26.12.2005 15:50

Mánudagur, 26. 12. 05.

Jólin hafa verið tíðindalaus og mér hefur gefist tími til þess að læra betur en áður að nota starfrænu myndavélina mína og átta mig á kostum hennar. Ef til vill á ég eftir að verða iðnari við að setja myndir inn á síðuna, ef ég man þá eftir að hafa myndavélina með í för. Epilca-forritið er þannig úr garð gert, að mjög auðvelt er að flytja myndir inn á vefsíður. Ég bætti fáeinum myndum inn á mynadsíðuna mína núna.

Eftir að ég ritaði um jólasveininn á síðuna á aðfangadag, heyrði ég frá því sagt í fréttum ljósvakamiðla Baugs, að herra Karl Sigurbjörnsson biskup hefði í aðfangadagsprédikun sagt, að hann tryði ekki á jólasveininn. Kafli úr prédikun biskups er birt á www.visir.is og þar segir:

„Grýlur og jólasveinar er í besta falli leikur, skemmtun. Allir hafa gott af því að bregða á leik. Ég hef oft leikið jólasvein. En ég trúi ekki á jólasveininn, fremur en nokkur heilvita, fullorðin manneskja. Það er munur á leik og alvöru. Börnin skynja það. Börn læra að greina milli sannleika og blekkinga. Þau þekkja leikinn og ævintýrið. En þau vita líka hvað er satt og heilt. Það er mikil synd þegar hinir fullorðnu gera þar ekki greinarmun á, og rugla börn beinlínis í ríminu. Jólaguðspjallið er heilagur sannleikur."

Þarna sjáum við hver munur er á því að trúa á eitthvað eða ímynda sér eitthvað í leik, sem byggist á frjóu ímyndunarafli.

Í Berlingske Tidende í dag birtist grein undir fyrirsögninni: Kejserens nye storslaaede penge. Efnið er kynnt á þennan hátt: „Danmark Aarets gang 2005 gav islandske tilstande overalt í dansk erhversliv - og i privatökonomierne. Det blev stiftet gæld for milliarder og atter milliarder, og nu maa vi bare haabe, at det ikke er en moderne udgave af „Kejserens ny Kæder“.