30.11.2011

Miðvikudagur 30. 11. 11.

Enn heldur Jóhanna Sigurðardóttir áfram að grafa undan Jóni Bjarnasyni ráðherra í ríkisstjórn sinni án þess að hafa þrek til annars en láta það í hendur annarra hvort Jón situr áfram í stjórninni eða ekki.

Í kvöld birtist viðtal mitt við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor á ÍNN um bók hans Íslenskir kommúnistar vandaðasta sagnfræðiritið sem kemur út fyrir þessi jól og ætti með réttu að fá íslensku bókmenntaverðlaunin á svið sagnfræði. Á bakvið bókina liggur gífurleg heimildarvinna og hún varpar einstæðu ljósi á þann þátt stjórnmálasögunnar sem snýr að þeim sem störfuðu á vegum og á kostnað Moskvuvaldsins á Íslandi í tíð Sovétríkjanna.

Við umhugsun um bókina hef ég áttað mig betur en áður á réttmæti ábendingar Eyjólfs Konráðs Jónssonar, ritstjóra Morgunblaðsins, til mín á sínum tíma þegar ég starfaði á blaðinu og hann sagði: Það á ekki að tala um íslenska kommúnista heldur á að segja kommúnistar á Íslandi, þeir fylgdu aldrei íslenskri stjórnmálastefnu heldur fóru eftir fyrirmælum frá Moskvu. Bók Hannesar sannar réttmæti þessara orða.

Þegar litið er til átakanna meðal vinstri grænna um þessar mundir má sjá að þeir sem halda í gömlu línuna sem nær allt aftur til þess þegar menn þorðu að kalla sig kommúnista standa að sjálfsögðu með Steingrími J. Þar í hópnum eru Álfheiður, dóttir Inga R. Helgasonar, og Svandís, dóttir Svavars Gestssonar, sem voru báðir í innsta hring. Ingi R, var á sínum tíma nefndur gullkistuvörður Alþýðubandalagsins af því að hann tók við fjármunum að utan. Svavar stundaði nám í marxískum fræðum í Austur-Berlín og Svandís var í leikskóla með börnum miðstjórnamanna í austur-þýska kommúnistaflokknum. Þessi tími er ekki lengra frá okkur en svo.

Ólafur Ragnar Grímsson sigraði Steingrím J. í innanflokksátökum í Alþýðubandalaginiu. Það er því ekkert nýtt að sá armur flokksins telji sig eiga harma að hefna gagnvart Ólafi Ragnari. Álfheiður Ingadóttir segir að hún ætli ekki að þiggja boð hans á Bessastaði 1. desember. Það er ekki nóg að hún vilji lítilsvirða hann með fjarveru sinni heldur einnig notar hún heimboðið til að auglýsa fyrirlitningu sína á honum. Bók Hannesar Hólmsteins auðveldar mönnum að skilja þessa heift milli fólks sem áður sat í sama flokki.