26.11.2011

Laugardagur 26. 11. 11

Horfi ég á sjónvarp á laugardagskvöldum vel ég oftast DR1.

Ég las einhvers staðar um Steve Jobs, undramanninn hjá Apple, að hann hefði síður en svo verið allra. Hann hefði hins vegar haft hinn einstæða hæfileika að framleiða eitthvað sem væri þannig úr garði gert að héldi maður á því segði maður við sjálfan sig; Já, þetta er einmitt það sem mig hefur alltaf vantað.

Mér dettur þetta í hug eftir að hafa kynnst iPad. Það er ótrúlegt undratæki, að minnsta kosti fyrir fréttafíkil. Að geta lesið blöð hvaðanæva úr heiminum á jafneinfaldan hátt og í iPad er með ólíkindum. Vegna þess hve ég skrifa mikið kemur tækið þó ekki í stað tölvunnar hjá mér.

Ég er með tvö netföng, annað nálgast ég í gegnum postur.simnetpro.is Ég átti í erfiðleikum með að tengja iPadinn við það. Fór ég því í Apple-búðina við Laugaveg og leitaði ráða. Þeir sögðu mér að það kynni að vera erfitt að tengjast simnetpro.is, ég skyldi ræða við tæknimenn Símans. Ég leit til þeirra í Ármúlanum og viti menn þar datt pósthólfið í samband og hefur verið tengt síðan.