Föstudagur 25. 11. 11
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra neitaði í dag að veita Huang Nubo, fjárfesti frá Kína, undanþágu til að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Hann sagðist ekki hafa lagaheimild til að veita undanþáguna um það séu lögfræðingar ráðuneytis hans sammála. Þeir sem draga þessa lögfræðilegu niðurstöðu í efa geta leitað réttar síns fyrir dómstólum.
Ég tel að niðurstaða lögfræðinganna sé rétt. Lögin ber meðal annars að túlka í ljósi umræðnanna sem urðu á alþingi vegna aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Var mjög varað við því að með aðildinni yrði opnað fyrir kaup útlendinga á íslensku landi. Við sem stóðum að samþykkt aðildarinnar lögðum okkur fram um að verja þann málstað að setja eigi kaupum útlendinga á landi sem þrengstar skorður. Var það liður í því að mynda nægan meirihluta meðal þingmanna til stuðnings EES-samningnum.
Ég tek undir þá röksemd innanríkisráðuneytisins að yrði undanþága veitt til að kaupa 300 ferkílómetra land jafngilti það að undanþágureglan yrði í raun úr sögunni.
Eitt er að samfylkingaþingmenn láti öllum illum látum vegna niðurstöðu Ögmundar annað að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra tali um ákvörðun ráðherra í ríkisstjórn sinni eins og hún gerir. Hún segir Ögmund hafa valdið sér vonbrigðum og bætir við: „Ég tel það óheppilegt hvað ráðherra hélt þessu máli fyrir sjálfan sig og var búin að tilkynna hana viðkomandi aðila áður en hann kom á ríkisstjórnarfund í morgun og það var auðvitað afar óheppilegt.“
Jóhanna reynir á þennan hátt að skjóta sér undan ábyrgð á ákvörðun Ögmundar, hún ber hins vegar ábyrgð á Ögmundi, hún ritar undir skipunarbréf hans og veitir honum lausn. Annaðhvort stendur hún með ráðherra í ríkisstjórn sinni eða veitir honum lausn. Hér eins og svo oft áður ætlar Jóhanna að leika tveimur skjöldum. Hún hefur ekki burði til að reka Ögmund án þess að falla sjálf.
Fyrir Kínverjum vakir ekki aðeins að kaupa land heldur einnig að skapa sér aðstöðu til pólitískra áhrifa. Þeim hefur svo sannarlega tekist það þótt landið falli ekki í kínverskar hendur.