18.11.2011

Föstudagur 18. 11. 11

Ég sat landsfund sjálfstæðismanna í allan dag í Laugardalshöll. Fyrir hádegi sátu formaður, varaformaður og formaður þingflokks fyrir svörum. Umræðurnar risu ekki hátt. Eftir hádegi var rætt um skipulagsbreytingar á flokknum og síðan hófust fundir nefnda um málefni.

Það er beinlínis súrrealiskt að hlusta á fólk tala um ESB-aðildina eins og það sé upp á líf og dauða fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sjá til þess að aðildarviðræðurnar deyi ekki af hans völdum þegar þær eru í raun komnar á sker vegna þess hve illa er að þeim staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar og vegna upplausnar innan ESB.

Því er meira að segja haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn muni gjalda þess í komandi þingkosningum og útiloka sig frá stjórnarmyndun að þeim loknum bendi hann á þá staðreynd að ekki sé unnt að halda áfram viðræðum við ESB innan rammans sem Össur hefur markað og þess vegna sé eðililegt að ljúka þessu ferli og huga að málinu að nýju.

Gunnar Gunnarsson, einn stjórnenda Spegilsins, ræddi við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing um formannskjörið á RÚV í kvöld. Gunnar gat ekki hamið andúð sína á Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni í spurningum sínum og innskotum. Fyrir þá sem hlusta á fréttaþætti og fréttaskýringaþætti í erlendum fjölmiðlum er með ósköpum að sitja undir hinum grímulausa áróðri sem birtist í þáttum RÚV. Víðsjá í gær lauk til dæmis með því að stjórnandinn kynnti hlustendum daglegan fundartíma í tjaldbúðum á Austurvelli.