22.5.2012 20:15

Þriðjudagur 22. 05. 12

Í dag náðist enn einu samkomulag á alþingi um framgang þingmála, greidd verða atkvæði um stjórnlagamálið og í frétt RÚV segir: „Í staðinn fengu þingmenn stjórnarandstöðunnar það fram að frumvarp til laga um náttúruvernd yrði tekið af dagskrá og færi aftur til nefndar.“

Fyrir hvern venjulegan mann er óskiljanlegt að samið sé um framgang hins ótrúlega illa skapaða stjórnlagamáls í skiptum fyrir það sem að ofan segir. Þögn stjórnarandstöðunnar um efni þess samkomulags sem hún gerði undir forystu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er skiljanleg ef hún náði ekki meiri árangri með samningnum en því sem sagt er frá í frétt RÚV.

Á Smugunni, vefsíðu VG, segir að vísu í dag: „„Ég mun standa við samkomulagið um það sem snýr að mér og mínum þingflokki,” sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, en hún bætti því við að samkomulagið um að ljúka umræðu um stjórnarskrármálið væri háð ýmsum skilyrðum um lúkningu annarra mála. Þau ræddi hún ekki frekar.“

Ríkisstjórnin situr uppi með það í dag að Hreyfingin hættir viðræðum um stuðning við hana og nýr meirihluti myndast gegn ESB-stefnu hennar í utanríkismálanefnd alþingis. Samt stendur stjórnarandstaðan ekki betur að áróðursmálum en svo að engu er líkara en allt loft hafi lekið úr henni.