9.11.2011

Miðvikudagur 09. 11. 11

Það var rakur kuldi í Frankfurt am Main í dag. Ég átti frí frá viðtölum og við fórum í skoðunarferð um borgina. Fáir tóku þátt í henni enda þótti okkur þetta fyrsti vetrardagurinn á ferðalagi okkar eftir sólbjarta daga í Brussel og Berlín. Háhýsin í Frankfurt minna á að borgin er miðstöð fjármála í Þýskalandi og á það er einnig rækilega minnt í öllu kynningarefni um borgina. Þar er jafnframt vakið máls á gildi sýninga fyrir hana en sýningarskálar borgarinnar eru risavaxnir og umsvifin í kringum sýningar gífurlega mikil.

Við höfðum gaman að því að skoða sýningar Gabríelu Friðríksdóttur og Errós í safni í hjarta elsta hverfis borgarinnar í skjóli dómkirkjunnar þar sem keisarar voru krýndir. Okkur kom þó á óvart að sjá búnaðinn um handritin hjá Gabríelu. Við erum vön því að sjá þau sýnd á annan hátt. Sýningarnar eru hér í tengslum við að Íslendingar voru heiðursgestir á bókamessunni í Frankfurt fyrir mánuði.

Í Berlín átti ég þess kost að hitta fólk í þýska utanríkisráðuneytinu sem fylgdist með bókamessunni vegna þess að ráðuneytið leggur fé til hennar. Lét það mjög vel af hlut Íslands og vitnaði til þess að stjórnendur sýningarinnar hefðu getið þess að þátttaka Íslands jafnaðist á við hið besta sem menn hefðu kynnst í áranna rás.

Ég skrifaði pistil um kynningaráform ESB á Íslandi.