4.5.2012 19:00

Föstudagur 04. 05. 12

Menn geta deilt um markmið Huangs Nubos, fjárfestis frá Kína, með því að sækjast eftir aðstöðu á Grímsstöðum á Fjöllum. Eitt er víst, honum hefur þegar tekist að beita félagslegri leikfléttu til að ná markmiðum sínum. Þetta blasir við þegar sagt er frá samningi sem hann hafi gert við sveitarfélög sem ætli að kaupa landið og leigja honum til 40 ára. Þetta er kallað „social engineering“ á ensku og þykir fylgifiskur kínverskra umsvifa víða um heim.

Á visir.is er í dag birtur kafli úr samtali China Daily við Huang Nubo sem telur að hann hafi náð undirtökunum í samskiptum við íslenska ráðamenn. Huang segir: „Ég held að niðurstaðan verði ekki langt frá því sem ég vonaðist eftir. Með því að leigja landið er ólíklegt að málinu verði hafnað, því innanríkisráðherrann hefur ekkert með málið að gera í þetta skipti.“

Þarna hreykir Huang Nubo sér af því að hafa leikið á innanríkisráðherra með fléttunni sem stofnað er til með þátttöku sveitarfélaganna. Hann veit að hann á hauka í horni þar sem ráðherrar Samfylkingarinnar sitja.

Erlendis velta menn því fyrir sér hvað fyrir kínverskum yfirvöldum vaki með heimildinni til Hugangs vegna fjárfestinga hér á landi. Í því efni líta menn á fasteignina og legu Íslands. Nærtækara er að líta á stjórnarhættina og þau ráð sem beitt er til að útiloka þá innan íslenska stjórnkerfisins sem taldir eru andvígir brölti Huangs.