2.5.2012

Miðvikudagur 02. 05. 12

Í dag ræddi ég við Gísla Gíslason, hafnarstjóra Faxaflóahafna, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum breytingar í gömlu höfninni í Reykjavík og þróun hafnarmála við Faxaflóann.

Samfylkingarsíðan Eyjan sér ástæðu til að hampa óhróðri sem Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG og fimmti varaforseti alþingis, flutti um Evrópuvaktina á alþingi í dag til að leggja stein í götu stuðnings við skrif á síðunni um ESB-málefni. Alþingi veitti Evrópuvaktinni styrk á síðasta ári. Af hálfu aðstandenda síðunnar hefur í einu og öllu verið farið að kröfum alþingis. Engu að síður sér þingmaðurinn ástæðu til þessara árása. Framgangan minnir aðeins á það þegar Álfheiður stóð við gluggann í Kringlunni í Alþingishúsinu með farsímann við eyrað og leiðbeindi þeim sem stóðu utan dyra. Nú vill hún gefa þeim sem fara yfir umsóknir vegna Evrópustyrkja alþingis árið 2012 fyrirmæli um hverja ekki megi styrkja. Fáránleikinn felst í því að hún vill að reglum sé breytt eftir að styrkir eru veittir.

Þessi skammarlega framkoma Álfheiðar á sér sem betur fer ekki hliðstæðu í störfum þingsins. Álfheiður sannar hins vegar að þeir sem hafa umboð þingsins til að ráðstafa styrkjum í nafni þess geta átt á hættu að jafnvel varaforseti þingsins komi í bakið á þeim. Að forseti alþingis láti þessi lúalegu vinnubrögð viðgangast átölulaust er ólíklegt enda hefur Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir ekki látið undan yfirgangi Álfheiðar.