17.12.2005 18:09

Laugardagur, 17. 12. 05.

Þegar ég sá fyrirsögnina: Kyrrðin í hreyfingunni á forsíðu Lesbókar Morgunblaðsins í dag, datt mér strax í hug qi gong. Síðan sá ég, að þarna var Fríða Björk Ingvarsdóttir blaðamaður að skrifa um dvöl sína í Kína og vitnaði í tai-chi-meistarann Yang Ai Min, sem fræðir hana um gildi hins kínverska viðhorfs að lifa í nú-inu í vissu þess, að fortíðin hafi mótandi áhrif. Þá segir: „Fortíðin - sem hið kyrra afl lifir m. ö. o. í hreyfingu líðandi augnabliks. Sama hugsun er undirstaðan í tai chi, sem einstaklingar hafa í árþúsundir notað sem farveg til að finna „kyrrðina í hreyfingunni“, eins Yang orðaði það.“ Þetta rímar vel við það, sem við segjum í qi gong, grunnæfingum tai chi og kínverskrar bardagalistar. Við njótum „núsins“ í vissunni um, að við breytum ekki fortíðinni og ráðum ekki framtíðinni.

Síðasta qi gong æfing hóps Aflsins, félags qi gong iðkenda, fyrir jól var kl. 08. 10 föstudaginn 16. desember. Við hittumst þrisvar í viku á þessum tíma og æfum saman í 40 mínútur.

Hlustaði á fréttir á NFS kl. 19.30 og þar var sagt, að „í morgun“ hefði ég sagt eitthvað um rannsóknir á svonefndu fangaflugi á vegum Bandaríkjastjórnar. Ég hef ekki talað neitt við fréttamenn NFS í dag. Fréttamennska með röngum tímasetningum brýtur einföldustu reglur vandaðra fjölmiðla.