21.5.2012 22:41

Mánudagur 21. 05. 12

Viðtal mitt við forsetaframbjóðandann Ara Trausta Guðmundsson er komið inn á vefsíðu ÍNN  og má skoða það hér.

Leiðtogar 28 NATO-ríkja koma saman í Chicago og samþykkja að virkja fyrsta þrepið í nýju eldflaugavarnarkerfi sem hefur vakið andstöðu beggja stjórnarflokkanna á Íslandi. Hvert aðildarríki NATO hefur neitunarvald. Fundinn situr forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, auk Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Rætt er við Jóhönnu í kvöldfréttum RÚV og af samtalinu má ætla að hún hafi tekið þátt í fundi um hlut kvenna í alþjóðlegum öryggismálum.

Þessi aðferð við að segja Íslendingum fréttir án þess að í þeim sé nokkur dýpt eða samhengi við umhverfi þeirra hér á landi og afstöðu þeirra sem koma við sögu er ekki liður í því að stuðla að upplýstri umræðu eða gegnsæi.

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Kristínu Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, sem lýsir breyttum aðstæðum hjá stofnuninni vegna fjölgunar hælisleitenda. Hún segir meðal annars:

„Hælisleitendum sem hingað koma fjölgar ár frá ári og fyrstu fjóra mánuði ársins komu hingað 27 og óskuðu eftir hæli. Það er 80 prósent aukning frá sama tímabili í fyrra, þegar 15 óskuðu eftir hæli. Í nágrannalöndum okkar hefur komið fyrir að fjölda hælisleitenda fjölgar gríðarlega á stuttum tíma.“

Ástæður fyrir fjölgun af þessu tagi geta verið margar.  Hin algengasta er þó að fréttir berast meðal hælisleitenda um breytingu á lögum eða pólitískri afstöðu stjórnvalda viðkomandi lands sem auðveldar útlendingum að sækja þar um hæli. Sagan sýnir að þetta getur gjörbreytt öllum útlendingamálum á skömmum tíma. Einmitt þetta hefur gerst hér á landi í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og er í anda stjórnarflokkanna og stefnu þeirra. Dæminu verður ekki snúið við með því að auka fjárveitingar til þeirra sem sinna félagslegum þáttum hælisleitenda.