24.11.2011

Fimmtudagur 24. 11. 11

Í dag varð lántökukostnaður breska ríkisins lægri en hins þýska í fyrsta sinn í þrjú ár. Í gær gerðist það í fyrsta sinn síðan evran kom til sögunnar að þýska ríkið gat ekki selt öll skuldabréf sín í útboði.

Bresk blöð telja þetta til marks um að evran sé á hraðferð á öskuhaug sögunnar. Bandaríkjamenn fari með fé sitt af evru-svæðinu. Breskir bankar láni bara öruggustu viðskiptavinum sínum.

Hér á landi er utanríkisráðherra þeirrar skoðunar að evran verði betri eftir gjöreyðinguna. Þess vegna sé best að hraða sér inn á evru-svæðið. Stjórnmálamenn eru gagnrýndir fyrir að sjá ekki bankahrunið 2008 fyrir. Nú stjórna hér menn sem sjá ekki hrun evrunnar og vilja ólmir komast í rústirnar.