19.5.2012

Bændur og ESB - greinaflokkur

Bændur samþykkja varnarlínur gegn ESB




15. maí 2012


Bændasamtök Íslands (BÍ) hafa á skipulegan og málefnalegan hátt fylgst með framvindu ESB-aðildarumsóknar Íslands frá því að hún kom til sögunnar 16. júlí 2009. Þau hafa jafnframt fylgt málstað sínum og afstöðu fram af þunga. Hér verður í fjórum greinum rætt um málatilbúnað bændasamtakanna og stöðu landbúnaðarmála í viðræðum við Evrópusambandið í maí 2012.

Þegar samningurinn um evrópska efnahagssvæðið var á döfinni reyndi á afstöðu bænda til hans. Þeir höfðu varann á sér við samningsgerðina og vildu hafa fullvissu um að ekki yrði vegið að landbúnaði á Íslandi með honum. Ég kynntist varkárni þeirra af eigin raun sem formaður utanríkismálanefndar alþingis á þessum árum. Egill Jónsson, bóndi á Seljavöllum, flokksbróðir minn, var þá formaður landbúnaðarnefndar alþingis. Ræddum við þessi mál mikið og að lokum skapaðist traust bænda í garð samningsins og hann varð að lögum á alþingi 12. janúar 1993 (33 þingmenn sögðu já, 23 nei, 7 greiddu ekki atkvæði) og tók gildi 1. janúar 1994

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar vegna EES-laganna segir að nefndin hafi rætt tvö meginatriði tengd landbúnaðarmálum vegna EES-samningsins Í fyrsta lagi hafi umfjöllun nefndarinnar snúist um draga fram nákvæmlega hvaða landbúnaðarafurðir það séu sem falla undir samninginn og því heimilt að flytja til landsins. Í öðru lagi hafi hún snúist um rétt og möguleika íslenskra stjórnvalda til að leggja á verðjöfnunargjöld við innflutning á tilteknum afurðum sem unnar séu úr landbúnaðarvörum. Við umfjöllun landbúnaðarmála hafi utanríkismálanefnd notið góðs af nákvæmri athugun landbúnaðarnefndar þingsins á málinu og þakkar meirihluti utanríkismálanefndar landbúnaðarnefnd framlag hennar við afgreiðslu þess og vekur athygli á að með starfi nefndarinnar hafi verið gefið gott fordæmi um það hvernig þingnefndir geti kynnt sér til hlítar einstaka þætti EES-samstarfsins og framkvæmd þess.

Allt frá þessum tíma fylgdust Bændasamtök Íslands náið með samstarfi Íslands og Evrópusambandsins. Þáu áttu til dæmis fulltrúa í nefnd sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, skipaði árið 2002 til að ræða landbúnaðarstefnu ESB.

ESB-aðildarumsókn samþykkt

Hinn 28. janúar 2009 sendu bændasamtökin frá sér kynningarefni með meginrökum BÍ gegn aðild að ESB. Þar er tekið fram í inngangi að BÍ hafi um árabil „afdráttarlaust tekið afstöðu gegn aðild að ESB“. Þessa eindregnu stefnu byggi samtökin á upplýsingum sem þau hafi aflað sér árum saman. Afstaðan hafi styrkst af viðræðum við bændur og skoðunum aðildarfélaga um allt land.

Kynningarefnið birti BÍ í sama mund og slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Undir lok samstarfs flokkanna þótti Samfylkingunni sjálfstæðismenn of tregir til stuðnings við aðild að Evrópusambandinu.

Samfylking og vinstri-grænir tóku höndum saman um stjórn landsins 1. febrúar 2009 og bjuggu sig undir þingkosningar sem fram fóru 25. apríl 2009. Fyrir kosningarnar boðuðu talsmenn Samfylkingarinnar nauðsyn þess að sækja um aðild að ESB til að bjarga þjóðinni með hraði úr rústum bankahrunsins. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sérfróður um ESB-málefni, bauð sig fram á lista Samfylkingarinnar og boðaði fyrir kosningar að Íslendingum yrði tekið opnum örmum af ESB og gætu á árinu 2010 greitt þjóðaratkvæði um aðildarsamning að ESB. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi að hraðinn yrði ekki eins mikill og Baldur boðaði. Árni Páll sagði að kosið yrði um ESB-aðild fyrri hluta árs 2011 eða um sama leyti og búnaðarþing kom saman það ár.

Eftir að alþingi samþykkti 16. júlí 2009 að sótt skyldi um aðild að ESB ákváðu bændasamtökin haustið 2009 að tilnefna fulltrúa í þrjá svonefnda samningahópa á vegum utanríkisráðuneytisins.

Afstaða búnaðarþings skerpt

ESB-aðildarmálið var til umræðu á búnaðarþingi í byrjun mars 2010 og ítrekaði þingið andstöðu sína við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Var lýst fullum stuðningi við áherslur BÍ stjórn þeirra falið „að gæta áfram hagsmuna bænda í hvívetna, vera áfram leiðandi í umræðu um áhrif ESB aðildar á landbúnað og byggja áfram á faglegri þekkingaröflun“. Þingið brýndi jafnframt alla bændur og aðra velunnara íslensks landbúnaðar að taka þátt í umræðunni af fullum þunga.

Minnt var á að efnisleg rök BÍ gegn aðild hefðu ekki verið hrakin. Yrði aðild að ESB að veruleika mundi störfum í landbúnaði og tengdum greinum fækka stórlega en það leiddi til mikillar röskunar í byggðum þar sem landbúnaður væri undirstaða atvinnu. Aðild mundi einnig hafa verulega neikvæð áhrif á fæðu- og matvælaöryggi landsins. Þorri landsmanna væri sammála bændum. Það endurspeglaðist í nýrri skoðanakönnun Capacent sem leidi í ljós að rúm 84% þjóðarinnar teldi að það skipti öllu eða miklu máli að vera ekki öðrum þjóðum háð um landbúnaðarafurðir. Aðildarumsókn Íslands að ESB skapaði mikla óvissu í starfsumhverfi landbúnaðarins og drægi þróttinn úr nauðsynlegri endurnýjun og framþróun þann langa tíma sem umsóknarferlið mundi standa. Í ljósi alls þessa væri farsælast að stjórnvöld drægju aðildarumsóknina nú þegar til baka.

Þá taldi búnaðarþing ástæðu til að hafa „miklar áhyggjur“ af hvernig stjórnvöld héldu á hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinu. Íslensk stjórnsýsla væri undirmönnuð og vanbúin til að takast á við þetta verkefni. Athyglisvert væri að í áðurnefndri skoðanakönnun Capacent treysti aðeins ríflega fjórðungur þjóðarinnar stjórnvöldum vel til þess að halda á hagsmunum Íslands í þessu máli. Eins taldi búnaðarþing ekki fullreynt að ná mætti samkomulagi við ESB um samstarf í efnahags- og peningamálum á grundvelli EES samningsins.

Búnaðarþing lýsti þeirri skoðun að þátttaka fulltrúa BÍ í samningahópum fæli ekki í sér ábyrgð á samningaferlinu.

Til að kanna landbúnaðarlöggjöf ESB og EES fengu bændasamtökin Stefán Má Stefánsson lagaprófessor til að gera fræðilega úttekt og birtist hún í bókinni Landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins í júlí 2011.

Formanni viðræðunefndar svarað

Forystumenn BÍ lýstu undir lok nóvember 2010 vonbrigðum og reiði vegna ummæla Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra og formanns viðræðunefndar Íslands við ESB, um að afstaða „bænda geti skaðað samningsstöðu Íslands“ eins og sagði á vefsíðunni visir.is 29. nóvember 2010. Innan bændasamtakanna töldu menn að utanríkisráðuneytið drægi BÍ að ósekju til ábyrgðar á aðlögunarferlinu, sem hvíldi alfarið á ráðuneytinu.

Hinn 1. desember 2010 sendi Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, bréf til Stefáns Hauks Jóhannessonar sendiherra vegna ummæla hans í Fréttablaðinu. Bréfið var á þennan veg:

„Bændasamtök Íslands lýsa undrun sinni á ummælum þínum í Fréttablaðinu þann 27. nóvember sl. (bls. 22) þar sem orðrétt segir eftirfarandi (skáletraðar spurningar fréttamanns):

Í næstu viku er fjögurra daga fundur um landbúnaðarmál. Bændasamtökin eru í einum samningahópanna en segjast ekki vilja taka þátt í þessu ferli. Í hverju taka þau ekki þátt og hvað þýðir það? Hamlar það ykkur í þessu rýniferli? Við höfum átt prýðilegt samstarf við Bændasamtökin en þau hafa gefið til kynna að þau muni ekki taka þátt í rýnifundum úti í Brussel, sem eru vonbrigði. Þetta þýðir að við þurfum að styðjast við þá krafta sem við höfum í landbúnaðarráðuneytinu og það fólk í utanríkisráðuneyti sem hefur tekið þátt í þessu á landbúnaðarsviði. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegra að hafa Bændasamtökin með enda búa þau yfir mikilli þekkingu. Ég vil ekki vera með getgátur um hvort þetta tefji fyrir, við vinnum bara eins og við getum. Þetta hefur ekki áhrif á rýniferlið núna, því það er ESB sem skýrir sína hlið í næstu viku. En á seinni fundunum, sem verða í lok janúar, þurfum við að gera grein fyrir íslenskri löggjöf og það er mikil vinna að undirbúa það. Auðvitað hefði verið betra að hafa Bændasamtökin í því og ég vona að þau geri það. Við stefnum á að vera undirbúin fyrir þá fundi og ég á ekki von á öðru. Þetta getur þá þýtt að Ísland fer verr undirbúið en ella í iðræðurnar? Hjáseta Bændasamtakanna getur komið niður á undirbúningi og því gæti staða okkar verið lakari en ella.“

Umsókn um aðild að ESB og vinna að framgangi hennar er á ábyrgð Alþingis og ríkisstjórnar. Stjórnvöldum ber þar að gæta að hagsmunum allra, þar á meðal bænda. Að ósk utanríkisráðherra tilnefndu Bændasamtök Íslands fulltrúa í þrjá samningahópa þar sem þeir hafa starfað nú í rúmt ár. Upplýsingar um þau verkefni sem BÍ vinna að á grundvelli laga og annarra stjórnvaldsfyrirmæla eða samninga hafa legið fyrir eða verið gefnar eftir því sem eftir hefur verið leitað. Þar má nefna aðkomu BÍ að svara spurningalistum ESB haustið 2009, rýnivinnu í samningahópum á undanförnum mánuðum og móttöku gesta frá ESB sem hingað hafa komið í upplýsingaöflun.

Það er hins vegar grundvallarafstaða samtakanna að eiga ekki beina aðild að formlegum viðræðum stjórnvalda við fulltrúa ESB þar eð Bændasamtökin vilja ekki bera ábyrgð á þeim eða árangri þeirra. Það ferli sem stendur yfir er alfarið á ábyrgð stjórnvalda að mat Bændasamtaka Íslands.„

Af þessum samskiptum var ljóst að innan BÍ voru menn síður en svo sáttir við hvernig stjórnvöld stóðu að viðræðum við ESB. Samtöl við forystumenn BÍ á þessum tíma leiddu í ljós að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður hans, unnu leynt og ljóst að því að einangra BÍ. Af hálfu Samfylkingarinnar og stuðningsmanna hennar var reglulega stofnað til opinberra umræðna í fjölmiðlum sem miðuðu að því að veikja málstað bænda og vega að samtökum þeirra. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, hefur verið þar í fararbroddi um nokkurra missera skeið.

Þátttaka í rýnivinnu

Í fyrstu viku desember 2010 var haldinn fyrri rýnifundur um landbúnaðarmál með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Á þeim fundi kynnti framkvæmdanefnd ESB sameiginlegu landbúnaðarstefnuna (CAP) og framkvæmd hennar. Fast var leitað eftir því við bændasamtökin að sérfræðingar þeirra skipuðu hluta af sendinefnd Íslands á fundinum. Ákveðið var að fulltrúar BÍ sætu heima þar sem ferlið væri á ábyrgð stjórnvalda og sérfræðingar samtakanna gætu ekki tekið þátt í að taka ábyrgð á þessum hluta aðildarferlisins með formlegum hætti. Fulltrúar BÍ fylgdust hins vegar með beinni útsendingu frá fundinum sem stóð alls í 4 daga, í fundarsal utanríkisráðuneytisins.

Eftir þennan fund bárust íslenskum stjórnvöldum 28 spurningalistar frá ESB um íslenskan landbúnað, stærð, stjórnsýslu, stuðning og fjármögnun hans og áform um innleiðingu löggjafar á sviði sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar. Tóku starfsmenn BÍ þátt í að svara hluta þessara spurninga en svörin voru send ESB í nafni íslenskra stjórnvalda.

Síðari rýnifundurinn var í lok janúar 2011. Á honum kynntu fulltrúar Íslands, íslenska löggjöf og stjórnsýslu á sviði landbúnaðar og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar gafst kostur á að spyrja spurninga. Skrifleg svör Íslands voru send fulltrúum í samningahópnum í sömu viku og fundurinn var haldinn. Fundurinn var opinn öllum fulltrúum í samningahópi Íslands um landbúnaðamál og honum var einnig varpað á skjá í utanríkisráðuneytinu í beinni útsendingu. Fulltrúi BÍ fylgdust þar með fundinum.

Á 11. fundi samningahópsins um landbúnað 10. janúar 2011 lagði formaður hópsins til að sótt yrði um ESB-styrki (TAIEX styrki) til að styðja við öflun upplýsinga og kynningu fyrir sérfræðinga um stjórnsýslu landbúnaðarmála innan ESB með áherslu á greiðslustofu og landupplýsingakerfi. Viðbrögð fulltrúa BÍ við þeim hugmyndum voru að standa ekki að ákvörðun um styrkumsóknina. Umsóknir væru á ábyrgð stjórnvalda og nokkuð óljóst um hvaða árangri eða markmiðum þessum fjármunum væri ætlað að skila.

Búnaðarþing samþykkir varnarlínur

Eftir að hafa mótað skýra afstöðu í árslok 2010 gagnvart rýnivinnunn og aðildarviðræðunum sjálfum ákváðu forráðamenn BÍ að skerpa eigin samningsmarkmið vegna ESB-viðræðnanna og kynna þau opinberlega. Þetta var gert á búnaðarþingi sem lauk 9. mars 2011 með ályktun um ESB-málefni. Birtist hún hér í heild:

“Búnaðarþing 2011 ítrekar andstöðu sína við aðild að Evrópusambandinu. Miklir atvinnuhagsmunir bændastéttarinnar eru í húfi og telur þingið þessum hagsmunum betur borgið utan þess. Hagsmunir og afkoma bænda tengjast ótvírætt hagsmunum íslenskra neytenda og byggðum landsins. Búnaðarþing telur að fæðuöryggi þjóðarinnar verði því aðeins tryggt að fullu með því að Ísland standi utan sambandsins.

Þrátt fyrir algjöra andstöðu Bændasamtakanna við aðild að Evrópusambandinu hafa þau frá upphafi dregið sérstakar varnarlínur sem þau telja að feli í sér lágmarkskröfur í yfirstandandi samningaviðræðum við Evrópusambandið. Bændasamtökin telja mikilvægt að hagsmunir íslensks landbúnaðar verði tryggðir, komi til aðildar og að hagsmunir bændastéttarinnar verði metnir í heild með hliðsjón af byggðasjónarmiðum, neytendamálum og fæðuöryggi. Þeim árangri er að mati Bændasamtakanna aðeins hægt að ná sé varnarlínum samtakanna fylgt. Bændasamtökunum er ljóst að markmið varnarlínanna falla misvel að grunnreglum Evrópusambandsins og erfitt getur verið að ná þeim fram. Bændasamtökin hafa margoft áður sett þessa afstöðu fram.

Til þess að gæta hagsmuna íslensks landbúnaðar er það afdráttarlaus krafa Bændasamtaka Íslands að stjórnvöld leiti aðstoðar óháðra sérfræðinga utan stofnana Evrópusambandsins. Í varnarlínum samtakanna kemur fram krafa um varanlegar undanþágur frá landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Varanlegar undanþágur þýða að mati Bændasamtakanna að viðeigandi ákvæði í aðildarsamningnum gangi framar ákvæðum samningsins um starfsemi Evrópusambandsins og gerðum settum samkvæmt honum. Tímabundnar undanþágur nægja ekki að mati Bændasamtakanna til þess að tryggja framtíðarhagsmuni íslensks landbúnaðar. Allar varnarlínurnar varða sameiginlega hagsmuni landbúnaðar á Íslandi til lengri tíma litið. Það kostar verulega rannsóknarvinnu og gagnaöflun að takast á hendur þetta verkefni af fullum krafti. Stjórnvöld þurfa að tryggja pólitískan stuðning og nauðsynlegar fjárveitingar til þeirrar vinnu.

Búnaðarþing 2011 leggur áherslu á eftirtalin atriði:

- Að varnarlínur Bændasamtakanna og greining á lagaumhverfi landbúnaðar í Evrópusambandinu liggja nú fyrir búnaðarþingi. Búnaðarþing felur stjórn Bændasamtaka Íslands að fullvinna þessi gögn. Þau verði síðan kynnt bændum og send aðildarfélögum.

- Að með varnarlínum Bændasamtakanna hafa bændur sett fram lágmarkskröfur í landbúnaðarmálum vegna hugsanlegs aðildarsamnings.

- Að stjórn Bændasamtakanna fylgi varnarlínunum eftir við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í því skyni að koma þeim á framfæri við ríkisstjórn.

- Að stjórnvöld kanni nú þegar afstöðu Evrópusambandsins til varnarlína Bændasamtakanna sé það ætlun þeirra að standa vörð um íslenskan landbúnað.

- Að Bændasamtökin taki ekki þátt í undirbúningi eða aðlögunarstarfi sem leiðir beint eða óbeint af yfirstandandi samningaferli s.s. vinnu við að útfæra sameiginlegu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins fyrir íslenskar aðstæður.

- Að allar umræður sem leiða af sér grundvallarbreytingar á ríkisstuðningi-, tolla- og stofnanaumhverfi íslensks landbúnaðar verði að bíða þar til yfirstandandi samningaferli lýkur.

- Að Bændasamtökin ræki áfram skyldur sínar gagnvart stjórnvöldum með því að veita upplýsingar og ráðgjöf um landbúnaðarmál.

Greinargerð - Varnarlínur BÍ

  • 1. Áfram verði byggt á 13. grein EES-samningsins um rétt Íslands til verndar heilsu manna og dýra.

Meginatriði: Komi til aðildar verði innflutningsheimildir óbreyttar frá því sem þær verða þegar að lög nr. 143/2009 um innleiðingu á matvælalöggjöf ESB hafa öðlast gildi að fullu. Jafnframt verði heimilt að halda takmörkunum á plöntuinnflutningi óbreyttum. Íslenskum stjórnvöldum verði enn fremur heimilt að grípa til sérstakra aðgerða til að vernda og verja innlendu búfjárkynin Varanleg ákvæði þessa efnis verði hluti af aðildarsamningi.

  • 2. Ísland og íslensk stjórnvöld hafi fullt frelsi frá reglum og stefnu ESB til að ríkisstyrkja landbúnað og innlendan úrvinnsluiðnað.

Meginatriði: Komi til aðildar verði fullt tillit tekið til sérstöðu landsins í aðildarsamningi, án tillits til fyrri fordæma. Svigrúm verði til þess að tryggja stöðu byggða sem byggja á landbúnaði og úrvinnslu afurða hans þannig að hún verði ekki verri en fyrir aðild. Þannig er lágmarkskrafa að ríkisstyrkir verði a.m.k. með sama hætti og fyrir aðild. Nægilegt og skýrt svigrúm verði til að styðja við framleiðslu skilgreindra sóknarafurða sem hafa skírskotun til íslenskra framleiðsluaðstæðna. Svigrúm verði fyrir sérstakar aðgerðir til að verja íslenska búvöruframleiðslu vegna smæðar innlenda markaðarins.

  • 3. Áfram verði heimilt að leggja tolla á búvöru frá löndum ESB.

Meginatriði: Komi til aðildar hafi íslensk stjórnvöld áfram heimild til að leggja tolla á búvörur frá ESB löndum allt að því sem heimildir til að leggja á tolla samkvæmt skuldbindingum okkar innan WTO gefa svigrúm til. Verði breytingar á reglum WTO þannig að heimildir til álagningar tolla verði skertar þarf að bæta það með öðrum hætti. Hagsmuna íslensks landbúnaðar verði gætt í hvívetna vegna smæðar markaðarins og fjarlægðar frá hinum eiginlega innri markaði ESB.

  • 4. Félagsleg staða og afkoma bænda verði tryggð.

Meginatriði:Komi til aðildar verði tryggt að bændum verði bætt tjón vegna fjárfestinga sem ljóst er að verði verðlitlar eða verðlausar við aðild. Samtökum bænda verði jafnframt tryggð sambærileg staða og nú. Þetta þýðir að heimila verður og tryggja innlenda ríkisstyrki nægilega til þess að ná þessum markmiðum.

  • 5. Svæðaskipting landsins með tilliti til landbúnaðar kemur ekki til álita. Sérstakt tillit verður að taka til veðuraðstæðna og ríkra krafna til aðbúnaðar búfjár og vinnuverndar.

Meginatriði: Komi til aðildar verði sömu heimildir til að styðja við landbúnað óháð því hvar á landinu starfsemin er. Lágmarkskrafan er að landið verði skilgreint sem eitt svæði með tilliti til ríkisstyrkja og styrkja úr Evrópska tryggingarsjóðnum fyrir landbúnað Á ensku: European Agricultural Guarantee Fund (skammstafað EAGF), sem fjármagnar markaðsskipulagið og Evrópska landbúnaðarsjóðnum til þróunar landbúnaðarhéraða European Agricultural Fund for Rural Development (skammstafað EAFRD) og að hér verði um að ræða varanlegt ákvæði í aðildarsamningi.

  • 6. Réttur til sjálfbærrar nýtingar hlunninda og eðlilegra varna gegn rándýrum og meindýrum.

Meginatriði: Komi til aðildar verði ekki settar skorður á hefðbundna hlunnindanýtingu eða aðgerðir gegn meindýrum, hvort sem þau eru flokkuð sem meindýr innan ESB eða ekki. Lágmarkskrafa er að varanleg ákvæði vegna þessa verði hluti af aðildarsamningi.

  • 7. Samningurinn raski ekki eignaréttarlegri stöðu bænda og landeigenda. Tryggt verði að erlent fjármagn, ótengt landbúnaði raski ekki aðstöðu til framleiðslu landbúnaðarafurða.

Meginatriði: Komi til aðildar hafi stjórnvöld fullt svigrúm til að skilgreina ákveðin landsvæði sem landbúnaðarland sem ekki megi taka til annarra nota. Varanlegt ákvæði í aðildarsamningi verði sett til að tryggja þetta.„

Afstaða meirihluta utanríkismálanefndar

Í mars 2011 lá fyrir hvernig Bændasamtök Íslands litu á formlega stöðu sína gagnvart ESB-viðræðunum. Þau áttu fulltrúa í þremur samningahópum og búnaðarþing staðfesti umboð fyrir þessa fulltrúa sína með varnarlínunum sem voru dregnar í ályktuninni frá 9. mars 2011.

Varnarlínunar eru skýrar og til fyllingar því sem segir um landbúnaðamál í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis frá því í júlí 2009 sem mótar umboð þeirra embættismanna sem ræða við ESB fyrir Íslands hönd. Í álitinu segir að „verulegar áhyggjur“ séu meðal forsvarsmanna í landbúnaði um áhrif aðildar að ESB á íslenskan landbúnað. Þau sjónarmið eigi einnig stuðning víðar í samfélaginu. Mikilvægt sé að taka tillit til þessa við undirbúning aðildarviðræðna og leggja ríka áherslu á hin fjölþættu hagsmunamál sem tengjast íslenskum landbúnaði og stöðu hans til frambúðar fyrir íslenskt samfélag. Í því samhengi sé mikilvægt að hafa í huga að landbúnaður snúist ekki einvörðungu að matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar. Öflugur íslenskur landbúnaður skipti máli til að íslenskt samfélag verði sem sjálfbærast um matvæli. Landbúnaður sé snar þáttur í mótun byggðar í landinu og hafi hlutverki að gegna til framtíðar í umhverfismálum, skógrækt, landgræðslu, endurheimt votlendis, landbúnaðarlandslagi, menningu og ferðaþjónustu fyrir landið allt. „Landbúnaður gegnir gríðarlega miklu hlutverki fyrir hinar dreifðu byggðir landsins auk þess að vera hluti af menningu og lífsafkomu lands og þjóðar, enda fjöldi afleiddra starfa sem tengist landbúnaði beint og óbeint,“ segir í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis. Í álitinu segir orðrétt:

“Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af samningsmarkmiðum Íslands. Það á t.d. við um afnám tolla þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar, ekki síst hefðbundins landbúnaðar. Er því mikilvægt að leita allra leiða til að búa svo um hnúta að stuðningi við landbúnað verði sem minnst raskað þótt ljóst sé að ákveðin breyting í uppbyggingu styrkjakerfisins muni eiga sér stað með aðild að sambandinu. […] Einnig var rætt um möguleikann á að sækjast eftir tímabundinni eða varanlegri undanþágu frá markaðseftirliti með innfluttum matvælum vegna landfræðilegra aðstæðna, þar sem slíkt eftirlit yrði mun kostnaðarsamara en það eftirlit sem nú fer fram við tollafgreiðslu. […] Að auki áréttar meiri hlutinn að hefðbundinn landbúnaður á Íslandi og hið íslenska fjölskyldubú er hluti af menningu og sögu landsins sem þörf er á að varðveita og því þarf að verja þær greinar sem slíkur landbúnaður byggist á, svo sem mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt.[…]

Meiri hlutinn telur að gera verði skýra grein fyrir aðkomu hagsmunaaðila að þessum málaflokki, líkt og öðrum, í aðdraganda mögulegra viðræðna og á meðan samningavinna fer fram. […]

Ljóst er að íslenskur landbúnaður í heild sinni er lykillinn að fæðuöryggi landsins, þ.e. að nægur matur sé til í landinu, ef þörf krefur. Í því sambandi leggur meiri hlutinn einnig áherslu á matvælaöryggi en hér á landi eru búfjárstofnar afar viðkvæmir fyrir mögulegum utanaðkomandi sýkingum og mikilvægt er að íslensk stjórnvöld geti gripið til nauðsynlegra ráðstafana til verndar íslenskum búfjárstofnum enda hefur náðst markverður árangur hér á landi í dýraheilbrigðismálum og matvælaöryggi. Ísland hefur til þessa samkvæmt EES-samningnum verið undanþegið viðskiptum með lifandi dýr. Undanþágan var tímabundin til ársins 2000, en búið er að ganga frá því í tengslum við matvælalöggjöfina að undanþágan er nú varanleg innan EES-samningsins. Meiri hlutinn telur rétt að kröfu um að þessari undanþágu verði framhaldið fyrir Ísland verði haldið uppi í mögulegum aðildarviðræðum. Vísað er í því efni til landfræðilegrar einangrunar landsins sem leitt hefur af sér búfjárstofna sem sérstök ástæða er til að vernda gegn beinni utanaðkomandi ásókn.

Tryggja þarf stöðu landbúnaðarins eftir sem áður. Afar mikilvægt er að halda fast á málum að því er varðar að tryggja áframhaldandi matvælaöryggi hér á landi, þ.e. heilbrigði matvæla fyrir neytendur, og er í því efni mikilvægt að horfa til allrar fæðukeðjunnar. Mikilvægt er að tryggja sem best ákveðinn sveigjanleika til aðgerða hér á landi til að tryggja áfram öflugar sjúkdómavarnir. Slíkt er lykilatriði til að tryggja áfram heilnæmi og sérstöðu þeirra afurða sem framleiddar eru hér á landi í hefðbundnum búskap.„

Í næstu grein verður reifað hvernig Bændasamtök Íslands hafa unnið að því að fá stjórnvöld til að viðurkenna að varnarlínur þeirra muni einkenna samningsmarkmið Íslands gagnvart ESB. Þá verður einnig rætt um kröfur ESB um aðlögun stofnana á sviði landbúnaðar.

Ágreiningur um efni og form – ESB setur skilyrði vegna landbúnaðarmála

Bændur og ESB II

17. maí 2012

Ákvörðun búnaðarþings 9. mars 2011 um varnalínur bænda var kynnt ríkisstjórninni föstudaginn 1. apríl 2011 þegar Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði samþykkt þingsins um málið fyrir ríkisstjórnina og sendi síðan frá sér tilkynningu um málið hinn 5. apríl 2011. Þar kom fram að ráðherrann hefði hitt fulltrúa BÍ á fundi þar sem forystumenn BÍ óskuðu eftir því að ríkisstjórnin fengi formlega vitneskju um afstöðu búnaðarþings og BÍ.

Um þessar mundir drógu ESB-aðildarsinnar upp neikvæða mynd af BÍ með vísan til skýrslu ríkisendurskoðunar þar sem fjallað var um verkefni BÍ í þágu stjórnsýslu ríkisins og mælt með skarpari skilum milli hennar og samtakanna. Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, sagði í samtali við Fréttablaðið að samtökin „hefðu ekkert á móti því að losna við eitthvað af þessum verkefnum“. Það væri hins vegar undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu komið að svara því hvort annað fyrirkomulag kynni að vera betra.

Þetta varð Ólafi Þ. Stephensen, ritstjóra Fréttablaðsins, tilefni til að segja í leiðara þess 28. mars 2011 að í þessu efni kvæði við allt annan tón hjá formanni BÍ en þegar búnaðarþing hefði dregið upp „varnalínur“ sínar vegna ESB-aðildarviðræðnanna. „Þar sagði að kæmi til ESB-aðildar yrði að tryggja samtökum bænda “sambærilega stöðu og nú„ og sjá til þess að þau fengju áfram ríkisstyrki. Þetta eru væntanlega viðbrögð við því að af hálfu Evrópusambandsins hafa verið gerðar athugasemdir við stöðu Bændasamtakanna; bæði að þau úthluti ríkisstyrkjum og að þau sjái um hagskýrslugerð,“ sagði ritstjórinn og bætti við:

„Skýrsla Ríkisendurskoðunar undirstrikar hins vegar að breytingar á stöðu Bændasamtakanna eru nauðsynlegar, hvort sem kemur til ESB-aðildar eða ekki. Og viðbrögð formanns Bændasamtakanna nú sýna að “varnarlínur„ bænda og áhyggjur þeirra af “aðlögun„ að reglum ESB í þessu efni eru fyrirsláttur. Er ekki tímabært að hætta honum?“

Þessi afstaða í leiðara Fréttablaðsins var og er dæmigerð fyrir stefnu ESB-aðildarsinna í umræðunum um varnarlínur BÍ. Efni viðvörunarorða bænda víkur fyrir viðleitni til að kasta rýrð á samtök þeirra og látið er í veðri vaka að samtökin njóti óheppilegrar eða jafnvel óeðlilegrar stöðu gagnvart stjórnsýslu ríkisins og séu jafnvel einskonar ómagi skattgreiðenda vegna þess að þau fá greitt fyrir þjónustuna sem þau veita.

Áhyggjur af samningsumboði

Fulltrúar í viðræðunefnd Íslands við ESB lýstu hinn 19. maí 2011 áhyggjum sínum yfir því að umboð fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í ESB-viðræðunum væri takmarkað að því er varðaði skoðun á öðrum kostum í viðræðum við ESB en tollvernd fyrir íslenskan landbúnað. Þá hefði fulltrúi ráðuneytisins ekki heldur umboð frá Jóni Bjarnasyni til að vinna að áætlanagerð vegna hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB. Var ráðherrann sakaður um að stöðva ESB-viðræðurnar.

Þetta kom fram á 30. fundi viðræðunefndar Íslands vegna ESB-aðildarumsóknarinnar sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg fimmtudaginn 19. maí sl.

Eftir að Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og formaður viðræðuhópsins um landbúnaðarmál hafði greint frá hinu takmarkaða umboði fulltrúa ráðuneytisins í viðræðunum var bókað í fundargerð:

„Fulltrúar í samninganefnd lýstu áhyggjum af þessum takmörkunum á umboði og töldu mikilvægt að leitað yrði lausna þar á. Einn samninganefndarmanna taldi að líta mætti svo á að með slíkri yfirlýsingu væri verið að stöðva viðræðurnar.“

Bændasamtök leita skýringa frá ráðherra

Hinn 18. maí 2011 sendu bændasamtökin bréf til Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, vegna yfirlýsinga ESB um að Ísland „hafi viðurkennt réttarreglur ESB í landbúnaðarmálum og að þær liggi til grundvallar frekari viðræðum“ við Íslendinga, það er í hinum „eiginlegu samningaviðræðum“.

Vegna þessara orða ESB spurðu bændasamtökin Jón Bjarnason hvernig staðið yrði að samningum við ESB í landbúnaðarmálum, þegar þess væri gætt að Ísland hefði „þegar samþykkt réttarreglur ESB sem grundvöll viðræðnanna að því er landbúnaðarmál varðar“. Taldi BÍ að hafa yrði í huga ályktun alþingis frá 16. júlí 2009 og að varnarlínur BÍ fælu í sér „verulegar og varanlegar undanþágur“ frá reglum ESB í landbúnaðarmálum en skýrsla ESB benti „eindregið til þess að slíkar undanþágur verði ekki teknar til greina eða ekki sé gert ráð fyrir þeim.“

Af þessu tilefni var Jón Bjarnason spurður með hvaða hætti hann ætlaði að halda þessum samningsmarkmiðum um undanþágur.

Jón Bjarnason svaraði bréfi BÍ hinn 22. júní 2011 og sagðist styðja varnarlínur BÍ í ESB-viðræðunum. Teldi samninganefnd Íslands að hún þyrfti að gefa eftir tollvernd íslensks landbúnaðar til að verða við kröfum Evrópusambandsins í viðræðunum væri nefndinni væntanlega skylt að leita eftir nýju umboði frá alþingi.

Ráðherrann sagði að hann hefði kynnt ríkisstjórninni afstöðu BÍ og stuðning sinn við hana. Hann hefði ekki breytt um skoðun og væri afstaða hans meðal annars reist á sjónarmiðum sem komið hefðu fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar frá því í júlí 2009.

Þá sagði í bréfi Jóns Bjarnasonar til BÍ:

„Ef ESB býður Íslandi að samningaborði án skilyrða um aðlögun hlýtur samninganefndin að leggja fram samningsafstöðu og þegar hún er sett fram reynir á varnarlínur BÍ. Telji samninganefnd Íslands við ESB aftur á móti að gefa þurfi eftir tollvernd eða aðra lykilþætti í stuðningi við landbúnaðinn, að kröfum ESB, er henni væntanlega skylt að leita eftir umboði til þeirrar málafylgju hjá Alþingi.“

„Eiginlegar“ viðræður hefjast

Hinn 27. júní 2011 hófust hinar „eiginlegu samningaviðræður“ fulltrúa Íslands og Evrópusambandsins þegar Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi í Brussel við János Martonyi, utanríkisráðherra Ungverjalands, á öðrum viðræðufundi Íslands og ESB á ráðherrastigi. Með fundinum var staðfest að rýnivinnu fulltrúa Íslands og ESB væri lokið og nú yrði hafist handa við að „opna og loka“ samningsköflunum 33.

Í byrjun júlí 2011 gáfu BÍ út bókina eftir Stefán Má Stefánsson lagaprófessor sem áður er getið. Í henni er að finna rannsókn á helstu þáttum löggjafar ESB og EES á sviði landbúnaðar. Þar er meðal annars rakið hvernig og hvort umsóknarríkjum að ESB, hafi orðið ágengt við að fá undanþágur frá meginreglum ESB. Í sem skemmstu máli er niðurstaða rannsóknarinnar, að engar slíkar undanþágur fáist. Aðeins tímabundin bráðabirgðaákvæði.

Hinn 11. júlí 2011 hitti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Angelu Merkel Þýskalandskanslara og sagðist á fundinum hafa kynnt kanslaranum samningsmarkmið Íslendinga í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Sá hængur reyndist hins vegar á þessum málatilbúnaði að bændasamtökunum hafði ekki verið kynnt hver væru markmið ríkisstjórnarinnar og rituðu þau bréf til Jóns Bjarnasonar og spurðu hann um hver væru samningsmarkmiðin sem Jóhanna hefði kynnt Angelu Merkel.

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, situr í ESB-viðræðunefnd Íslands. Hann ritaði grein í Fréttablaðið laugardaginn 16. júlí þar sem hann sagði að með stuðningi sínum við kröfu BÍ um tollvernd hefði Jón Bjarnason sett slagbrand „fyrir þær dyr sem næst þarf að ljúka upp í aðildarviðræðunum“. Afleiðingin af því að stoppa við varnarlínur BÍ væri stöðnun. Þar stæði ríkisstjórnin.

Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, svaraði Þorsteini með grein á Evrópuvaktinni hinn 17. júlí 2011 og sagði meðal annars:

„Landbúnaðarvörur sem framleiddar eru á Íslandi hafa haldið uppi kaupmætti heimila. Skapað innlend störf. Störfum í landbúnaði hefur fjölgað um 400 árin 2008 til 2010 samkvæmt vef Hagstofu Íslands. Aðilar sem trúa ekki á að það geti verið nauðsynlegt að standa vörð um atvinnugreinar og auðlindir með virkri stjórnun og stjórntækjum sem standa fólkinu, sem vinnur verkin, nærri ættu ekki að taka þátt í samningaviðræðum við ESB.

Bændur hafa ekki síst fengið þá gagnrýni að sjá ekki tækifærin í stóru markaðssvæði ESB. En nákvæmlega núna, þegar td. verð á sauðfjárafurðum hefur stórhækkað á heimsmarkaði, hvetur forseti ASÍ Íslendinga til að kaupa ekki lambakjöt og formaður þingflokks Samfylkingarinnar segist ekki fá séð að hærra afurðaverð erlendis eigi að endurspeglast á innlendum mörkuðum. Skilur þetta fólk ekki sjálft hvað það er að segja?

Þorsteinn Pálsson fellur í þá gryfju að taka eina varnarlínu bænda fram til að gera hana tortryggilega. Hann gerir í raun enga tilraun til að ræða málefnalega um afstöðu bænda. Ef hann vill gera það þá þarf hann að svara í heild þeim rökum sem bændur hafa sett fram Þetta eru okkur vonbrigði því Bændasamtökin tóku alvarlega áskoranir um málefnalega umræðu um ESB, þau mæta til umræðunnar með einstaka og vandaða rannsókn á því hvað er í „ESB pakkanum“ Bændasamtökin hafa fjallað um hagsmuni landbúnaðar með opinni umræðu. Undirbyggt sjónarmið sín með gildum rökum. Tekið lýðræðislega afstöðu. Hið sama er ekki hægt er að segja um stjórnvöld sem pukrast með samningsafstöðu Íslands. En kannski ekki, því eina raunverulega samningsafstaðan er að fá inngöngu – hvað sem það kostar.“

Þarna víkur Haraldur Benediktsson að því að íslensk stjórnvöld pukrist með samningsafstöðu Íslands. Verður að skoða þau orð í beinu samgengi við bréfið sem BÍ sendu Jóni Bjarnasyni eftir fund forsætisráðherra Íslands og kanslara Þýskalands. Þá verður einnig að líta til þess sem gerðist innan samningahóps um landbúnaðarmál þar sem BÍ eiga fulltrúa. Fundargerðir hópsins eru birtar á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Samningahópur fundar

Á fundi samningahóps um landbúnaðarmál (11. kafla aðildarviðræðnanna) sem haldinn var 21. febrúar 2011 var flutt munnleg skýrsla um rýnifundi um landbúnað og dreifbýlisþróun sem fram fóru í lok janúar 2011. Þá var bókað á fundinum að farið hefði verið yfir næstu skref aðildarferlisins og í starfi samningahópsins. Framkvæmdastjórn ESB mundi nú vinna skýrslu til ráðherraráðsins um rýnivinnuna. Í skýrslunni yrði lagt mat á stöðu Íslands út frá þeim upplýsingum sem komið hefðu fram í ferlinu og hvort framkvæmdastjórnin legði til að hafnar yrðu viðræður um landbúnaðarkaflann. Réttilega var bent á að ráðherraráð ESB en ekki framkvæmdastjórn ESB tæki ákvörðun um upphaf viðræðna um landbúnaðarmál. Fyrst yrði að kynna rýniskýrslu framkvæmdastjórnarinnar og yrði hún líklega tilbúin vorið 2011 eða í sumarbyrjun.

Í fundargerðinni frá 21. febrúar 2011 sagði einnig að næsta verkefni samningahópsins yrði að móta drög að samningsmarkmiðum varðandi landbúnað sem send yrðu aðalviðræðunefnd Íslands til meðferðar. Formaður lagði til að skipaðir yrðu þrír vinnuhópar til að fjalla um ólíka þætti landbúnaðar. Almennur hópur um stjórnsýslumál og samræmingu samningsafstöðu, hópur um 1. stoð – þ.e. stuðningskerfi og markaðskerfi og hópur um dreifbýlisþróunarmál. Formaður fór yfir verkefnalýsingu hvers hóps fyrir sig. Miðað væri við að hóparnir skiluðu tillögum til samningahópsins.

Þegar Haraldur Benediktsson skrifaði grein sína 17. júlí 2011 hafði verið haldinn einn fundur í samningahópnum um landbúnaðarmál frá 21. febrúar 2011. Fundurinn var 24. mars 2011 og segir í fundargerð að þar hafi verið kynnt drög að skýrslu Daða Más Kristóferssonar og Ernu Bjarnadóttur um stöðu íslensks landbúnaðar gagnvart aðild að Evrópusambandinu, áhrif á tekjur og stuðning og væntanlega stuðningsþörf. Nokkrar umræður hafi spunnist um efni skýrslunnar. Þá segir:

„Formaður gaf fulltrúum Bændasamtaka Íslands orðið og kynntu þeir ályktun Búnaðarþings samtakanna varðandi aðildarviðræður Íslands við ESB. Samtökin ítreka mikilvægi þeirra sjö varnarlína sem samtökin hafa lagt fram í þeim tilgangi að verja hagsmuni landbúnaðarins.“

Eins og þessi bókun ber með sér ræddu menn ekki varnarlínur búnaðarþings á fundi samningahópsins en bókunin ber með sér að BÍ hafi bæði kynnt stefnu sína í samningshópnum og fyrir ráðherra sem lagði málið fyrir ríkisstjórn eins og áður sagði og tók sjálfur jákvæða afstöðu til sjónarmiða bænda.

Samningahópur um landbúnaðarmál og dreifbýlisþróun kom enn saman til fundar 22. nóvember 2011. Þar er bókað að formaður hafi kynnt rýniskýrslu frá framkvæmdastjórn ESB um 11. kafla um landbúnað og dreifbýlisþróun sem borist hafi íslenskum stjórnvöldum 1. september 2011. Þar komi fram að óskað sé eftir tímasettri aðgerðaáætlun hvað varði innleiðingu regluverks kaflans. Ráðherraráð ESB hafði með öðrum orðum komist að þeirri niðurstöðu að Íslendinga yrðu að verða við skilyrðum framkvæmdastjórnar ESB áður en „eiginlegar samningaviðræður“ hæfust um landbúnaðarmál við Íslendinga. Í fundargerðinni segir:

„Í opnunarviðmiðinu felst að ESB sér sér ekki fært um að halda áfram samningaviðræðum um kaflann fyrr en tímasett aðgerðaáætlun hefur verið lögð fram af íslenskum stjórnvöldum og samþykkt af aðildarríkjum ESB“.

ESB setur opnunarviðmið

Í þessari fundargerð er vísað til þess að 1. september 2011 setti Jan Tombiński,sendiherra Póllands gagnvart Evrópusambandinu, fyrir hönd aðildarríkja ESB, skilyrði fyrir því að viðræður hæfust við íslensk stjórnvöld um landbúnaðarmál. Í skilyrðinu fólst krafa um aðlögun að landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins á viðræðutímanum. Þess er krafist að íslensk stjórnvöld kynni aðildarríkjum ESB tímasetta áætlun um aðlögunina. Eftir skoðun á henni yrði tekin ákvörðun um hvort viðræður um landbúnaðarmál hæfust.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sendi mánudaginn 5. september 2011 frá sér yfirlýsingu í tilefni af bréfi pólska sendiherranns. Ráðherra taldi að það þyrfti að liggja ljósar fyrir að sú áætlunargerð sem ESB krefðist fæli hvorki í sér aðlögun né breytingar á lögum eða regluverki, áður en aðild hefði verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá væri ekki sjálfgefið að lögð yrði fram áætlun um verkefni sem samningsaðilar hefðu hvorki rætt um né komist að samkomulagi um hvort hentaði Íslandi.

Af þeim sökum taldi ráðherrann nauðsynlegt að fulltrúar ESB skýrðu með fullnægjandi og tæmandi hætti hvað átt væri við með þeim skilyrðum sem fram kæmu í erindi ESB.

Jón sagðist hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að fylgja samþykkt alþingis um aðildarviðræður en að sama skapi væri brýnt að þau verkefni sem ráðist yrði í rúmuðust innan þeirra heimilda sem alþingi hefði veitt.

Hér fer bréf pólska sendiherrans sem dagsett er 1. september 2011 í þýðingu Evrópuvaktarinnar:

„Fyrir hönd aðildarríkja Evrópusambandsins viljum við upplýsa yður um að eftir yfirferð á lagabálki í 11. kafla [um landbúnað og dreifbýlisþróun] er ekki unnt að líta þannig á að Ísland sé nægilega vel búið undir viðræður um þennan kafla. Með hliðsjón af því sem fram kemur hér að ofan telur ESB ekki unnt að opna þennan kafla fyrr en að aðildarríkin hafa samþykkt að eftirfarandi skilyrði sé uppfyllt:

• Ísland kynni stefnu þar á meðal tímasetta áætlun um aðgerðir sem gripið verður til stig af stigi til að tryggja fulla aðlögun að lögum ESB í 11. kafla um landbúnað og dreifbýlisþróun við dagsetningu aðildar að því er varðar landbúnaðarstefnu, löggjöf og stjórnsýslu þar sem höfð verði hliðsjón af sérstöðu íslensks landbúnaðar.“

Bréfið var stílað til Þóris Ibsens, sendiherra Íslands gagnvart ESB. Pólski sendiherrann ritaði það fyrir hönd ESB-ríkjanna þar sem Pólverjar voru í pólitískri forystu innan ESB fram að 1. janúar 2012.

Utanríkisráðuneytið endursagði bréfið frá pólskum stjórnvöldum á þennan hátt:

„Niðurstaða sambandsins er kynnt með bréfi til íslenskra stjórnvalda. Þar kemur fram að sambandið telji að forsenda þess að hægt sé að hefja samningaviðræður um landbúnað sé að íslensk stjórnvöld leggi fram tímasetta vinnuáætlun. Áætlunin kveði á um hvernig Ísland hyggist verða að fullu reiðubúið til þess að njóta þess ávinnings og axla þær skyldur sem af aðildarsamningi leiða á fyrsta degi aðildar, samþykki íslenska þjóðin aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í bréfinu tekur Evrópusambandið sérstaklega fram að taka skuli tillit til sérstakra aðstæðna á Íslandi.“

Eins og sést af bréfi pólska sendiherrans minntist hann hvergi á þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi heldur snerist krafa hans um skýr svör af hálfu íslenskra stjórnvalda.

ESB-aðildarsinnar vildu breiða yfir raunverulegt efni bréfs sendiherrans með tali um að í því fælist viðurkenning á sérstöðu íslensks landbúnaðar sem benti til þess að „sérlausn“ fengist fyrir hann. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skrifaði grein í Morgunblaðið 17. september að orðin um sérstöðu íslensks landbúnaðar snerist ekki um fyrirheit um neinar sérlausnir heldur um þá staðreynd að fámenn bændastétt stundaði hér landbúnað í strjálbýlu landi með fábreyttar framleiðsluvörur.

Þá vakti landbúnaðarráðherra máls á því að færi hann að óskum ESB um tímasetta áætlun um aðlögun að landbúnaðarkerfi ESB gengi hann lengra en vald sitt heimilaði vegna umboðs sem lægi fyrir frá alþingi. Boðaði ráðherrann í grein sinni að hann ætlaði að spyrja framkvæmdastjórn ESB hvað ætti að felast í þessari áætlun sem honum bæri að semja fyrir hana. Ráðherrann taldi ekki „raunhæft að ráðast í gerð“ aðlögunaráætlunar að kröfu ESB fyrr en svör og skýringar hefðu borist frá framkvæmdastjórninni.

Ásakanir um tafir

Haustið 2011 var því haldið fram af ESB-aðildarsinnum á Íslandi að Jón Bjarnason tefði fyrir framgangi aðildarviðræðnanna við ESB. Eiríkur Bergmann Einarsson, sérfræðingur Háskólans á Bifröst í ESB-málum, skrifaði á þennan veg í Fréttatímann 21. október 2011 þegar hann sagði:

„Töfin skýrist þó fremur af því að Íslendingar hafa sjálfir dregið lappirnar í erfiðustu málaflokkunum. Í nýlegum rýniskýrslum ESB segir að ekki sé hægt að hefja efnislegar viðræður í landbúnaðar- og byggðamálum fyrr en Ísland skilgreini eigin samningsmarkmið og leggi fram innleiðingaráætlun. Engin athugasemd er gerð við þau áform að bíða fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu með að innleiða breytingar en kallað er eftir tímasettri áætlun þar að lútandi.

Málið hefur, með öðrum orðum, strandað í landbúnaðarráðuneytinu.“

Þegar ég ræddi í október 2011 við þá í Brussel sem koma að viðræðunum við Íslendinga bæði af hálfu ráðherraráðs ESB og framkvæmdastjórnar ESB blasti við allt önnur mynd en Eiríkur Bergmann lýsti í þessum orðum. Vissulega væri það rétt að ESB hefði lent í vandræðum vegna þess að íslenska ríkisstjórnin, ekki aðeins Jón Bjarnason, hefði ákveðið að fara undan í flæmingi þegar kæmi að aðlögun á viðræðutímanum. Framkvæmdastjórnin teldi sig hins vegar hafa fundið leið til að halda viðræðunum á floti þrátt fyrir þetta.

Ég taldi að framkvæmdastjórn ESB áttaði sig á því að enginn áhugi væri á því hjá meirihluta Íslendinga að ganga í Evrópusambandið um þessar mundir. Hún vonaði að það tækist með áróðri eða „upplýstri, hlutlægri kynningu“ eins og það væri orðað að snúa Íslendingum á sveif með ESB-aðild, til þess þyrfti hins vegar tíma og ágætt væri að vinna hann með því að tefja allar viðræður um erfiðustu málaflokkana, það kæmi sé auk þess vel fyrir ESB frá samningatæknilegu sjónarhorni.

Í grein frá Brussel 21. október 2011 sagði ég:

„Það sem kemur mér á óvart er að viðræðurnar við Íslendinga fara alfarið fram á forsendum ESB. Sambandið segir sem svo: Íslendingar sóttu um aðild. Þeir vissu að hverju þeir gengju. Eftir að þeir voru samþykktir sem umsóknarþjóð ráðum við ferðinni. Það er skrýtið að þeir átti sig ekki á kröfunum um aðlögun við teygjum okkur til móts við þá í því efni. Fyrir því eru mörk hve langt við getum gengið. Að öðru leyti ráðum við ferðinni. Kannski var sagt í upphafi að þetta tæki skamman tíma. Kannski segja menn á Íslandi að þetta taki skamman tíma. Málið er ekki bara svo einfalt. Við ráðum því hvað þetta tekur langan tíma og tökum mið af því sem ESB kemur best inn á við og gagnvart almenningsálitinu á Íslandi.“

Eins og áður sagði kom samningahópur um landbúnaðar- og dreifbýlismál ekki saman fyrr en 22. nóvember 2011 til að ræða bréfið sem ráðherraráð ESB sendi 1. september 2011 og hafði að geyma kröfur á hendur íslenskum stjórnvöldum sem yrði að fullnægja til að viðræður hæfust um landbúnaðamál. Á fundinum var afhent og kynnt dæmi vegna tímasettu aðgerðaáætlunarinnar sem ESB krafðist. Formaður tók fram að áætlunin mundi að engu leyti binda hendur íslenskra stjórnvalda hvað varðaði samningsafstöðu í kaflanum. Settir yrðu fyrirvarar í áætlunina til að tryggja þessa afstöðu. Aðgerðaáætlunin snerist um að útskýra hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að haga undirbúningi sínum. Áður en endanlegri áætlun yrði skilað til framkvæmdastjórnar ESB yrði samningshópurinn kallaður til fundar.

Um það leyti sem samningahópurinn kom saman í nóvember 2011 tók að hitna undir Jóni Bjarnasyni í ríkisstjórn Íslands og gætti vaxandi óvildar Jóhönnu Sigurðardóttur í hans garð. Var Jóni vikið úr ríkisstjórninni 31. desember 2011 og tók Steingrímur J. Sigfússon við embætti hans.

Í árslok 2011 snerust umræður um íslensk landbúnaðarmál og ESB ekki um efnisatriði málsins heldur um hvernig bregðast skyldi við kröfum ESB og skilyrðum til að efnislegar viðræður gætu hafist. Ágreiningur var bæði um efnisatriði málsins og viðbrögð við hinum formlegu skilyrðum innan ríkisstjórnarinnar.


Línur skýrast varðandi varnarlínur BÍ

Bændur og ESB III

18. maí 2012


Jón Bjarnason komst aldrei til Brussel á meðan hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að fá skýringar á skilyrðum ráðherraráðs og framkvæmdastjórnar ESB fyrir viðræðum við Íslendinga um landbúnaðarmál. Hvað fælist í raun í kröfum ESB um „tímasetta áætlun“. Jóni var vísað úr ríkisstjórninni 31. desember 2011 og Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokks hans, tók við landbúnaðarmálum innan ríkisstjórnarinnar auk annarra málefna.

Steingrímur J. í Brussel

Steingrímur J. hélt til Brussel 25. janúar 2012 og hitti Štefan Füle, stækkunarstjóra ESB, á tveimur fundum og sat Dacian Ciolos landbúnaðarstjóri seinni fundinn. Þá ræddi Steingrímur J. í klukkustund við Mariu Damanaki sjávarútvegsstjóra. Í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann Morgunblaðsins, sem birtist í blaðinu fimmtudaginn 26. janúar sagði Steingrímur J. það þessir fundir hafi verið „gagnlegir“.

Blaðamaður spurði Steingrím J. hvernig hann „skynjaði“ framvindu aðildarviðræðna um sjávarútveg og landbúnað. Ráðherrann svaraði:

„Ég held að það sé áhugi á að koma þeim betur í gang, að komast í hinar eiginlegu viðræður. Ég lagði auðvitað áherslu á það af okkar hálfu að við vildum sem fyrst fara að geta látið reyna á þetta í alvöruviðræðum og vonandi tekst það. Það átta sig allir á því að þarna erum við með stóru hlutina undir, eða suma af þeim stærstu. Síðan er ekki hægt að neita því að það var svolítið rætt um makríl líka.“

Í frétt Morgunblaðsins kom ekkert fram um hvort Steingrímur J. hefði leitað þeirra skýringa sem forveri hans og flokksbróðir taldi nauðsynlegt að fá frá ESB um afstöðu þess í landbúnaðarmálum, meðal annars til skilyrða Bændasamtaka Íslands sem Jón Bjarnason studdi með bréfi til þeirra.

Hvorki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið né utanríkisráðuneytið sendu frá sér tilkynningu um Brussel-för Steingríms J. Sigfússonar og Morgunblaðið var eini fjölmiðillinn sem lagði sig fram um að segja fréttir af henni.

Steingrímur J. Sigfússon nefndi ekki Brussel-ferðina einu orði á alþingi 17. janúar 2012 þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hann sem nýjan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort hann ætlaði að framfylgja eigin heitstrengingum um að láta reyna á vilja ESB til að hefja viðræður um fiskveiðistjórnun og ljúka málinu með samkomulagi.

Í svari sínu sagði Steingrímur J. meðal annars:

„Ég mun eiga fundi á næstu dögum með formönnum viðræðunefnda bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs og reyndar að einhverju leyti fleiri hópa sem tengjast sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, m.a. til að setja mig nákvæmlega inn í stöðuna og hvar þær viðræður eru á vegi staddar þó að ég þekki allvel til undirbúningsins. Það tengist meðal annars því sem hv. þingmaður nefndi, að ég hef verið áhugamaður um að sem fyrst væri hægt að láta reyna á þessa stóru og mikilvægu kafla þar sem grundvallarhagsmunir okkar eru undir.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vék að Brusselför Steingríms J. á þingfundi 30. janúar 2012. Hann sagði nú sjást hvers vegna framkvæmdastjórn ESB hefði afþakkað heimsókn Jóns Bjarnasonar til Brussel. Menn hefðu „væntanlega fengið að vita af því að von væri á öðrum ráðherra í hans stað sem þægilegra væri að ræða við“. Spurði Sigmundur Davíð að því hver væri munurinn á stefnu Jóns og Steingríms J. gagnvart ESB.

„Því er fljótsvarað, frú forseti: Hann er enginn,“ sagði Steingrímur J. og bætti við:

„Varðandi þá heimsókn til Brussel sem ég fór í er rétt að taka fram að hún hafði verið undirbúin af forvera mínum. Það er misskilningur sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að ráðherraskiptin sem urðu um áramótin hafi haft nokkur áhrif þar á, þ.e. sú tímasetning fundanna sem varð ofan á lá þegar fyrir og hafði verið gengið frá í tíð forvera míns, að í staðinn fyrir að fara fyrir jól yrði fundurinn í janúarmánuði. […]

[H]yggst ég standa þannig að málum í þessum efnum, eins og einboðið er, að standa fast á hagsmunum okkar Íslendinga og fara þar eftir leiðsögn meirihlutaálits utanríkismálanefndar Alþingis. Í öðru lagi hef ég áhuga á að reyna að fá sem fyrst í gang eiginlegar samningaviðræður um þessa stóru grundvallarhagsmuni okkar þannig að þar geti farið að reyna á í eiginlegum viðræðum og við komumst af því undirbúningsstigi sem hefur verið í gangi í þeim efnum.“

Sigmundur Davíð sagðist velta fyrir sér þeim grundvallaratriðum sem Jón Bjarnason taldi sig þurfa að standa vörð um t.d. varðandi innflutning á hráu kjöti og tollvernd. Hvort Steingrímur J. væri sammála fyrirrennara sínum um stuðning við varnarlínur bændasamtakanna.

Steingrímur J. Sigfússon brást illa við og sagði „æfingar“ Sigmundar Davíðs til að reyna að gera þessa fundaferð til Brussel tortryggilega „dæmalausar“ sem og að því „hafi verið eitthvað sérstaklega hagrætt eða að Evrópusambandinu borist njósn af því að það kynnu að verða breytingar á ríkisstjórn og þess vegna sett upp einhverjar aðrar dagsetningar fyrir fundina“. Allt væri þetta „þvæla“ og það væri hægt að sýna fram á það „með skjölum“. Svaraði ráðherrann engu spurningunni um varnarlínurnar.

Hinn 6. febrúar 2012 samþykkti utanríkismálanefnd ESB-þingsins skýrslu og ályktun um framvindu aðildarviðræðnanna við Íslendinga. Þar var látin ljós velþóknun á því að Jón Bjarnason hefði verið látinn víkja úr ríkisstjórn Íslands. Þingmennirnir bundu vonir við að brottför hans úr stjórninni yrði til þess að Íslendingar legðu sig meira fram um að virða kröfur ESB um aðlögun. Þá hvöttu þeir til þess að látið yrði af ágreiningi um ESB-aðild á pólitískum vettvangi og þess í stað yrði mótuð heildstæð stefna um aðlögun að ESB. Þing Evrópusambandsins samþykkti þessa ályktun fyrir sitt leyti 14. mars 2012.

Steingrímur J. Sigfússon brást eins og áður illa við á alþingi 13. febrúar 2012 þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson bað hann að skýra hrifningu í ályktun utanríkismálanefndar ESB-þingsins vegna þess að Steingrímur J. hefði tekið við ráðherraembætti af Jóni Bjarnasyni. Steingrímur sagði: „Æ, þegiðu“ við Sigmund Davíð í lok fyrirspurnatímans

Steingrímur J. sagði að „óskaplega ómerkilegur“ fiskur lægi undir steini í spurningu Sigmundar Davíðs. Fyrir formanni Framsóknarflokksins vekti að Steingrímur J. mundi gefa í skyn að hann mundi „leka niður og ekki standa á hagsmunum Íslands, hvort sem það [væri] í sambandi við makríl eða aðrar viðræður við Evrópusambandið“.

Í fyrirspurn sinni benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson á að í ályktun utanríkismálanefndar Evrópusambandsins um stöðu aðildarviðræðna Íslands og ESB væri lýst mikilli ánægju með brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ráðherrastóli og fögnuði yfir því að nú væri Steingrímur J. Sigfússon kominn í hans stað. Þá spurði Sigmundur Davíð:

„Hvaða ástæðu hefur Evrópusambandið til að fagna sérstaklega þessum ráðherraskiptum? Á hvaða hátt verður hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon þægilegri í samskiptum og viðræðum við Evrópusambandið?“

Jafnframt spurði Sigmundur Davíð út í þau orð í ályktun utanríkismálanefndar ESB þar sem ríkisstjórnin væri hvött til að mynda sér sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu og Evrópusambandsaðild. Hvert væri viðhorf Steingríms J. til þess, hvort VG mundi fallast á stefnu Samfylkingarinnar og þar með fara að óskum utanríkismálanefndar ESB-þingsins.

Steingrímur J. sagðist ekki átta sig á því hvað ylli „þessari kæti þessarar nefndar úti í Evrópu“. Þeir Jón væru sammála í grundvallarafstöðu sinni til Evrópusambandsins sem væri stefna VG að það þjónaði „ekki heildarhagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið“. Steingrímur J. taldi hugsanlega ástæðu ályktunar utanríkismálanefndar ESB að „ástandið [væri] svo dapurlegt í Evrópu að menn [gripu] hvert hálmstrá sem þeir [finndu] til að reyna að gera sér upp einhverja kæti þótt af litlu tilefni [væri]“.

Búnaðarþing hvetur Steingrím J. til dáða

Búnaðarþing 2012 var sett sunnudaginn 26. febrúar Steingrímur J. Sigfússon var hvattur til þess við setningu þingsins að leika sér ekki að eldi í samskiptum við Evrópusambandið, hann ætti á hættu að ESB-aðild yrði samþykkt. Ráðherrann sagðist ekki ætla að „láta ístaðið dingla laust varðandi hagsmuni íslensks landbúnaðar“ í ESB-viðræðunum og spurði hvers vegna hann ætti að gera það.

Haraldur Benediktsson sagði við setningu búnaðarþingsins að umsóknin um aðild Íslands að Evrópusambandinu héldi íslenskum landbúnaði í höftum. Bændur hefðu mótað andstöðu sína við ESB með lýðræðislegri umræðu.

„Við höfum með öflugu rannsóknar- og fræðslustarfi gert miklu meira en stjórnvöld hafa gert á eigin spýtur til að mynda þekkingu á málefninu. Þau hafa reyndar kallað hingað Evrópusambandið sjálft til að hlutast til fræðslu,“ sagði Haraldur.

Formaður BÍ minnti á að bændur hefðu kynnt varnarlínur vegna viðræðnanna við ESB. Hann sagði margt nú benda til að á vettvangi stjórnvalda hefði þegar verið „undirbúið að stíga yfir fjórar varnarlínur okkar af sjö“. Þá sneri Haraldur sér að Steingrími J. Sigfússyni og sagði:

„Bændur segja því aðeins eitt við þig háttvirtur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra; leiktu þér ekki að eldinum. Þú átt á hættu að aðild verði samþykkt. Gerðu allt sem þú getur til að gæta hagsmuna Íslands. Ekki fyrir bændur heldur fyrir framtíð þjóðarinnar. Ef það er svo að íslenskir samningamenn þora ekki að ganga fram með sterka kröfugerð eigum við sitja heima og viðurkenna að klúbburinn hentar okkur ekki og það er tímabært núna.“

Steingrímur J. Sigfússon minnti í ræðu sinni á að íslenskur landbúnaður – stór og smár að meðtöldu fiskeldi og ferðaþjónustu, skilaði íslenska þjóðarbúinu 12 milljörðum króna hið minnsta í beinhörðum gjaldeyri með tiltölulega litlum innfluttum aðföngum til frádráttar og það munaði nú um minna. Landbúnaður og tengdur matvælaiðnaður væri „ört rísandi útflutningsgrein á Íslandi“. Af þessum sökum þyrfti meðal annars að standa fast á hagsmunum og framtíðarmöguleikum landbúnaðarins í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og taldi Steingrímur J. rétt er að undirstrika að annað stæði ekki til. Þá sagði ráðherrann:

„Hversu leitt sem mönnum finnst að standa í þeim viðræðum og sjálfsagt ýmsum hér innan dyra það með öllu ástæðulaust, er tilvist þeirra mála staðreynd og það hvernig framtíðartengslum okkar við meginland Evrópu, álfunnar sem við nú einu sinni tilheyrum, verður háttað er eitt af þeim málum sem þjóðin þarf að glíma við og átta sig á framtíð sinni gagnvart. Ég hef ekki hugsað mér að láta ístaðið dingla laust varðandi hagsmuni íslensks landbúnaðar í þessu máli meðan mér er falin þar á nokkur ábyrgð og hvers vegna ætti ég að gera það? Maður sem er jafn sannfærður nú ef ekki sannfærðari en áður um að það þjónar ekki best okkar hagsmunum að ganga í Evrópusambandið.“

Utanríkisráðherra um tollvernd á þingi

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál var rædd á alþingi 26. apríl 2012. Í umræðum um hana kom til orðaskipta milli flokksbræðranna Jóns Bjarnasonar og Árna Þórs Sigurðssonar um varnarlínur bændasamtakanna. Jón sagði að nú lægju fyrir samningsdrög kafla 29 (tollabandalag) og 30 (utanríkistengsl). Þar hefði ekki verið tekið tillit til varnarlína BÍ, til dæmis varðandi heimild til að leggja tolla á innfluttar búvörur og varðandi bann við að flytja inn lifandi dýr, hrátt og ófrosið kjöt og aðrar dýraafurðir. Vildi Jón vita um afstöðu Árna Þórs til þessara mála. Árni Þór sagði BÍ ekki setja samningsskilyrði fyrir hönd alþingis eða íslenskra stjórnvalda, þau kæmu „bara sjónarmiðum sínum á framfæri“. Það væri „ágætlega rakið í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar hvaða sjónarmið“ ætti að hafa að leiðarljósi í landbúnaðar- og matvælamálum og hann teldi mikilvægt að halda sig við þau því að þau væru umboðið sem stjórnvöld hefðu frá alþingi. „Stjórnvöld sækja ekki umboð sitt til hagsmunasamtaka úti í bæ,“ sagði Árni Þór.

Jón Bjarnason kvað nauðsynlegt að leiðrétta Árna Þór vegna þess að í greinargerð með þingsályktunartillögunni að umsókninni væru tilgreindir þeir meginhagsmunir sem Íslendingum bæri að standa vörð um og ef vikið væri frá þeim yrði málið að koma til kasta alþingis. Þar á meðal væru þau atriði sem hann hefði nefnt og væru grunnhagsmunamál íslensks landbúnaðar, þ.e. matvæla- og fæðuöryggi. Það væri því misskilningur hjá Árna Þór að hægt væri að hunsa þessi mál eins og hann hefði gert með orðum sínum.

Árni Þór Sigurðsson sagði því lýst í nefndaráliti utanríkismálanefndar hvaða viðmið ætti að hafa varðandi landbúnaðar- og matvælamál. Jón Bjarnason þyrfti ekki að kenna sér hvað stæði í því nefndaráliti. Hann væri sammála því að færu menn út fyrir það umboð þyrfti málið að koma til umfjöllunar á vettvangi alþingis. Þess vegna hefði það vinnulag verið haft að samninganefndin kynnti drög að samningsafstöðu fyrir utanríkismálanefnd og eftir atvikum öðrum fagnefndum áður en gengið væri frá málum.

Hann sagðist ekki sammála þeirri túlkun Jóns að í nefndaráliti utanríkismálanefndar væri sú afstaða afdráttarlaus að tollvernd yrði áfram við lýði í íslenskum landbúnaði. Það væri oftúlkun á því sem stæði í áliti meirihluta utanríkismálanefndar. Þar væri hins vegar sagt að yrði hún ekki til staðar skuli kæmu sambærilegar aðgerðir í staðinn vegna þess að meirihlutinn viðurkenndi og vissi að hún skipti máli fyrir íslenskan landbúnað. Að þeim verðmiða þyrfti að huga og væri að minnsta kosti ljóst að eitthvað sambærilegt yrði að koma í staðinn.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, sat á þingi 26. apríl 2012 og tók þátt í umræðunum um skýrslu utanríkisráðherra. Hann er gjörkunnugur málum bænda enda tekið þátt í forystustörfum innan samtaka þeirra.

Hann sagði að fundir í samningshópi um landbúnaðarmál vegna ESB-viðræðnanna hefðu verið tveir á árinu 2011 og enginn fundur hefði verið haldinn á árinu 2012. Hann vildi því spyrja utanríkisráðherra: Hvað er að gerast í kaflanum um landbúnaðarmál? Hvernig gengur sú vinna? Hvað líður samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum? Hver stýrir þeirri vinnu?

Hann lýsti varnarlínum BÍ og sagði samtökin hafa verið mjög öflug í málstað sínum. Þau hefðu fært góð rök fyrir því hvernig möguleg aðild að Evrópusambandinu kæmi niður á íslenskum landbúnaði. Þau rök hefðu ekki verið hrakin. „Þessi öfluga vinna hefur farið mjög í taugarnar á mörgum í þjóðfélaginu og ríkisstjórnin virðist hafa sent sína helstu varðhunda og leigupenna í að reyna að tala niður íslenskan landbúnað. Við þekkjum það vel, bændurnir, þegar kratískir hatursmenn íslensks landbúnaðar stíga á stokk en við verðum ekki beygðir og fögnum allri umræðu ef hún er málefnaleg,“ sagði Sigurgeir Sindri.

Hann vitnaði í orð Árna Þórs Sigurðssonar varðandi tollverndina, að farið yrði í sambærilegar aðgerðir í stað tollverndar. Hvað fælist í þessum orðum? Það hefði mikil áhrif á íslenskan úrvinnsluiðnað á landbúnaðarvörum ef hingað flæddu innfluttar kjötvörur frá Evrópusambandinu því að það væri alveg ljóst að alifugla- og svínarækt á Íslandi mundi aldrei standast þá samkeppni og þar af leiðandi yrði allur rekstur á afurðastöðvum og kjötvinnslum hér á landi mun erfiðari.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að unnið væri að gerð samningsafstöðu af fullum krafti í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu með aðstoð sérfræðinga úr utanríkisráðuneytinu. Samin yrði svonefnd aðgerðaáætlun, svar Íslendinga við opnunarviðmiði ESB sem mæta þyrfti til að geta hafið samninga í kaflanum. Krafturinn hefði að undanförnu farið í að vinna þessa áætlun en þegar sæi fyrir endann á henni mundu menn taka til óspilltra málanna við það að skrifa samningsafstöðu.

Mjög skýrt væri kveðið að orði um tollvernd í áliti meirihluta utanríkismála og í framhaldi af því væri sagt að einmitt vegna þeirrar afstöðu sem þar kæmi fram yrði sérstaklega að skoða aðgerðir til að styðja hefðbundin fjölskyldubú í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson spurði:

„Telur hæstv. utanríkisráðherra óraunhæft og mun hann ekki fyrir hönd landsins fara fram með þá varnarlínu Bændasamtaka Íslands að áfram verði heimilt að leggja á tolla á Íslandi?

Í annan stað, ef hann telur það ekki, hvernig hefur hann hugsað sér að bæta upp þetta ígildi tollverndar og framkvæma það ef hitt gengur ekki eftir?“

Össur Skarphéðinsson svaraði:

„Ég mun fara fram með þá línu sem verður mótuð í samningahópnum. Þar eiga bændur fulltrúa. Mín skoðun felst í því að ég ætla að fylgja fram þeirri meginlínu sem birtist varðandi þetta og önnur mál sem landbúnað varða í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Það er skylda mín, það er ekkert öðruvísi. Mér er falinn sá trúnaður að fylgja henni eftir. Ég mun síðan að sjálfsögðu skoða rækilega þau rök sem koma fram með eða móti tilteknum aðferðum. Þær eru ýmsar.“

Landbúnaðarráðherra um hrátt kjöt á þingi

Daginn eftir umræðurnar um skýrslu utanríkisráðherra, það er föstudaginn 27. apríl 2012, sneri Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, sér til Steingríms J. Sigfússonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í upphafi þingfundar og ræddi við hann um stöðu landbúnaðarmála í ESB-aðildarviðræðunum. Hann rifjaði upp að samningahópur um landbúnaðarmál hefði aldrei fundað á árinu 2012 eða frá því að Steingrímur J. tók við málefnum landbúnaðarins í ríkisstjórn. Orðaskipti flokksbræðranna Jóns Bjarnasonar og Árna Þórs Sigurðssonar hefðu orðið til þess að Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, hefði tekið málið upp á vefsíðu sinni og spurt hvort barátta VG á sínum tíma fyrir banni á innflutningi á hráu kjöti hefði verið til heimabrúks. Það væru margir sem spyrðu sig að því og hefðu spurt sig að því hvort ráðherraskiptin um síðustu áramót hefðu verið til þess fallin að gefa eftir í varnarlínum bændasamtakanna.

Með vísan til þessa lagði Ásmundur Einar þessa spurningu fyrir Steingrím J.: Verður staðið við varnarlínur Bændasamtaka Íslands hvað tollvernd og innflutning á hráu kjöti snertir eða verða þær gefnar eftir í viðræðum við Evrópusambandið?

Steingrímur J. sagðist ekki þekkja nákvæmlega til þess hversu oft samningshópurinn hefði fundað formlega hann vissi þó að öll sú vinna væri í fullum gangi undir forustu ráðuneytisstjóra sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Það yrði að sjálfsögðu reynt að standa dyggilega vörð um mikilvæga hagsmuni okkar á sviði landbúnaðar og matvælaiðnaðar og staðið yrði fast á því banni sem Íslendingar hefðu í öllum alþjóðasamningum við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti, væri þess nokkur kostur. „Ég sé það ekki fyrir mér að við munum auðveldlega samþykkja yfir höfuð aðild að Evrópusambandinu til dæmis ef það þýddi að galopnað yrði á þetta vegna þess að það er afar mikilvæg varnarlína alla vega í hugum þeirra sem til þekkja,“ sagði ráðherrann.

Að öðru leyti væri þessi samningsafstaða að sjálfsögðu mótuð eins og á öðrum sviðum í samræmi við þær varnarlínur sem dregnar hefðu verið í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar. Það gilti eftir atvikum um tollvernd eða stuðning við landbúnaðinn þannig að við afsöluðum okkur engu í þeim efnum sem við þyrftum til að geta staðið dyggilega vörð um um hagsmuni innlendrar framleiðslu þótt allir vissu að vísu að það væri ekki heiglum hent að ganga í tollabandalag og viðhafa aðrar tollreglur. En það hefði ekkert verið gefið eftir fyrirfram í þeim efnum og það yrði farið með allar þær varnarlínur inn í viðræðurnar sem gætu reynst okkur best þegar upp yrði staðið í samningunum. Málum væri þó auðvitað ekki þannig háttað að afstaða bændasamtakanna hefði orðið að afstöðu stjórnvalda en hún væri að sjálfsögðu skoðuð og höfð til hliðsjónar og reynt að byggja á henni eins og kostur væri.

Ásmundur Einar Daðason minnti á að Jón Bjarnason hefði sem ráðherra tekið skýra afstöðu með varnarlínum BÍ. Steingrímur J. hefði hins vegar „ekki svarað því nógu skýrt til hér hvort staðið verður við þessa þætti og þá [væri] auðvitað ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo, sérstaklega í ljósi þess að ekkert [hefði] borist til utanríkismálanefndar um þetta, engin samningsafstaða eða nokkur hlutur verið kynntur, en að hæstv. ráðherra [væri] að undirbúa það að gefa þetta eftir. Getur hæstv. ráðherra svarað því nákvæmlega, stendur til að standa við þessa tvo þætti eða ekki?“

Steingrímur J. sagðist óttast að hryggja Ásmund Einar „því hann [væri] greinilega á höttunum eftir því að ég játi það á mig að ég sé aumingi og það muni allt leka niður í mínum höndum og það hafi verið einhver munur þegar hetjan Jón Bjarnason reið um héruð“. Hann yrði að hryggja þingmanninn. Það stæði ekki til að gefa neitt eftir sem væri mikilvægt til að geta staðið við grundvallarhagsmuni landbúnaðarins þannig að af hálfu okkar yrði það ekki gefið eftir fyrir fram að við gætum áskilið okkur rétt til tollverndar ef ekki semdist um málefni landbúnaðarins með einhverjum þeim hætti að við teldum fullnægjandi á öðrum grundvelli þannig að því yrði haldið opnu. „Það er afstaða okkar að því verður haldið opnu ef annað dugar ekki til,“ sagði ráðherrann um tollverndina.

Um innflutning á hráu kjöti sagði Steingrímur J.

„Það stendur heldur ekki til að gefa eftir bann við innflutningi á hráu kjöti þótt allir geri sér grein fyrir því að sá slagur getur orðið erfiður. Engum dettur held ég í hug að nokkurn tíma yrði lokað landbúnaðarkafla ef það yrði ávísun á að það þyrfti að leyfa innflutning á lifandi dýrum.“

Steingrímur J. Sigfússon herti nokkrum síðar á afstöðu sinni gegn innflutningi á hráu kjöti í yfirlýsingu á alþingi.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að því á alþingi hinn 4. maí hver afstaða hans væri til sjónarmiða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem kynnt hefðu verið í RÚV 2. maí en þar hefði verið sagt frá því að eftirlitsstofnunin hefði efasemdir um að bann við innflutningi á hráu kjöti til Íslands stæðist EES-samninginn.

Haustið 2009 lagði Jón Bjarnason, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fram frumvarp að matvælalöggjöf samkvæmt EES-samningnum en sleppti þar ákvæðum sem heimila innflutning á hráu kjöti. Var það gert á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim sem eiga að tryggja að ekki berist sjúkdómar í næma íslenska búfjárstofna.

ESA tilkynnti íslenskum stjórnvöldum að hún teldi þessa innleiðingu reglna ESB/EES brjóta í bága við EES-samninginn. Af þessu tilefni spurði Sigurgeir Sindri hvernig íslensk stjórnvöld hefðu svarað ESA. „Er hætta á því að Íslendingar neyðist til að fara dómstólaleiðina með þetta eins og annað sem tilheyrir þessu ágæta Evrópusambandi og EES-samningi og verði jafnvel knúnir til að flytja inn hrátt kjöt?“ spurði Sigurgeir Sindri.

Steingrímur J. Sigfússon sagði „alveg ljóst“ að ESA skoðaði nú hvernig staðið hefði verið að innleiðingu matvælatilskipunar ESB hér á landi og kæmi það „svo sem ekki á óvart“ miðað við hvernig að málum hefði verið staðið. Ráðherrann sagði að í upphaflegu frumvarpi til alþingis hefði ekki verið gert ráð fyrir innflutningsbanni á hráu kjöti. Það hefði hins vegar sætt harðri andstöðu á þingi ekki síst meðal þingmanna VG sem vildu skilyrða innleiðinguna með því að banna alfarið innflutning á hráu kjöti. Þannig stæði málið nú.

Þá sagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það hefur allan tímann legið fyrir að þessi aðferð okkar við innleiðinguna kynni að verða umdeild og að henni kynni að verða sótt. Málið er ekki komið á það stig að um formleg bréfaskipti sé að ræða. Ekki hefur borist rökstutt álit eða annað í þeim dúr heldur hafa verið skoðanaskipti uppi um þetta mál og fram undan er fundur þar sem farið verður yfir málið. Við undirbúum að sjálfsögðu málsvarnir okkar og röksemdir og munum berjast með kjafti og klóm fyrir því að við getum viðhaldið þeirri aðferð við innleiðinguna sem við völdum þarna. Við teljum okkur hafa sterk fagleg rök fyrir því að það sé mikilvægt fyrir Ísland að geta viðhaft innflutningsbann á hráu kjöti. […] Það hefur sérstakur starfshópur […] unnið að því máli og mun gera áfram og eins hafa helstu sérfræðingar okkar á sviði dýra-, heilbrigðis- og hollustusjónarmiða lagt þar sitt af mörkum og munu gera það áfram. Komi til þess að ESA haldi lengra áfram með málið vil ég trúa því að við verðum vel undirbúin til að halda uppi vörnum okkar.“

Afstaða til tollverndar skýrist

Hinn 7. maí 2012 birtist frétt á bbl.is, vefsíðu Bændablaðsins, sem varpaði skýrara ljósi en áður á afstöðu stjórnvalda til varnarlínu BÍ sem snertir tollvernd. Var sagt frá því að formaður samráðshóps um utanríkisviðskipti/utanríkistengsl og tollamál vegna ESB-aðildarumsóknarinnar hefði skýrt BÍ frá því að viðræðunefnd Íslands gagnvart ESB ætlaði „sér að fylgja varnarlínum bændasamtakanna í þessum efnum og gera kröfu um að Ísland geti, ef af aðild verður, eftir sem áður lagt tolla á innfluttar búvörur“.

ESB-viðræðunefnd Íslands skipaði haustið 2011 samráðshóp samningahóps um fjárhagsmálefni, samningahóps um utanríkisviðskipti, utanríkis og öryggismál, samningahóps um landbúnaðarmál og samningahóps um sjávarútvegsmál til að samræma samningsafstöður um utanríkisviðskipti/utanríkistengsl og tollamál sem því tengjast í samningsafstöðum um 11., 13., 29. og 30. kafla samningaviðræðna um aðild Íslands að ESB. María Erla Marelsdóttir, formaður samningahóps um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál, leiðir störf hópsins. Í hópnum sitja skipaðir fulltrúar samningahópanna og skulu starfsmenn samningahópanna starfa með samráðshópnum eftir ákvörðun formanna þeirra.

Í fréttinni á bbl.is hinn 7. maí segir að þessi samráðshópur hafi fjallað um kröfur og athugasemdir bændasamtakanna vegna tollverndar. Í bréfi frá Maríu Erlu Marelsdóttur, formanni samráðshópsins, þar sem athugasemdum við drög að samningsafstöðu sé svarað komi fram að í drögum að samningsafstöðu í umræddum köflum sé lögð skýr áhersla á mikilvægi tollverndar í íslenskri landbúnaðarstefnu. Bent sé á að í samningsafstöðu Íslands í 11. kafla, sem fjalli um landbúnaðarmál, sé gerður fyrirvari sem tengi viðræður um þann kafla við viðræður um utanríkisviðskipti og tollamál. Með því áskilji Ísland sér rétt til að taka upp tollverndarmál í landbúnaði áður en viðræður um utanríkisviðskipti og tollamál verði leiddar til lykta. „Af svarinu að dæma má því ætla að samninganefnd Íslands gagnvart ESB ætli sér að fylgja varnarlínum Bændasamtakanna í þessum efnum og gera kröfu um að Ísland geti, ef af aðild verður, eftir sem áður lagt tolla á innfluttar búvörur,“ segir á vefsíðunni bbl.is.

Málefnaleg barátta skilar árangri

Bændur og ESB IV

19. maí 2012


„Það leynir sér ekki að það er byrjað að undirbúa aðlögun íslensks landbúnaðar að sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, við Morgunblaðið laugardaginn 5. maí 2012. Hann ræddi þar um fyrirhugaða kortagerð og undirbúning að landfræðilegu upplýsingakerfi sem yrði lagt til grundvallar við innleiðingu landbúnaðarstefnunnar, kæmi til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Bændasamtökin hafa gagnrýnt aðildarferlið að ESB með þeim orðum að um aðlögun að kröfum sambandsins væri að ræða. Þessi gagnrýni sætti mikilli andstöðu utanríkisráðuneytisins og málsvara ESB-aðildar þegar hún var kynnt fyrst til sögunnar. Hún átti hins vegar við skýr rök að styðjast. ESB krafðist nýrrar stjórnsýslu á sviði landbúnaðar. Hlut BÍ bæri að gera að engu og koma á greiðslustofnun auk annarra sérfræðistofnana til að framkvæma stefnu ESB. BÍ hafa ekki sett sem markmið að halda í þessi verkefni.

Meðal aðlögunarkrafna ESB er að til sögunnar komi nýr gagngrunnur um landnýtingu sem komi til sögunnar í samstarfi Landmælinga Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og Landgræðslunnar með svonefndum TAIEX-styrk frá ESB. „Hér eru á ferð innleiðingarstyrkir ESB. Þeir eru hluti af því sem við í bændasamtökunum nefnum aðlögun í felulitum, þ.e. undirbúningi aðildar Íslands að sambandinu undir yfirskini einhvers konar rannsókna,“ sagði Haraldur við Morgunblaðið.

Formaður BÍ sagði einnig í þessu viðtali við Morgunblaðið að mánudaginn 7. maí mundi samningahópur Íslands um landbúnarmál (11. kafla) koma saman til fundar og þar yrði meðal annars rætt um þessar aðlögunarkröfur ESB.

Áætlun um viðbrögð við opnunarviðmiðum

Á fundi samningahópsins um landbúnaðarmál 7. maí 2012 var tekinn upp þráðurinn frá fundinum 22. nóvember 2011 sem sagt er frá í lok II. greinar þessa flokks. Á fundinum í nóvember tók formaður samningahópsins fram að áætlun um viðbrögð við opnunarskilyrðum ESB mundi að engu leyti binda hendur íslenskra stjórnvalda hvað varðaði samningsafstöðu í kaflanum um landbúnaðarmál. Settir yrðu fyrirvarar í áætlunina til að tryggja þessa afstöðu. Aðgerðaáætlunin snerist um að útskýra hvernig íslensk stjórnvöld ætluðu að haga undirbúningi sínum. Áður en endanlegri áætlun yrði skilað til framkvæmdastjórnar ESB yrði samningshópurinn kallaður til fundar. Þetta var sem sagt gert 7. maí 2012.

Skjal sem heitir Preparations of Iceland in the Field of Agriculture and Rural Development with Respect to Possible EU Membership var lagt fyrir samningahópinn sem drög að áætlun stjórnvalda um hvernig þau yrðu búin undir að takast á við innleiðingu landbúnaðarlöggjafar ESB. Í inngangi segir að við athugun hafi komið í ljós að „mikill munur“ sé á stjórn og framkvæmd stefnu Íslands í landbúnaðarmálum og stefnu ESB. Lög ESB krefjist þess að sérstök stjórnarstofnun annist framkvæmd landbúnaðarstefnunnar. Málum sé ekki nú þannig háttað á Íslandi. Íslensk stjórnvöld viðurkenni nauðsyn víðtækra stefnu- og stjórnsýslubreytinga komi til aðildar að ESB en þau telji ekki við hæfi að laga sig að kröfum ESB á þessu sviði fyrr en aðildarsamningur hafi verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Með vísan til þessara aðstæðna sé það ætlun ríkisstjórnar Íslands að semja aðgerðaáætlanir um framkvæmd ESB-laga sem taki mið af framvindu aðildarviðræðnanna, þar á meðal koma á fót einfaldri og hagkvæmri greiðslustofnun sem fullnægi kröfum landbúnaðarstefnu ESB. Engar breytingar á stjórnsýslu eða lögum komi þó til framkvæmda fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Markmiðið sé að íslensk stjórnsýsla geti brugðist við fljótt og staðið að nauðsynlegum breytingum á lögum og stofnunum í tæka tíð fyrir aðild, verði aðildarsamningur samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Af þessum texta verður ráðið að íslensk stjórnvöld ætli í meginatriðum að standa gegn aðlögun landbúnaðarkerfisins að kröfum ESB þar til aðildarsamningur hafi verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu þótt um aðlögun á ýmsum sviðum sé að ræða eins og varðandi gagnagrunninn um landnýtingu, það er „aðlögun í felulitum“. Textinn ber það jafnframt með sér að BÍ hafi haft rétt fyrir sér þegar þau sögðu að ekki væri um aðildar- heldur aðlögunarsamning að ræða. Hvort ofangreindur texti Íslands dugar ESB sem svar við skilyrðinu sem pólski sendiherrann kynnti með bréfi sínu 1. september 2011 er óvíst. Eitt er öruggt að ágreining um þetta efnislega formsatriði verður að leysa áður en hinar „eiginlegu viðræður“ hefjast um landbúnaðarmál milli fulltrúa Íslands og ESB.

ESB ræður ferðinni

Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, fjallaði um gang viðræðnanna við ESB í Bændablaðinu 1. mars 2012. Hún sagði að í tveimur viðræðuköflum sem ekki hefðu verið opnaður hefðu verið sett skilyrði af hálfu ESB fyrir því að hefja samningaviðræður í landbúnaði og byggðamálum. Af öðrum mikilvægum málaflokkum þar sem viðræður væru ekki hafnar mætti nefna matvælaöryggi, undir þann kafla félli löggjöf um innflutning á búfjárafurðum og lifandi dýrum, umhverfismál og tollamál.

Af grein Ernu má ráða að í samtölum við fulltrúa BÍ hafi forystumenn ESB-viðræðnanna af Íslands hálfu ekki viljað viðurkenna fyrr en seint og um síðir að ESB hefði eigið verklag á viðræðunum og viðræðuferlið lyti lögmálum ESB en ekki Íslands. „Allt tal um að “kíkja í pakkann„ og sjá hvað stendur til boða er sannarlega blekking,“ segir Erna.

Hún dregur í efa að af hálfu íslenskra stjórnvalda hafi verið farið eftir því sem undirstrikað sé í ályktun alþingis um ESB-umsóknina þar sem lögð sé áhersla á að viðræðuferlið sé opið og fulltrúar hagsmunaaðili eigi breiða aðkomu að því. Hún segir að myndin sé önnur eftir reynsluna frá því að alþingi samþykkti ályktun sína 16. júlí 2009. Samráð við hagsmunaaðila sé lítið sem ekkert samningahópar komi sjaldan saman til fundar og utanríkisráðherra láti undir höfuð leggjast að skipa fulltrúa hagsmunaaðila í samstarfshóp sem sé ráðgefandi um aðildarviðræðurnar auk þess sem það heyri til algerra undantekninga að efni frá ESB tengt viðræðunum sé þýtt á íslensku.

Handvalið í samráðshóp

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, vék að þessum samstarfs- eða samráðshópi í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra á alþingi 26. apríl 2012. Hópurinn var stofnaður í nóvember 2011 þegar honum var skipuð þriggja manna stjórn undir formennsku Salvarar Norðdal og var þá sagt að hann yrði fullskipaður innan skamms tíma. Að því kom þó ekki fyrr en í febrúar 2012. Um þetta sagði Sigurgeir Sindri í ræðu sinni:

„Ég fylgdist svolítið með þeim samráðshópi sem stofnaður var undir forustu Salvarar Nordal og mig langar til að forvitnast um vinnubrögð utanríkisráðuneytisins við slíkar hópaskipanir og tilnefningar. Þarna eru meðal annars skipaðir menn sem eru bændur, prýðismenn, en það virðist ekki hafa verið haft samráð í þessu tilfelli við hagsmunaaðila. Það er eins og utanríkisráðuneytið handvelji í þessa hópa menn sem eru því þóknanlegir. Enn fremur hef ég oft verið hugsi yfir skipan samningahóps t.d. um landbúnaðarmál þar sem í rúmlega 20 manna hópi eru þrír fulltrúar hagsmunaaðila landbúnaðarins, ég velti því mjög fyrir mér hvort faglega hafi verið að því staðið á sínum tíma.“

Össur Skarphéðinsson sagði að það hefði verið haft fullt samráð varðandi samningahópinn. Að því er varðaði samráðshópinn hins vegar hefði hann haft ýmsar hugmyndir og meðal annars farið með þær til utanríkismálanefndar alþingis. Þær hefðu fallið í grýtta jörð. Á endanum hefði verið afráðið að þau þrjú sem væru í forustu samráðshópsins gerðu tillögur um ákveðna þætti sem hópurinn þyrfti að uppfylla, hann varðaði kyn, aldur, landsbyggð og þéttbýli. Það hefði verið reynt að velja í hópinn með þeim hætti að þar væri þverskurður af þjóðinni . Þar ættu bændur til dæmis mjög gildan fulltrúa sem örugglega léti til sín taka en sömuleiðis marga góða stuðningsmenn, og taldi Össur sjálfan sig í þeim hópi.

Sigurgeir Sindri sagðist vita að framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands hefði fengið tölvubréf með ósk um nöfn á fólki í samráðshópinn um aðildarviðræðurnar. Hann hefði orðið við óskinni. Það fólk hefði ekki þótt henta og handvalið hefði verið eitthvert annað fólk í staðinn.

Þessi orðaskipti endurspegla óánægju innan BÍ um vinnubrögð utanríkisráðuneytisins í þessu máli og öðrum sem varðar samvinnu og samráð vegna ESB-aðildarviðræðnanna. Eins og áður hefur komið fram má rekja tortryggni utanríkisráðuneytisins í garð BÍ allt til sumarsins 2009 og síðari ummæla formanns viðræðunefndar Íslands.

Bændur ræða við ESB-þingmenn

Hinn 2. apríl 2012 efndi sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB til fundar á Íslandi og var forráðamönnum BÍ boðið að sitja fund með ESB-þingmönnum ásamt fulltrúum frá svæðanefnd ESB (EU Committee of the Regions), þá sat Franz Cermak, staðgengill yfirmanns stækkunardeildarinnar sem sér um aðildarviðræðurnar við Ísland, fundinn undir stjórn Timos Summa, sendiherra ESB á Íslandi. Fundinn sátu einnig fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Birtist frásögn um hann í Bændablaðinu 18. apríl 2012 eftir Ernu Bjarnadóttur.

Í frásögninni segir frá því að í viðræðum við Franz Cermak hafi komið fram að íslensk stjórnvöld hefðu þegar skilað drögum að viðbrögðum sínum við skilyrðum ESB fyrir að opna viðræður um landbúnaðarkaflann, upp á tugi blaðsíðna. Síðast hefði verið haldinn fundur í samningahópi um landbúnað í nóvember 2011. Á þeim fundi hefði fundarmönnum verið sagt að hópnum yrði haldið upplýstum um hvernig brugðist yrði við opnunarskilyrðunum. Nú hefði hins vegar komið á daginn að búið væri að senda drög að þessu svari án alls samráðs við samningahópinn.

Þarna er kemur fram að þegar hinn 2. apríl 2012 höfðu viðmælendur Íslendinga í framkvæmdastjórn fengið í hendur drög að skýrslu sem ekki voru lögð fyrir samningahóp Íslands um landbúnaðarmál fyrr en 7. maí 2012.

Fulltrúar BÍ á þessum aprílfundi undir stjórn Timos Summa í sendiráði ESB í Reykjavík lögðu fram minnisblað um afstöðu sína. Þar er ítrekuð andstaða BÍ við aðild Íslands að ESB. Lágmarkskröfur BÍ voru lagðar fram á fundinum. Þá var lýst þeirri skoðun að skýrslur um samanburð milli Finnlands og Íslands á áhrifum ESB-aðildar væru ekki á neinn hátt faglegur undirbúningur af hálfu íslenskra yfirvalda undir viðræður við ESB. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki enn kynnt samningsafstöðu sína. Starfsfólk og félagskjörnir fulltrúar BÍ hefðu varið hundruð vinnustunda í ESB-rýniferlið, og tekið þátt í öllum vinnuhópum og fundum þar sem þeim hefði verið boðin þátttaka, hvað sem þessu liði hefði BÍ sætt gagnrýni fyrir að taka ekki þátt í undirbúningi aðildarviðræðnanna. Samstarf við BÍ hefði hins vegar farið minnkandi af hálfu stjórnvalda. Samningahópur sem stofnaður hafi verið til að undirbúa viðræður um landbúnað hefði aðeins haldið tvo fundi árið 2011 og engan þá þessu ári.

BÍ hefði áhyggjur af því að unnið væri að málum án þátttöku frá samtökunum. BÍ hefði verið boðið að tilnefna fulltrúa í samráðsnefnd sem stjórnvöld hefðu sett á laggirnar 2011 í samræmi við ályktun alþingis frá 2009. Tilnefningum BÍ hefði verið hafnað en þess í stað hefði fyrrverandi formanni BÍ [Atla Teitssyni] (formaður 1995 til 2004) verið boðið að sitja í hópnum. BÍ mótmæli þessu harðlega. Ekkert samráð hefði verið haft við BÍ um tilnefningu á fulltrúum Íslands í sameiginlega samráðsnefnd Íslands og ESB. BÍ telji að tilnefningarnar gangi gegn hagsmunum íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs. BÍ vekur athygli á því að sendiherra ESB á Íslandi hafi opinberlega sett fram skoðanir sínar á áhrifum ESB-aðildar á íslenskan landbúnað og á afstöðu ESB. Þessu mótmæla samtökin og minna þingmenn Evrópuþingsins á að íslensk stjórnvöld hafi ekki enn kynnt samningsafstöðu sína.

Þá var spurt: Er ESB tilbúið að hefja samningaviðræður um landbúnað á grundvelli varnarlína Bændasamtaka Íslands?

Rökrétt, málefnaleg afstaða BÍ

Fulltrúar frá ESB sem kynna sé þetta minnisblað BÍ eða annað sem samtökin hafa sent frá sér um ESB-aðildarmálið sjá að samtökin hafa unnið faglega og rökrétt að mótun stefnu sinnar í málinu. Fulltrúar BÍ hafa fyrir utan þann fund sem hér er getið með vísan til Bændablaðsins lagt sig fram um að kynna sendiherrum erlendra ríkja í Reykjavík og öðrum erlendum aðilum sem koma að tvíhliða samskiptum Íslands og ESB afstöðu sína. Má ráða af minnisblaðinu sem hér er reifað fyrir ofan að samtökin telji þetta brýnt af því að þau treysta ekki íslenskum stjórnvöldum til halda fram hagsmunum íslensks landbúnaðar í ESB-viðræðunum á þann hátt sem fellur að stefnu Bændasamtaka Íslands.

Í grein III í þessum flokki kom fram að afstaða íslenskra stjórnvalda til tveggja meginþátta í varnarlínum BÍ, það er til tollverndar og innflutnings á hráu kjöti, einkennist af tvöfeldni eftir að Steingrímur J. Sigfússon tók við embætti landbúnaðarráðherra. Það er slegið úr og í en þó skal þeirri skoðun lýst hér að eftir því sem liðið hefur á þetta ár hefur hin opinbera afstaða færst nær varnarlínum BÍ.

Vísa ég þar annars vegar til þess að hinn 7. maí 2012 birtist frétt á bbl.is, vefsíðu Bændablaðisns, sem varpaði skýrara ljósi en áður á afstöðu stjórnvalda til varnarlínu BÍ sem snertir tollvernd. Ætlunin væri „að fylgja varnarlínum bændasamtakanna í þessum efnum og gera kröfu um að Ísland geti, ef af aðild verður, eftir sem áður lagt tolla á innfluttar búvörur“. Hins vegar vísa ég til þess að Steingrímur J. Sigfússon sagði á alþingi 27. apríl: „Það stendur heldur ekki til að gefa eftir bann við innflutningi á hráu kjöti þótt allir geri sér grein fyrir því að sá slagur getur orðið erfiður. Engum dettur held ég í hug að nokkurn tíma yrði lokað landbúnaðarkafla ef það yrði ávísun á að það þyrfti að leyfa innflutning á lifandi dýrum.“

Þótt BÍ bendi réttilega á að markvisst hafi verið unnið að því að halda fulltrúum samtakanna frá stefnumótun á opinberum vettvangi vegna ESB-aðildarinnar hefur ekki tekist að ýta málefnalegum sjónarmiðum BÍ til hliðar. Þau snerta hagsmuni sem njóta stuðnings langt út fyrir raðir bænda.

Í upphafi þessa greinaflokks lét ég þess getið að aðild að EES-samningnum hefði aldrei verið samþykkt fyrir tveimur áratugum án samkomulags við fulltrúa bænda á alþingi. Ekkert bendir til annars nú en að þeir sem halda á málum gagnvart ESB í aðildarviðræðunum treysti sér ekki til að ganga til viðræðna við ESB um landbúnaðarmál án þess að ríkt tillit sé tekið til varnarlína Bændasamtaka Íslands hvað sem líður tilraunum til að ýta fulltrúum samtakanna til hliðar.

Bændasamtök Íslands hafa skapað sér sterka stöðu með markvissu starfi þar sem aldrei hefur verið horfið frá hollustu við málefnaleg sjónarmið. Óvíst er um framhald ESB-viðræðnanna bæði þegar litið er til tímasetninga og efnislegra þátta. Það mun því enn reyna mjög á málafylgju BÍ. Grunnurinn sem samtökin hafa lagt til frekari málafylgju er traustur.