8.12.2005 22:35

Fimmtudagur, 08. 12. 05.

Þingfundir áttu að hefjast klukkan 10.00 í morgun, en þeim var frestað til kl. 13.00, þar sem kviknaði í gamalli rafmagnstöflu í þinghúsinu á níunda tímanum.

Atkvæðagreiðsla var í þinginu kl. 18.00 og eftir hana fór ég í Tollstöðina, þar sem opnuð var sýning á vegum tollvarða í tilefni af 70 ára afmæli félags þeirra. Flutti ég stutt ávarp á sýningunni.

Ég hef áður vitnað hér á síðunni í vikulegan dálk, sem Paul Johnson skrifar í vikuritið The Spectator. Í síðasta heftinu, sem ég las, segir hann frá bænum sínum á aðventunni, en Johnson er rammkatólskur. Hann segist hafa lært það sem barn á fjórða áratugnum að biðja þess, að Guð kæmi aftur til Rússlands og 1989 hafi kraftaverkið gerst. Þá segir Johnson:

„Guð svarar þannig bænum að lokum, ef þær eru bornar fram af heilum huga og eru verðugar og réttlátar. Ég bið, að England fari að nýju undir hina heilögu móðurkirkju, fyrir endalokum poptónlistar og sjónvarps, fyrir útrýmingu á nútímalist, Picassoisma og öllu slíku drasli, niðurrifi Tate nútímasafnsins ( þó ég sé ekki viss um að það sé löglegt), hruni ofbeldisfulls íslam, frelsun Kína, Norður Kóreu og Kúbu og að Englandi verði bjargað undan ómenningu, dónaskap og Evrópusambandinu. Ég er þolinmóður. Við sjáum, hvað setur.“

Mér datt í hug að setja þessa skorinorðu afstöðu hér á síðuna, þegar ég sá, að höfundur Staksteina rifjaði upp komu Roberts Conquests til Íslands í morgun og spásögn hans frá því snemma á áttunda áratugnum um þróun stjórnmála í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fórum við saman Staksteinahöfundurinn og ég með Conquest í ógleymanlega ökuferð austur fyrir fjall og kynnumst viðhorfum hans. Þá var hann þekktastur fyrir að hafa afhjúpað fjöldamorð Stalíns í Úkraínu í bók sinni The Great Terror. Conquest er enn að og hefur nýlega sent frá sér bók, þar sem hann varar við aðför að lýðræðinu fyrir tilstilli alþjóðastofnana, sem lifi eigin lífi.