16.5.2012 16:45

Miðvikudagur 16. 05. 12

Sat í morgun ársfund Stofnunar Árna Magnússonar sem haldin var undir fyrirsögninni: Nýja landnámið í Kötlusal Hótel Sögu. Þar var fluttur fjöldi erinda um verkefni á starfssviði stofnunarinnar og lutu þau flest að notkun upplýsinga- og tölvutækni við varðveislu, skráningu og notkun menningararfsins og tungunnar.

Í hádegi hlýddi ég á Guðrúnu Sveinbjarnardóttur fornleifafræðing segja frá nýrri bók um rannsóknir á búsetu í Reykholti í Borgarfirði í þéttsetnum fyrirlestrasal Þjóðminjasafns.

Í dag ræddi ég við Ara Trausta Guðmundsson forsetaframbjóðanda í þætti mínum á ÍNN. Hann hefur mótað sér skýra afstöðu til stöðu forsetaembættisins meðal þjóðarinnar og setur hana fram á sannfærandi hátt.  Ari Trausti er sá í hópi frambjóðenda sem nýtur um þessar mundir þriðja mesta fylgis á eftir þeim Þóru og Ólafi Ragnari. Hann stendur hins vegar utan við átök þeirra. Þau eru til þess eins fallin að draga forsetaembættið inn í hatrammar persónulegar deilur auk þess sem Ólafur Ragnar tekur meira upp í sig um hlutverk forseta en samrýmist óbreyttum stjórnlögum.

Samtalið við Ara Trausta má sjá í kvöld klukkan 20.00, 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Nú er þáttur minn frá síðustu viku þar sem ég ræddi við Andra Árnason, verjanda Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu kominn inn á vesíðuna www.inntv.is og má nálgast hann hér.