23.11.2011

Miðvikudagur 23. 11. 11

Í dag kynnti framkvæmdastjórn ESB tillögur sínar um eigin íhlutunarrétt í fjárlagagerð evru-ríkja og útgáfu evru-skuldabréfa. Angela Merkel sagði í þýska þinginu að tillagan um skuldabréfin væri arfavitlaus. Framkvæmdastjórnin ætlar samt að leggja hana fyrir evru-ríkin 17 og hin ESB-ríkin 10. Þá verður hún rædd í ESB-þinginu. Þá tókst Þjóðverjum ekki að selja öll ríkisskuldabréfin sem þeir buðu út í dag.

Ég verð ekki var við að nokkurs staðar sé fjallað um þessar sviptingar að neinu gagni í íslenskum fjölmiðlum utan Evrópuvaktarinnar. ESB-fréttir hér eru um að Össur telji evurna munu hafa betur í dauðastríðinu, enginn spyr hann hvort íhlutunin í fjárlagafullveldið breyti engu um afstöðu hans.

Steingrímur J. fjármálaráðherra þegir þunnu hljóði hann lætur ekki aðeins leiða ESB-stefnu sína til slátrunar í samstarfinu við Samfylkinguna heldur einnig fjármálaráðuneytið. Nái áform framkvæmdastjórnar ESB fram að ganga yrði íslenski fjárlagaramminn ákveðinn í Brussel.

Svo er hingað kominn ráðherra Evrópumála frá Írlandi til að telja okkur trú um ágæti ESB og minna okkur á hve mikils við förum á mis við að vera ekki í sambandinu. Hvers vegna í ósköpunum átta ráðherrar annarra ríkja ekki sig á því að það fer þeim ákaflega illa að blanda sér í viðkvæm innanríkismál ríkja sem ekki eru í ESB-klúbbnum? Það er mikill munur á því að tala við þjóðir í klúbbnum og þær sem standa utan hans. Þetta blessað fólk kemur hingað líklega í góðri trú um að það sé að gera einhverjum greiða af því að Össur og félagar hafa grátbeðið það um aðstoð.