5.11.2011

Laugardagur 05. 11. 11

Í morgun birti Þorsteinn Pálsson, fulltrúi í ESB-viðræðunefnd Össurar Skarphéðinssonar, grein í Fréttablaðinu og sagði andstæðinga ESB-aðildar jafnframt að snúast gegn NATO.

Í fréttum RÚV í kvöld var rætt við Benedikt Jóhannesson formann sjálfstæðismanna sem vilja að Ísland gerist aðili að ESB. Benedikt sagði meðal annars:

„En það er ekki þar með sagt að það séu allir asnar sem eru á móti Evrópusambandinu. Menn eiga bara hins vegar að afgreiða þetta með rökum en ekki því að þeir séu á móti því bara vegna þess að Samfylkingin sé með því.“

Erfitt er að gera upp á milli þess hvor er ómálefnalegri Þorsteinn eða Benedikt. Hvers vegna færa þeir ekki rök fyrir málstað sínum í stað þess að hnýta í aðra?

Undanfarnar  vikur hef ég kynnt mér afstöðu manna í Brussel og Berlín til aðildarumsóknar Íslands. Þegar spurt er hvað hafi orðið til þess að Íslendingar sóttu um bendi ég á tvennt: kröfu Samfylkingarinnar og þrána eftir að komast inn á evru-svæðið.

Stuðningur eins flokks og sundrunarafla í öðrum flokkum skapar ekki nægan pólitískan bakhjarl í nokkru landi til ESB-aðildar. Af þeim sökum hafa menn ekki mikla trú á því að Ísland gangi í ESB. Hafi þrá eftir evrunni ráðið för er það almennt viðhorf að þá hljóti menn nú að staldra við og hugsa sinn gang.

Ef til vill þarf ekki að koma á óvart að Þorsteinn og Benedikt færi ekki rök fyrir ESB-aðildinni? Þau finnast einfaldlega ekki.