18.5.2012 20:35

Föstudagur 18. 05. 12

Allt í einu boðar ríkisstjórnin til blaðamannafundar til að kynna framtíðaráform Dags B. Eggertssonar sem reist eru á óskhyggju í anda 20/20 átætlunargerðar ESB. Í samtali við Ólöfu Nordal, varaformann Sjálfstæðisflokksins, í Kastljósi kvöldsins segir Dagur B. að þúsundir starfa séu í boði. Hann fetar þar í fótspor Jóhönnu Sigurðardóttur sem reglulega hefur boðað ný störf. Þessari áætlun Dags B. á að hrinda í framkvæmd að loknum kosningum 2013! Hann talar einnig um aga í fjármálum á sama tíma og Reykjavíkurborg fer marga milljarða fram úr áætlun undir hans stjórn.

Árni Páll Árnason hefur látið verulega að sér kveða undanfarið og jafnvel leyft sér að nefna að tími Jóhönnu til brottfarar sé kominn. Jóhanna veittist að Árna Páli á þingi í morgun fyrir skoðun hans á ESB af því að hann vill að þjóðin fái að segja álit sitt án þess að samið hafi verið við ESB. Ég fjalla um það í pistli sem lesa má hér. Nú stefnir Jóhanna  Degi B., stuðningsmanni Jóns Gnarrs, fram á völlinn til að ögra Árna Páli og Steingrímur J. tekur að sjálfsögðu þátt í leikritinu.

Dagur B. endurtekur gömlu tugguna um nauðsyn þess að menn „komi upp úr skotgröfunum“ . Þennan frasa notar samfylkingarfólk jafnan þegar það er upp við vegg. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, góðvinur Dags B. tók áskoruninni og sagðist kominn upp úr sinni gröf.  

Ungum hælisleitendum tók skyndilega að fjölga hér á landi, efasemdir eru um aldur þeirra. Farið er með þá sem börn. Barnaverndaryfirvöld segjast ætla að bíða með aðgerðir þar til þau sjái hvort hér sé um tilviljanakennda fjölgun eða eitthvað annað að ræða. Í fréttum segir að þeir sem komi hingað þekki hver annan.

Menn þurfa ekki að vera sérfræðingar í innflytjendafræðum til að átta sig á því að þar gildir sama lögmál og annars staðar, keðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Þeir sem sætta sig ekki við keðjuna láta reyna á hann. Í þessu máli er mesti barnaskapurinn fólginn í því að láta eins og um einhverja tilviljun sé að ræða eða fækkun þessara hælisleitenda felist í því að auka fjárveitingar til málaflokksins