19.5.2012 23:20

Laugardagur 19. 05. 12

Í dag birti ég fjórðu og síðustu grein mína um bændur og ESB á Evrópuvaktinni en greinarnar eru í heild hér á síðunni. Var lærdómsríkt að fara í gegnum efnið sem ég kynnti mér við ritun greinanna. Ég sannfærðist  betur en áður um hve illa hefur verið komið fram við forystumenn bændasamtakanna af hálfu utanríkisráðherra og pólitískra útsendara hans. Í stað þess að taka málefnalega á því sem bændasamtökin hafa haft fram að færa hefur verið leitast við að grafa undan samtökunum sjálfum auk þess sem fulltrúum þeirra hefur verið haldið frá samráðsnefnd sem lýtur þriggja manna stjórn í umboði utanríkisráðherra.

Illskiljanlegt er hvað fyrir utanríkisráðherra vakir með þessari málsmeðferð. Að vísu er grunnt á óvild í garð bænda og hagsmunasamtaka þeirra meðal forystumanna Samfylkingarinnar. Það vekur til dæmis athygli að í tillögum Dags B. Eggertssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, um 11.000 ný störf sem ríkisstjórnin gerði að sínum á blaðamannafundi 18. maí virðist ekki minnst einu orði á ný störf tengd landbúnaði. Er það í anda þeirrar skoðunar innan Samfylkingarinnar að landbúnaðarstarfsemi sé frekar baggi á þjóðinni og þjóðarbúinu en því til framdráttar.

Í byrjun vikunnar skrifaði Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, að fyrir lok vikunnar yrði hún að fá svar frá ríkisstjórninni um eitthvað til að geta stutt hana. Síðan hefur Jóhanna Sigurðardóttir sagt að hún sé í stjórnarmyndunarviðræðum við Hreyfinguna. Í dag segir Þór Saari að hann verði að fá svar við einhverju næsta mánudag til að hann styðji stjórnina. Jóhanna Sigurðardóttir er í Chicago yfir helgina og að minnsta kosti fram á þriðjudag á NATO-fundi til að tryggja heimsfriðinn. Ætli Þór Saari semji  við Dag B.? – Sá er vanur að láta allt eftir Jóni Gnarr.