23.5.2012 22:20

Miðvikudagur 23. 05. 12

 

Í dag ræddi ég á ÍNN við Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðing um rannsóknir í Reykholti í Borgarfirði undir hennar stjórn. Það er merkilegt að fyrir liggi tilgáta, byggð á rannsóknum, um hvernig Snorri Sturluson bjó og að hann hafi í húsum sínum notað gufu frá heitum hver í 112 metra fjarlægð til einhverra hluta. Þá má skoða göngin sem þeir fóru um sem drápu Snorra 23. september 1241.

Hjörleifur Sveinbjörnsson, skólabróðir  kínverska fjárfestisins Huangs Nubos, skrifar grein í Fréttablaðið miðvikudaginn 23. maí þar sem hann kallar samskipti Íslendinga og Huangs vegna þessara fjárfestingaráforma hins kínverska vinar síns „vandræðamál“. Það ætli ekki „að verða nein sátt um að Huang og fyrirtæki hans leigi Grímsstaði, nú þegar kaupin eru úr sögunni,“ segir Hjörleifur.

Hann telur „náttúrlega ómögulegt fyrir metnaðarfullt ferðaþjónustufyrirtæki að starta sinni starfsemi í illdeilum við mann og annan“. Fær Hjörleifur raunar ekki séð að Huang „hafi neina þörf fyrir Grímsstaðina alla undir sinn rekstur, en svo virðist sem jörðin sé annað hvort öll föl eða ekki“. Finnst Hjörleifi „athugandi fyrir Huang og hans fólk að láta á það reyna hvort fá megi lóð út úr Grímsstaðatorfunni en falast að öðrum kosti eftir jörð af normal stærð fyrir uppbygginguna“.

Þegar þessi orð eru lesin og vitað er um yfirlýst áform nokkurra sveitarfélaga á norðausturhorni landsins um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum fyrir 800 milljónir króna til að leigja jörðina Huang vaknar spurning um hver sé í raun ráðgjafi Huangs í samskiptunum við Íslendinga. Enginn hefur staðið honum nær en Hjörleifur. Skyldi Huang ekki taka neitt mark á honum?

Þetta þref um Grímsstaði á Fjöllum er niðurlægjandi fyrir alla sem að því koma, þeir munu óhjákvæmilega allir tapa andlitinu að lokum; ekki virðist neitt að marka sem umboðsmaður Huangs hér á landi segir hvorki við Íslendinga né hann.