13.11.2011

Sunnudagur 13. 11. 11

Að lokinni messu í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði héldum við Gunnar Eyjólfsson í Grafarvogskirkju þar sem efnt var til Dags orðsins. Að þessu sinni var dagskráin helguð Matthíasi Johannessen. Ástráður Eysteinsson prófessor og sr. Gunnar Kristjánsson prófastur fluttu erindi um ljóð Matthíasar en Gunnar Eyjólfsson las ljóðabálkinn Hrunadansinn eftir Matthías. Sjálfur flutti Matthías hugvekju í messunni sem fylgdi á eftir erindunum og ljóðalestrinum.

Nú hafa tveir teknókratar, fyrrverandi innanbúðarmenn í valdakerfi ESB, tekið við embætti forsætisráðherra í Grikklandi annars vegar og á Ítalíu hins vegar. Út því að ekki hefur tekist að tryggja embættismannavaldi ESB heimild til að hlutast til um innri efnahag og ríkisfjármál einstakra ríkja beitir ESB sér fyrir stjórnarskiptum í erfiðleikalöndum og sér til þess að gamlir ESB-emættismenn setjist þar við völd.

Illa ígrunduð yfirlýsing George Papandreous, fyrrverandi forsætisráðherra Grikkja, um þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna hefur aukið á þrýsting af hálfu framkvæmdastjórnar ESB um að haft sé auga með stjórnarherrum einstakra landa og þeim komið frá sem ESB-valdið telur að valdi sér vandræðum.