Fimmtudagur 04. 08. 16
Viðtal mitt við Magnús Þór Hafsteinsson á ÍNN er komið á netið og má sjá það hér.
Nokkrar umræður hafa orðið undanfarið um öryggismál Íslands. Lilja D. Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Robert Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, birtu miðvikudaginn 29. júní yfirlýsingu sem endurspeglar aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli vegna breytts mats á hernaðarstöðunni á N-Atlantshafi. Yfirlýsingin er innan ramma varnarsamningsins frá 1951 en hróflar ekki á neinn hátt við ákvæðum hans.
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson stjórnmálafræðingur skrifar um þessa yfirlýsingu í Fréttablaðið í dag og kallar hana „samning“ og lætur eins og „lýðræðið hafi gersamlega verið sniðgengið í sambandi“ við hann. Var yfirlýsingin þó kynnt í utanríkismálanefnd 10. júní 2016 og gerð hennar hófst að frumkvæði Íslendinga í tíð Gunnars Braga Sveinssonar sem utanríkisráðherra, það er veturinn 2015 til 2016.
Gunnar Hólmsteinn hneykslast á því fyrirkomulagi sem hefur verið í 10 ár, að íslensk stjórnvöld annist rekstur varnaraðstöðu og –búnaðar á Keflavíkurflugvelli og veiti gistiríksstuðning við flugsveitir erlendra samstarfsríkja. Að þessu leyti er ekkert nýmæli að finna í yfirlýsingunni þótt Gunnar Hólmsteinn tali þar um nýjan kafla „í sögu öryggis og varnarmála á Íslandi“.
Annað í útlistun greinarhöfundar er í sama dúr. Hann horfir fram hjá efni yfirlýsingarinnar um gildi varnarsamningsins frá 1951 og telur að til hafi orðið ígildi nýs samnings. Þá segir hann sér „ekki kunnugt um að samráð hafi verið haft við sjálfstæðismenn“ í málinu. Hvers vegna skyldi Gunnari Hólmsteini átt að vera kunnugt um það? Er hann innanbúðarmaður í Sjálfstæðisflokknum? Það er hins vegar formaður utanríkismálanefndar alþingis, Hanna Birna Kristjánsdóttir. Málið var kynnt henni og nefnd hennar.
Á grundvelli eigin kenninga um að utanríkisráðherra hafi ritað undir yfirlýsinguna án samráðs telur Gunnar Hólmsteinn að ef til vill megi flokka þetta sem „aðför að fullveldi Íslands“ enda hafi utanríkismálanefnd alþingis verið „algerlega“ sniðgengin í málinu.
Steinunn Þóra Árnadóttir er fulltrúi vinstri grænna í utanríkismálanefndinni og gagnrýnin á yfirlýsinguna. Hún sendi sjálf frá sér yfirlýsingu 30. júní þar sem sagði meðal annars: „utanríkisráðherra beið fram á síðasta starfsdag nefnda fyrir sumarleyfi með að upplýsa utanríkismálanefnd um að til stæði að undirrita þessa yfirlýsingu“.
Hvers vegna leggja menn sig gjarnan fram um að afflytja umræður um öryggis- og varnarmál? Líklega vondur málstaður þeirra.