27.5.2012 22:50

Sunnudagur 27. 05. 12

Veðurblíðan í Fljótshlíðinni var einstök í dag. Fáir sumardagar gerast betri. Hitinn komst í 18 stig.

Í valdatíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur tvisvar verið boðað til leiðtogafunda NATO. Jóhanna hefur sótt þá báða með stuðningi stjórnarflokkanna. Á hinum fyrri var samþykkt ný varnarstefna fyrir NATO. Á hinum síðari var ákveðið að virkja eldflaugavarnarkerfi NATO sem verið hefur á döfinni í um 30 ár.

Skömmu áður en Jóhanna hélt til Chicago komu vinstri-grænir saman á einhverjum fundi og ályktuðu gegn aðild Íslands að NATO. Ályktunin var villikattarþvottur. Þeir eiga hins vegar fjóra ráðherra í ríkisstjórn Íslands og formann utanríkismálanefndar alþingis. Hann lætur eins og hann ætli að kalla Jóhönnu á teppið eftir NATO fundi. Það er álíka mikið í nösunum á honum eins og hann segist andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Andstaða vinstri-grænna við NATO-aðildina er einfaldlega hlægileg þegar litið er til þess sem þeir hafa samþykkt sem stjórnarflokkur.

Nú berast fréttir um að áhugamenn í Finnlandi um aðild Finna að NATO hafi komið því um kring að finnskar herþotur komi hingað til lands og sinni loftrýmisgæslu í samræmi við ákvæði samkomulags sem er í gildi milli Íslands og NATO. Ísland er þannig orðinn brúarsporður fyrir Finna á leið til NATO.

Allt gerist þetta meira eða minna í kyrrþey af því að stjórnarflokkunum og spunaliðum þeirra innan og utan stjórnarráðsins finnst óþægilegt að rætt sé um málið. Þeir vilja hafa það á sama gráa svæðinu og ESB-viðræðurnar og geta hagað málflutningi eins og þeim hentar hvað sem líður sannleikanum.