28.12.2005 20:56

Miðvikudagur, 28. 12. 05.

Dagar eins og þessi eru ágætir til að fara yfir mál, sem krefjast nokkurrar yfirlegu í ráðuneytinu, því að ekki er mikið um að óskað sé eftir afgreiðslum mála á milli jóla og nýárs. Sat meginhluta vinnudagsins á fundi með samstarfsfólki mínu til að ræða efni mikils lagabálks - og setti mynd af fundinum inn á myndasíðuna mína, einkamál.

Ég missti af því á Mont Pelerin fundinum hér í sumar, þegar Andrei Illarionov, efnahagsráðgjafi Vladimirs Putins Rússlandsforseta flutti erindi sitt, en haft var á orði við mig af þeim, sem hlustuðu á hann, að mikið væri, ef hann yrði ekki rekinn fyrir þá þungu gagnrýni, sem hann flutti á stjórn efnahagsmála og stjórnarhætti almennt í Rússlandi.

Illarionov hefur sagt af sér og BBC hafði eftir honum í gær, að í Rússlandi ríkti ekki lengur stjórnmálalegt frelsi heldur réðu ríkisfyrirtæki ferðinni og þau hugsuðu aðeins um eigin hag. „Ég skrifaði ekki undir samning við slíkt ríki,“ sagði Illarionov við fréttamenn og bætti við: „Eitt er að starfa í landi, sem er að nokkru frjálst. Annað er þegar stjórnmálakerfið hefur breyst og landið er ekki lengur frjálst og lýðræðislegt.“ Hann sagðist einnig hafa getað sagt það, sem honum bjó í brjósti, en nú hefði það einnig breyst.

Viktor Tsjérnomírdin, fyrrverandi forsætisráðherra Rússlands, sem er nú sendiherra lands síns í Úkraínu, sagði ekkert mark takandi á gagnrýni Illarionovs, hann hefði verið orðinn alltof neikvæður og með allt á hornum sér. „Það voru mistök að hafa hann svona lengi í Kreml,“ sagði sendiherrann við Interfax-fréttastofuna.

Kjaradómur svaraði bréfi forsætisráðherra frá því í gær og í svarinu sagði meðal annars:

„Kjaradómur ítrekar, að ákvörðun sína þann 19. desember s.l. tók dómurinn að virtum öllum þeim reglum sem honum ber að fara eftir samkvæmt lögum nr. 120/1992. Formaður dómsins gerði ráðherra ítarlega grein fyrir sjónarmiðum þeim sem lágu að baki ákvörðuninni með bréfi dags. 23. þ.m. Hefur ekkert það komið fram sem bendir til að dómurinn hafi ekki gætt lögmætra sjónarmiða við þá ákvörðun. Það er því niðurstaða dómsins að úrskurður hans frá 19. desember 2005 skuli óbreyttur standa.“