14.5.2012 22:55

Mánudagur 14. 05. 12

Hafi Ólafur Ragnar ætlað að slá aðra forsetaframbjóðendur út af laginu með gauragangi sunnudaginn 13. maí hefur honum tekist það. Honum tókst einnig að sýna hið rétta eðli fréttastofu RÚV og kalla fram hefðbundin yfirlætisfull viðbrögð stjórnenda stofnunarinnar. Þá tók hann blaðamann og ljósmyndara DV í kennslustund á kosningaskrifstofu sinni ef marka frásögn á vefsíðu blaðsins.

Allt er þetta í ætt við það sem við var að búast. Ólafur Ragnar hefur ekki tapað neinu af því sem einkennt hefur allan stjórnmálaferil hans. Nú finnst honum að vísu sjálfsagðara og eðlilegra en áður að sér sé sýnd óttafull virðing.

Þegar lá í loftinu vorið 2004 að Baugsmenn fengju Ólaf Ragnar til að bregða fæti fyrir fjölmiðlalögin sagði ég á þingi að eðlilegt væri að forseti gæfi þingmönnum til kynna að hann ætlaði að bregða fæti fyrir framgang laga ef einhver skilyrði tengd þeim kæmu fram. Hann gaf aldrei neitt slíkt til kynna.

Nú segist Ólafur Ragnar til þess búinn að neita að staðfesta lög um stjórn fiskveiða. Helst er að skilja að neitunin yrði ekki reist á skoðun hans á efni laganna heldur á því hve margir  þrýstu á hann. Stjórnarfarið sem hann boðar minnir á þann tíma þegar menn sendu bænarskrár til konungs. Hann færir stjórnarhætti aftur um marga áratugi í krafti stjórnarskrárákvæðis sem var sniðið að konungsvaldi.

Þetta eru sérkennilegir tímar. Ríkisstjórn skipuð fólki sem stóð að því að gera Ólaf Ragnar að forseta hefur ekki roð við honum. Kjósendur eru hinir einu sem geta haldið aftur af honum. Óljóst er hvaða áhrif offors hans hefur á þá.