niðrandi fyrir fjölmiðla að vera kennda við eiganda sinn,“skrifar Björn Bjarnason eða Sjálfstæðis-Snati eins og hann er stundum kallaður þá kenndur við eiganda sinn, á síðu sinni.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari segir í úrskurði þar sem hann hafnar frávísun Baugsmálsins að ráðherra hafi sýnt óvild sína í síendurteknum uppnefnum á borð við „Baugsmiðla“, „Baugstíðindi“ eða „fjölmiðla í eigu Baugs“. Sjálfstæðis-Snati verður seint sagður meistari útúrsnúninganna.“
Takið eftir, að DV fullyrðir, að dómarinn hafi sagt mig sýna óvild. Í úrskurði dómarans segir hins vegar: „Telja verjendur ummæli þessi sýna óvild dómsmálaráðherra í garð Baugs hf. og ákærðu...“ Þetta sýnir virðingu DV fyrir sannleikanum.