30.12.2005 23:06

Föstudagur, 30. 12. 05.

Ríkisstjórnin kom saman klukkan 09.30 og ræddi um niðurstöðu kjaradóms og viðbrögð við honum. Ákveðið var, að þing yrði ekki kallað saman en fyrir það yrði lagt 17. janúar frv. um að launahækkun skyldi verða 2,5% hjá þeim sem kjaradómur hækkaði. Eftir ríkisstjórnarfundinn hittu forsætisráðherra og utanríkisráðherra forystumenn stjórnarandstöðunnar og samkvæmt fréttum var ákveðið þar, að stjórnarandstaðan myndi huga að að því að tilnefna menn í nefnd til að móta framtíðarskipan mála, eftir að þing hefði fjallað um frv. um breytingu á niðurstöðu kjaradóms.

Þættir í útvarpi eða sjónvarpi um upprifjanir á árinu eða dómar um hvað þótti merkilegt eða ómerkilegt, skemmtilegt eða leiðinlegt, vekja ekki sérstakan áhuga minn. Kannski er það vegna hins pólitíska rétttrúnaðar, sem einkennir þættina, að þeir eru svona óspennandi og í raun fyrirsjáanlegir, þegar vitað, hverjir taka þátt í þeim.

Ég tek undir með Vef-Þjóðviljanum í dag, þegar hann vekur athygli á mismunandi viðbrögðum fjölmiðlamanna við því, þegar kjörnir fulltrúar skipta um flokka. Ef fólk snýr til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn úr Frjálsynda flokknum eða Samfylkingunni er látið eins og um pólitíska dauðasynd sé að ræða en hætti menn að verða óháðir til að ganga í Samfylkinguna er látið eins og um sjálfsagðan hlut sé að ræða.