24.5.2012 22:50

Fimmtudagur 24. 05. 12

Það sýnir dæmigerðan einfeldnings- og afdalahátt hjá ríkisstjórn Íslands og stuðningsmönnum hennar að láta eins og ekkert sé eðlilegra en hefja samstarf við Evrópusambandið um afnám gjaldeyrishafta þegar allt er á öðrum endanum innan sambandsins vegna óvissu um framtíð evrunnar.

Hingað til lands kemur stækkunarstjóri ESB og segir í grein í Morgunblaðinu að menn misskilji tilgang framkvæmdastjórnar ESB í Icesave-málinu gegn Íslendingum. Hún sé bara að gæta réttar síns! Þá séu reglur sem Maria Damanaki, starfssystir stækkunarstjórans, segir nauðsynlegar til að auka sársauka refsinga ESB gegn Íslendingum ekki settar til að ná sér niðri á Íslendingum.

Stækkunarstjórinn skrifar þetta til að stinga upp í ráðherrana í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, það dugar líka til að þeir æmta hvorki né skræmta heldur láta gott heita.  Þetta er fólkið sem ætlar að halda á hagsmunum Íslands í viðræðum við ESB um framtíð íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar.

Það voru taktísk mistök að gera tillögum ríkisstjórnarinnar og Hreyfingarinnar um spurningaleik í formi þjóðaratkvæðagreiðslu svo hátt undir höfði að ætla að leggja ESB-viðræðurnar og framtíð þeirra í það púkk. Hefði tillaga Vigdísar Hauksdóttur hlotið samþykki hefðu átök vegna hennar dregið alltof mikla athygli að þessum bjálfalega spurningaleik.

Andstaða þingmanna við að leggja ESB-viðræðurnar undir í þjóðaratkvæðagreiðslu sýnir hins vegar að þeir eru ekki í takt við vilja almennings í málinu um að ýta því sem fyrst til hliðar. Stjórnmálaátök um ESB-málið eiga að standa sjálfstæð og snúast um það eitt en ekki tengjast spurningum um eitthvað allt annað.

Það var engin reisn yfir afgreiðslu alþingis á þessum málum í dag og enn minni yfir því hvernig ráðherrar tóku á móti Štefan Füle.