29.5.2012 22:41

Þriðjudagur 29. 05. 12

Charlie Rose ræddi við Robert Caro í þætti sínum í kvöld um fjórða bindi ævisögu hans um Lyndon B. Johnson Bandaríkjaforseta. Fimmta og lokabindið kemur út eftir nokkur ár. Caro telur að Johnson sé einn áhrifamesti forseti Bandaríkjanna á síðari helmingi 20. aldarinnar og enginn forseti standi honum snúning þegar litið sé til áhrifa hans á Bandaríkjaþingi þar sem hann hafi sýnt snilldartök við að ná málum fram með réttu mati á mönnum og aðstæðum.

Þegar hlustað er á lýsingu eins og þá sem Caro gaf af Johnson og rifjað upp hvernig hann síðan yfirgaf Hvíta húsið og skildi almennt eftir sig slæma minningu um ár sín þar verður enn einu sinni ljóst að lengi má manninn reyna. Caro sagði að það hefði farið illa með Johnson að sitja í Hvíta húsinu og heyra allan guðslangan daginn sungið eða sönglað fyrir utan: Hey, Hey, Hey, LBJ how many children did you kill today! Var þetta gert með vísan til Víetnamstríðsins.

Á mbl.is segir að Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, telji ungt fólk muna eiga í basli á Íslandi um alla framtíð, hvorki meira né minna, nema Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Jafnaðarmenn álíti bestu leiðina úr baslinu að fara í ESB, þeir muni halda sínu striki þótt hart sé sótt að þeim vegna ESB-stefnu þeirra. Tími sé kominn til að horfa til framtíðar og bjóða upp á eitthvað annað en basl.

Þessi ræða þingflokkformannsins sýnir blinduna sem ESB-aðildarsinnar eru haldnir. Meðal atvinnuleysi innan ESB er um 10% en 22,1% meðal ungs fólks, hefur hækkað úr 14,7% árið 2008. Í Grikklandi er atvinnuleysi meðal ungs fólks yfir 50% og sömu sögu er að segja um Spán. Innan ESB tala menn um „atvinnulausu kynslóðina“, að slást í þann hóp er leiðin sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar býður ungu fólki.