13.5.2012 16:30

Sunnudagur 13. 05. 12

Eins og við var að búast valtaði Ólafur Ragnar Grímsson yfir Þóru Arnórsdóttur andstæðing sinn þegar hann kvaddi sér hljóðs og hóf kosningabaráttu sína í dag. Hann valdi sér Sigurjón M. Egilsson á Bylgjunni sem viðmælanda fyrir breiðsíðuárás á Þóru og sambýlismann hennar, Svavar Halldórsson, fréttamann á RÚV í leyfi. Ólafur Ragnar sagði enga tilviljun að Þóra veldi sér kvikmyndaleikstjóra sem kosningastjóra, þetta væri „2007 framboð“. Þá hefði Svavar misnotað aðstöðu sína til að lauma jákvæðum fréttum fyrir Þóru í sjónvarpið.

Hér hefur því verið haldið fram að kosningabaráttan stofnaði forsetaembættinu í hættu vegna aðferða Ólafs Ragnars við að brjótast úr þröngri stöðu. Þetta hefur sannast fyrsta daginn sem  Ólafur Ragnar fer af stað. Hann ætlar greinilega að kæfa alla andstöðu við sig með leiftursókn og setur virðingu embættis forseta Íslands ekki fyrir sig í því sambandi.

Ólafur Ragnar saumaði ekki að Þóru einni heldur einnig RÚV og DV. Hann taldi þessa fjölmiðla leggja sig fram um að gera hlut sinn sem verstan. Athyglisvert er í þessu sambandi að Ólafur Ragnar fær til samstarfs við sig á kosningaskrifstofunni, sem opnuð var í dag, Ólafíu B. Rafnsdóttur sem var um langt árabil framkvæmdastjóri starfsmanna- og þjónustusviðs 365 miðla, fjölmiðlasamsteypu Baugsmanna og helsta keppinautar RÚV. Henni var sagt upp störfum á Baugsmiðlunum í lok janúar 2012. Ólafía stjórnaði kosningabaráttu Ingibjargar Sólrúnar árið 2005 þegar hún keppti við Össur Skarphéðinsson um formennsku í Samfylkingunni.

Ólafur Ragnar vék óvildarorðum að Jóhönnu Sigurðardóttur og aðstoðarmanni hennar í dag. Hann velur sér hins vegar kosningastjóra sem ætti að ná inn í raðir Samfylkingarinnar. Ólafur Ragnar var hvattur til framboðs af Guðna Ágústssyni sem enn á nokkurn hljómgrunn meðal framsóknarmanna. Kannanir sýna hins vegar að kjósendur Sjálfstæðisflokksins mynda uppistöðuna í fylgi Ólafs Ragnars. Ætlar hann að hundsa þá í uppstillingu á kosningaliði sínu? Fæst enginn þjóðþekktur sjálfstæðismaður til að ganga fram fyrir skjöldu og lýsa stuðningi við Ólaf Ragnar?