5.12.2005 22:16

Mánudagur, 05. 12. 05.

Var á fundi með borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna í hádeginu, síðan í þingflokknum og loks við upphaf þingfundar, þegar óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru á dagskrá. Engin spurning var lögð fyrir mig.

Á þingflokksfundinum var samþykkt heimild til menntamálaráðherra til að leggja fram frumvarp um að breyta RÚV í hlutafélag í eigu ríkisins. Ég hóf baráttu fyrir því í tíð minni sem menntamálaráðherra að þessi breyting yrði gerð á RÚV. Er fagnaðarefni að þessi áfangi hafi náðst í samvinnu við Framsóknarflokkinn. Andstæðingar þessa nýmælis bera hag RÚV ekki fyrir brjósti.

Í svari vegna minnkandi gengis í skoðanakönnunum sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, að nú væri unnið að því að bæta innra starf flokksins og þetta mundi allt fara batnandi. Í dag var síðan skýrt frá því að Skúli Helgason, stjórnmálafræðingur, fyrrverandi fjölmiðlamaður og starfsmaður Eddu, yrði framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar frá áramótum. Þá mundi Sigrún Pálsdóttir fjölmiðlafræðingur sjá um nýjan upplýsingavef flokksins.

Skúli Helgason skrifaði einlæga saknaðargrein um R-listann, þegar hann var í andaslitrunum eða kannksi nýlátinn. Líklegt er, að framkvæmdastjórn Skúla verði til að ýta undir framboð Dags B. Eggertssonar í efsta sæti á borgarstjórnarlista Samfylkingarinnar. Dagur er einnig harmi sleginn yfir dauða R-listans - en listinn var í gjörgæslu, frá því að Ingibjörg Sólrún sneri baki við honum til að verða forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Nú ætlar þetta þríeyki að lyfta Samfylkingunni í áður óþekktar hæðir.