21.11.2011

Mánudagur 21. 11. 11

Nýlega gaf Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor út bók um íslenska kommúnista sem sýnir að þeim var fjarstýrt frá Moskvu og þáðu þaðan fé. Miklar umræður eru nú um fjárgjafir frá Moskvu til danska kommúnistaflokksins, DKP. Engum blöðum er um það að fletta að flokkurinn naut fjár frá sovéska kommúnistaflokknum fram að hruni Sovétríkjanna árið 1991.

Danskir kommúnistar ráku prentsmiðju. Þar prentuðu þeir eigið blað Land og Folk auk þess að sinna prentverki fyrir aðra þar á meðal sovésk stjórnvöld, til dæmis við blaðið Fakta om Sovjetunionen. Var innheimt ofurverð fyrir þá prentun og var féð sem þannig var aflað notað til að standa undir kostnaði við starfsemi DKP. Um þetta er ekki deilt í Danmörku. Þar hafa menn komið fram sem staðfesta þessa tilhögun.

 Í DR2, danska sjónvarpinu, var í kvöld rætt við Ole Sohn, núverandi atvinnumálaráðherra í dönsku vinstri stjórninni. Því er haldið fram að hann segi ekki satt eða kjósi að þegja um mikilvæga hluti. Hvort honum hefur tekist að ýta frá sér í kvöld kemur í ljós. Hann á að hættu að missa ráðherrembættið takist honum það ekki.

Málið hefur magnast stig af stigi og er rætt af mikilli alvöru. Hér á landi gáfu Sovétmenn út Fréttir frá Sovétríkjunum. Miðað við hve margt er líkt með starfsemi kommúnista í Danmörku og á Íslandi er líklegt að héðan hafi verið sendir ofurháir reikningar til Moskvu fyrir prentunina á Fréttum frá Sovétríkjunum.