Miðvikudagur 31. 08. 16
Í dag ræddi ég við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, aðstoðarmann innanríkisráðherra og frambjóðanda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðurlandi vestra, í þætti mínum á ÍNN. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld.
Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, skrifar fróðlega grein í Morgunblaðið í dag í tilefni af grein sem ég birti í blaðinu 19. ágúst þar sem ég vakti máls á 112. gr. EES-samningsins og að í krafti hennar gætu Bretar fengið viðurkenningu á að rétti sínum til að takmarka frjálsa för til lands síns gerðust þeir aðilar að EES-samningnum sem er auðveldasta leið þeirra til að halda tengslum við innri markað ESB eftir úrsögn úr ESB. Sjá grein mína hér.
Kjartan lýsir aðdraganda þess að samkomulag náðist um 112. greinina en íslensk stjórnvöld hefðu talið „pólitískt nauðsynlegt og af ýmsum ástæðum rétt að sækjast eftir öryggisventli að því er varðaði frjálsa för fólks, þannig að Ísland ætti rétt til að grípa í taumana ef allt færi úr böndunum“.
Þetta var einmitt eitt af hitamálunum á alþingi þegar fjallað var um EES-samninginn og er eitt af hitamálunum vegna úrsagnar Breta úr ESB. Hvort þeir geti takmarkað frjálsa för til lands síns.
Kjartan segir að ekki hafi verið unnt að semja við ESB um undanþágur heldur rétt „til að grípa til aðgerða í óbærilegu ástandi, með ströngum ákvæðum um sönnun ástands og rétti gagnaðila til mótatgerða. Í stað undanþága, sem ekki fengust, komu öryggisákvæði“. Hafi Íslendingar undir forystu Hannesar Hafsteins aðalsamningamanns teflt fram kröfu um sams konar öryggisákvæði og Íslendingar höfðu í samningnum um norrænan vinnumarkað. Þetta sjónarmið hafi ratað inn í 112. gr. EES-samningsins en það sé „einungis unnt að nýta í neyð“.
Spyrja má hvað sé „neyð“ í þessu sambandi. Ákvörðun Breta um ESB-úrsögn hefur leitt til „neyðarástands“ sem verður að ljúka áður en það verður óviðráðanlegt eða tjónið varanlegt. Í leit að leið út úr vandanum verður að skoða alla kosti og þar með 112. gr. EES-samningsins. Greinin hlýtur að gilda fyrir alla en ekki suma hver sem aðdragandi hennar var.
Að lokum eru það sáttmála- eða samningsákvæði sem ráða niðurstöðu ágreinings innan EES/ESB. Þau verður að túlka samkvæmt orðanna hljóðan hvaða skoðun sem menn hafa á þeim. Að þessu leyti standa Liechtensteinar og Íslendingar jafnfætis Bretum.