9.5.2012 21:47

Miðvikudagur 09. 05. 12

Andri Árnason, hæstaréttarlögmaður og verjandi Geirs H. Haarde í landsdómsmálinu, var gestur minn á ÍNN í dag. Ræddum við almennt um málið auk þess sagði Andri frá rannsókn þess á vegum þings Evrópuráðsins. Ég hafði ekki áttað mig á því að þingið samþykkti í október 2011 að láta fara fram rannsókna á tveimur málaferlum, það er gegn Geir og Júlíu Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraníu. Hún er einmitt að hætta í hungurverkfalli um þessar mundir. Í það fór hún til að mótmæla barsmíðum sem hún hafði orðið fyrir í fangavistinni. Nú fær hún að fara á sjúkrahús þar sem þýskir læknar munu annast hana af ótta við að annars verði eitrað fyrir hana.

Að sakamálaákæra fyrir tilstilli alþingis skuli rannsökuð af sömu mönnum á vegum þings Evrópuráðsins og rannsaka ákæruna og málatilbúnaðinn á hendur Tímósjenkó sýnir á hvaða stig stjórnarhættir hér á landi hafa þróast undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur.  Evrópuráðsþingmenn samþykkja ekki slíka rannsókn á sínum vegum af því að þeir séu að leita að einhverju sem er til fyrirmyndar heldur af því að þeir telja að stjórnvöld viðkomandi lands hafi farið á svig við það sem eðlilegt er og samrýmanlegt grundvallarreglum mannréttindasáttmála Evrópu eða öðrum samþykktum Evrópuráðsins.

Ég er undrandi á því að þessi rannsókn á vegum þings Evrópuráðsins hafi ekki verið meira til umræðu hér á landi í tengslum við málið gegn Geir. Alþingi Íslendinga á fulltrúa á þingi Evrópuráðsins. Hafa þeir vakið einhvers staðar athygli á þessari samþykkt þingsins? Vissulega kann það að hafa farið fram hjá mér þar sem ég dvaldist erlendis meirihluta október 2011.

Þáttur minn á ÍNN fyrir viku, þegar ég ræddi við Gísla Gíslason hafnarstjóra er kominn á netið og má sjá hann hér. Ég er nú, í bili að minnsta kosti, með vikulegan þátt á ÍNN. Þáttinn með Andra má næst sjá á ÍNN klukkan 22.00, síðan á miðnætti og á tveggja tíma fresti til 18.00 á morgun.

Komist þing Evrópuráðsins að þeirri niðurstöðu að um pólitísk réttarhöld gegn Geir H. Haarde hafi verið að ræða getur það leitt til þess að ESB verði að endurskoða dóma sína um ágæti íslenskra stjórnarhátta.