7.11.2011

Mánudagur 07. 11. 11

Ég skrifaði sjötta pistil minn frá Berlín í dag og má lesa hann hér.

Af því tilefni fékk ég bréf frá dyggum lesanda síðu minnar sem sagði:

 „Þessi viðmælandi þinn í dag, þingmaður í Bundestag, sem var andvígur aðild Íslands að ESB, hvaða rök færði hann fyrir máli sínu ? Fróðlegt væri að vita, hvað viðmælendur þínir sjá helzt í vegi aðildar Íslands. Eru það sömu rök og við höfum teflt fram, eða eru það einhver önnur rök ?


Nú eru einu rök aðildarsinna, að þjóðin verði að fá að tjá sig um samning til að fá málið út af borðinu. Þetta er rökleysa hins fávísa manns, sem langar mikið inn í ESB, en skortir dómgreind til að leggja mat á upplýsingar, sem liggja á borðinu.“


Ég svaraði:

„Þingmaðurinn skilur einfaldlega ekki að nokkrum detti í hug að ætla inn í ESB núna þegar allt er þar á hverfanda hveli. Þeir sem eru innan ESB vita ekki hver framvindan verður, hvers vegna skyldi þjóð eins og Íslendingum þykja kappsmál að tengjast þessu öngþveiti. [...]

Eitt er að sjá rök í vegi fyrir – annað er að sjá rök með, menn átta sig ekki á því hvaða rök knýja á um aðildarumsóknina. Þeir skilja þau ekki miðað við stöðu Íslands og tengsl við ESB. Í Berlín segja menn: Þið fáið málið út af borðinu með því að ákveða það sjálfir hvernig sem þið gerið það. Enginn bað ykkur um umsókn, þið ákváðuð hana sjálfir. Þið ráðið líka hvernig ferlinu lýkur.“