6.5.2012 22:10

Sunnudagur 06. 05. 12

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um Huang Nubo, Samfylkinguna og ríkisstjórnina. Saga fjárfestingartilrauna hins kínverska auðmanns sýnir að hópur manna innan Samfylkingarinnar í tengslum við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Össur Skarphéðinsson hefur átt beina aðild að því að auðvelda Huang Nubo að koma á viðskiptasambandi við Íslendinga með milligöngu eiginmanns Ingibjargar Sólrúnar, lögfræðilegri aðstoð Lúðvíks Bergvinssonar og aðstoð sendiráðs Íslands í Peking undir forystu Kristínar Árnadóttur og með fulltingi Ragnars Baldurssonar sendiráðsstarfsmanns. Huang sagðist hafa fengið hvatningu frá Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands til að fjárfesta á Íslandi, Ólafur Ragnar sagði þetta ekki rétt.

Áður en Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafnaði kaupsamningi Huangs Nubos í nóvember 2011 lét Huang eins og fyrir sér vekti það eitt að festa fé á Íslandi. Eftir höfnunina setti Huang neitun Ögmundar í víðtækara samhengi. Reynsla hans af samskiptum við Íslendinga ætti að verða víti til varnaðar fyrir aðra kínverska fjárfesta sem hefðu áhuga á að reyna fyrir sér á Vesturlöndum. Dró hann almennt upp neikvæða mynd af samskiptum sínum við íslensk stjórnvöld.

Í pistlinum lýsi ég hvernig Huang Nubo hefur tekist að koma ár sinni fyrir borð hér á landi og stillt stjórnvöldum upp við vegg. Verður spennandi á sjá hver niðurstaðan verður að lokum.

Einkennilegt er að sjá viðbrögð samfylkingarfólks við samantekt minni. Látið er eins og ég fari með rangt mál þegar ég rifja upp reiðileg viðbrögð Huangs í nóvember 2011. Þau urðu einmitt til þess að ráðherrar Samfylkingarinnar hófust handa við að leita að hjáleið fyrir Huang til Grímsstaða.

Hinn 26. nóvember 2011 sagði Halldór Jóhannsson arkitekt, umboðsmaður Huangs, að umbjóðandi sinn ætlaði „sér ekki að reyna að hnekkja niðurstöðu íslenska ríkisins“. Hann hefði hins vegar orðið fyrir vonbrigðum yfir því að ákvörðunin hefði verið tekin algjörlega einhliða án nokkurrar tilraunar til samningaviðræðna.   Í frétt á mbl.is 26. nóvember 2011 er eftir Halldóri haft: „Það var ljóst í upphafi að hann [Huang] hafði engan áhuga á því að fara einhverja bakdyraleið [að Grímsstöðum], það kom aldrei til greina.“ Þessi orð hafa reynst röng eins og svo margt annað í málflutningi Huangs og manna hans.