5.5.2012 23:40

Laugardagur 05. 05. 12

Í dag sæmdi Óskar Bjartmarz, yfirlögregluþjónn og formaður Íþróttasambands lögreglumanna, mig gullmerki íþróttasambandsins fyrir gott samstarf á þeim árum sem ég var dómsmálaráðherra. Þetta er ánægjulegur heiður sem ég met mikils.

Í morgun hittumst við nokkur bekkjarsystkini úr B-bekk MR sem útskrifaðist 1964. Ásdís Skúladóttir hefur frumkvæði að því að við komum saman.

Lesi maður það sem Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur að segja um alþingi, hún líkir þingmönnum við bavíana, hlusti á Þór Saari, flokksbróður hennar, vega að þinginu og þingmönnum, og viti að Birgitta Jónsdóttir, þriðji þingmaður Hreyfingarinnar, safnar undirskriftum til að velta Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þingforseta úr sessi, er hneyksli að Jóhanna Sigurðardóttir kjósi að sitja í embætti í skjóli þessa fólks. Þingflokkur Samfylkingarinnar stendur á bakvið Jóhönnu. Hinn þverklofni flokkur vinstri-grænna á aðild að þessu lágkúrulega bandalagi. Þessi söfnuður dirfist að segja stjórnarandstöðuna vega að virðingu alþingis.