EFTA/EES-aðild er hagstæð fyrir Breta
Morgunblaðið 19. ágúst 2016
Nú eru tæpir tveir mánuðir liðnir frá ákvörðun meirihluta Breta um að segja sig úr Evrópusambandinu. Hrakspár um að allt færi á annan endann yrði niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní þessi hafa ekki ræst. David Cameron forsætisráðherra sagði af sér 24. júní enda lagði hann allt undir og taldi víst að meirihlutinn vildi að Bretar yrðu áfram í ESB.
Theresa May innanríkisráðherra varð forsætisráðherra 13. júlí. Um síðustu helgi sýndi könnun á vegum netblaðsins The Independent að May var orðin vinsælasti stjórnmálamaður Bretlands. Áður hafði Boris Johnson, núverandi utanríkisráðherra, notið þess heiðurs í nokkur misseri.
May og Johnson voru á öndverðum meiði í afstöðunni til ESB. Hún vildi vera áfram í ESB hann úrsögn. Það kom því nokkuð á óvart að May skyldi skipa Johnson utanríkisráðherra í stjórn sinni. Til að ávinna sér enn meira traust meðal úrsagnarsinna skipaði hún við hlið Johnsons tvo úrsagnarmenn að auki ráðherra í utanríkisráðuneytinu: Liam Fox fer með utanríkisviðskiptamál og David Davis fer með Brexit-mál, það er samninga vegna ESB-úrsagnar Breta.
Vilji May er að áfram verði um eitt ráðuneyti að ræða með þremur ráðherrum. Þetta skipulag stuðlar þó ekki að sátt og samlyndi og nú hefur verið lekið bréfi frá Fox sem vill skipta ráðuneytinu, hann stjórni utanríkisviðskiptaráðuneyti en Johnson fari með hefðbundin utanríkis- og öryggismál, þar á meðal yfirstjórn leyniþjónustunnar MI6 og hlerunar- og fjarnjósnamiðstöðvarinnar GCHQ.
Byrjað frá grunni
Davis segir að hann verði að handvelja „mestu snillingana“ innan stjórnarráðsins til að vinna fyrir sig í Department for Exiting the European Union, ráðuneytinu um úrsögn úr Evrópusambandinu. Hann segist jafnframt hafa tíu umsækjendur um hvert starfanna 250 sem um sé að ræða.
Innan breska stjórnarráðsins er sem sagt erfitt að finna sérfræðinga til að gera alþjóðlega viðskiptasamninga. ESB hefur gert alla slíka samninga fyrir hönd Breta síðan 1973. Bresku sérfræðingarnir á þessu sviði starfa fyrir ESB og er óvíst hvort þeir vilji ganga í þjónustu bresku ríkisstjórnarinnar. Þar fyrir utan er breskum stjórnvöldum óhjákvæmilegt að þjálfa sérstakan hóp manna til að glíma við fulltrúa Evrópusambandsins sjálfs vegna úrsagnarinnar.
Þekkingarskortur, reynsluleysi og óljós samningsmarkmið tefja framkvæmd vilja bresku þjóðarinnar um ESB-úrsögn. Einmitt þess vegna hefur Theresa May sagt að hún vilji ekki hefja tveggja ára samningsferli um úrsögnina samkvæmt 50. grein Lissabon-sáttmálans fyrr en eftir næstu áramót. Til úrsagnarinnar kæmi þá síðla árs 2019.
Skömmu eftir að Davis tók við ráðherraembættinu voru fréttir í blöðum um að hann íhugaði einhverja Kanada-lausn gagnvart ESB. Fráleitt er að ætla að hún tryggi Bretum það sem þeir vilja: aðild að innri markaði ESB. Aðeins eitt ráð dugar til þess: aðild að EFTA og að samningnum um evrópska efnahagssvæðið (EES).
Bretar og EES-samningurinn
Vanþekking breskra stjórnmálamanna og álitsgjafa á þeim kostum sem eru fyrir hendi gagnvart ESB birtist meðal annars í lítilsvirðingu þeirra á EES-samningnum og fullyrðingum um að niðurlæging felist í aðild EFTA-ríkjanna, Íslands, Liechtensteins og Noregs, að honum.
Christopher Booker, dálkahöfundur The Sunday Telegraph, sker sig úr meðal breskra blaðamanna vegna þekkingar sinnar á innviðum ESB. Hann fagnar því sunnudaginn 14. ágúst sem ljósgeisla í dimmri þokunni um ESB-úrsögnina að David Davis ætli bráðlega að heimsækja Noreg.
Booker segir réttilega að engin önnur leið en EES-samningurinn tryggi Bretum, eftir brotthvarf þeirra úr ESB, aðild að innri markaði ESB. Meirihluti Breta vilji njóta sameiginlega markaðarins, líka flestir þeirra 48% sem sögðust vilja vera áfram í ESB. Vonandi ræði Davis EES-aðild við Norðmenn enda sé það í samræmi við vilja Theresu May og ráð þeirra embættismanna sem best séu að sér.
Í gagnrýni á aðild Breta að EES-samningnum er jafnan sagt að hann tryggi þeim ekki rétt til að takmarka fjölda innflytjenda til Bretlands. Þessi fullyrðing stenst ekki. Liechtensteinar hafa rétt til slíkrar takmörkunar í krafti 112. gr. EES-samningsins.
Hik Norðmanna
Elisabeth Vik Aspaker, EES-ráðherra í Noregi, sagði nýlega í samtali við Aftenposten að ekki væri víst að Bretar ættu erindi í EFTA, Fríverslunarsamtök Evópu. Hvert EFTA-ríkjanna fjögurra (Íslands, Liechtensteins, Noregs og Sviss) hefur neitunarvald um hvort fjölga eigi aðildarríkjum. Aspaker sagðist ekki vita hvað Bretar vildu, það væri þó ekki endilega Norðmönnum í hag að svo fjölmenn þjóð gengi í EFTA og raskaði öllu jafnvægi þar.
Í The Guardian var sagt að yrði Bretum haldið utan EFTA jafngilti það að þeir fengju ekki aðild að innri markaðnum með EES-samningnum. Á það var bent á móti að vildi ESB veita Bretum EES-kjör en EFTA-ríkin stæðu gegn því gæti ESB einfaldlega rift samningnum við EFTA-ríkin, samið við Breta og boðið EFTA-ríkjunum aðild að þeim samningi!
Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra aftekur ekki aðild Breta að EFTA. Hún sagði föstudaginn 12. ágúst við norsku fréttastofuna NTB að fjölgaði ríkjum í klúbbi fengi hann venjulega meiri alþjóðleg áhrif. Það væri ótímabært að útiloka aðild Breta að EFTA.
Afstaða utanríkisráðherra Íslands er raunsærri en afstaða norska ráðherrans. Fráleitt er að fæla Breta frá viðræðum um aðild að EFTA þegar við blasir að EES-samningurinn með sérákvæðum fyrir þá í krafti 112. gr. hans getur falið í sér viðunandi aðild þeirra að innri markaðnum þó ekki væri nema til bráðabirgða.
Norðmenn eru nú stóri og í mörgu tilliti ráðandi aðilinn EFTA-megin í EES-samstarfinu. Þeim líður vel í því hlutverki, nöldur norskra ESB-aðildarsinna í garð EES-samningsins er að vísu leiðigjarnt og í flestu ómaklegt. Norðmenn vilja ekki endilega missa forræðið sem stærsta EFTA/EES-þjóðin í hendur Bretum.
Ólíklegt er, svo að ekki sé meira sagt, að hik Norðmanna nú breytist í andstöðu við EFTA-aðild Breta komist hún á dagskrá. Norðmenn eiga mikið undir viðskiptum við Breta og hafa engan hag af ágreiningi um þau við þá.