22.11.2011

Þriðjudagur 22. 11. 11

Hinn 12. desember 1989 skrifaði ég umsögn í Morgunblaðið um bókina Útgangan eftir Úlfar Þormóðsson. Hún fjallar um uppgjör innan Alþýðubandalagsins á þeim tíma.  Ég sagði:

„Því miður hafa menn innan flokksins ekki haft þrek til að ganga á hólm við lygina sem haldið hefur verið á loft í nafni hans og forvera hans Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins og Kommúnistaflokks Íslands, sem var stofnaður 1930. Bókin Útgangan - bréf til vinar er samkvæmt kynningu á bókarkápu „uppgjör höfundarins við ákveðna menn og málefni á Íslandi“.

Ég viðurkenndi að fyrir mig væri stór hluti bókarinnar á dulmáli.  Velti ég fyrir mér hvort bókin væri „ein samfelld árás“ á Ólaf Ragnar Grímsson, þáverandi formann flokksins. Enginn vafi væri á einarðri andstöðu Úlfars við hann. Taldi hann flokksformanninn hafa eyðilagt Þjóðviljann, þar sem Úlfar var um tíma formaður útgáfustjórnar.  Undir lok umsagnarinnar sagði ég:

„Úlfar er í þeirri fylkingu Alþýðubandalagsins sem óttast uppgjör við fortíð flokksins og umræður um hana. Honum er því þóknanlegt að umræður innan Alþýðubandalagsins snúist um annað en lygina sem flokkurinn og forverar hans hafa tekið að sér að verja í íslenskri stjórnmálabaráttu. Úlfar og félagar hans fara undan í flæmingi nú orðið, þegar rætt er um hugsjónalegan grundvöll stjórnmálaskoðana þeirra.“

Mér kom þetta í hug þegar ég las reiðiskrif  Úlfars á vefsíðu hans vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær þegar ég velti fyrir mér hvort kommúnistar á Íslandi hefðu fengið fé með því að skrifa of háa reikninga fyrir að prenta Fréttir frá Sovétríkjunum. Úlfar hefði átt að vita það sem formaður útgáfustjórnar Þjóðviljans. Hann vill hins vegar ekki ræða málið málefnalega heldur kastar skít í okkur Hannes Hólmstein Gissurarson sem greinilega hefur snert auman blett á Úlfari með bók sinni um kommúnista á Íslandi.