8.11.2011

Þriðjudagur 08. 11. 11

Dvölin í Berlín lauk með tveimur fundum í morgun klukkan 08.30 og 10.30. Við tókum lest eftir hádegi og tók hana rúma fjóra tíma að flytja okkur til Frankfurtar. Síðasta áfangastaðar fyrir heimferð.

Þegar ég les frásagnir af ummælum Össurar Skarphéðinssonar um evruna og viðræðum Jóhönnu Sigurðardóttur við erlenda ráðamenn, nú í Brussel, velti ég fyrir mér hvort Jóhanna og Össur telji virkilega að þau séu að leiða Ísland inn í gerviheiminn sem þau lýsa. Eitt er víst: ESB- og evru-heimurinn er allur annar en birtist í fagnaðarlátunum sem spunaliðarnir segja að alltaf verði þegar þau birtast einhvers staðar á erlendri grundu.

Nú hefur ESB og fjármálamörkuðum tekist að ýta Silvio Berlusconi til hliðar. Hvað halda menn að ESB mundi þola Jóhönnu lengi sem forsætisráðherra ef Ísland væri í ESB? Eða Össur sem utanríkisráðherra?