Þriðjudagur 29. 11. 11
Nú eru tvær kvikmyndir sýndar hér sem snúast um skuggahliðar stjórnmálanna, Ides of March sem George Clooney leikstýrir auk þess að leika eitt aðalhlutverkanna. Myndin er mögnuð vegna handritsins. Hin er frá BrasilíuTropa de Elite 2. Hún er öðru vísi en ekki síður mögnuð og mest sótta mynd í Brasilíu frá upphafi. Í báðum myndunum felst þjóðfélagsádeila. Í hinni fyrri á stjórnmálamenn og almannatengla en á stjórnmálamenn og lögreglumenn í hinni síðari.
Í dag skrifaði ég pistil um ástandið í ríkisstjórninni. Stjórnarhættir eru komnir langt frá öllu sem eðlilegt er.
Stjórnarhættir í Reykjavíkurborg leiða borgarbúa og börn þeirra inn á einkennilegar brautir ef svo er komið að skólastjórnendur telja ekki heimilt að farið sé með bænina faðir vor þegar þeir fara með börn í kirkju á aðventunni. Fyrirmæli borgarstjórnar um hvað má og hvað má ekki í kirkjum ber að hafa að engu. Kirkjan er griðastaður. Jón Gnarr og félagar eiga ekki að ráða því hvað þar er sagt. Að gefa fyrirmæli af þessu tagi sýnir út í hverjar öfgar menn eru komnir undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar.
Öfgaflokkur vantrúarmanna í Póllandi hefur krafist þess að kross sem hangir á vegg þingsalarins í Varsjá verði fjarlægður. Þegar ég las um þetta kom í hugann hvort þess yrði ekki krafist hér að krossinn yrði fjarlægður úr íslenska fánanum.